131. löggjafarþing — 124. fundur,  6. maí 2005.

Útflutningur hrossa.

727. mál
[15:23]

landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég tek undir það að menn leggja mikinn metnað í þetta starf og vanda sig í markaðssetningunni og það myndast mikið samband á milli kaupenda íslenskra hesta og þeirra bæja eða sölumanna sem selja hestana. Það er mjög mikilvægt. Það þarf ekki annað en að koma t.d. á heimsmeistaramótin — nú verður eitt slíkt haldið í Svíþjóð í sumar — heimsmeistaramót íslenska hestsins. Þar munu koma saman tugir þúsunda manna alls staðar að með hestinn sem þeir elska og fara vel með. Sem betur fer hafa Íslendingar sigrað þessi mót öll síðustu ár. Það sýnir að við erum fremstir með okkar hest enn þá og eigum frábæra knapa og stöndum vel að þessu. Það verða fluttir út hestar einhvern tíma á næstunni fyrir þetta mót, sem verður líklega í ágúst, og þeir standa sig þetta vel, þessir hestar.

Ég hef séð að hestamenn hér, sem óttast auðvitað þetta exem, gefa út mjög rækilegar leiðbeiningar til hestamanna sem eru að kaupa íslenska hestinn, hvernig fara á með hestinn á tíma flugunnar undir miðnættið o.s.frv., hvernig vaka þarf yfir því og taka hann þess vegna í hús o.s.frv. Ég hef komið í hesthús í Evrópu þar sem menn taka hestinn inn, eru með úðunarkerfi, þannig að menn vita þetta allt saman.

Ég ætla ekki að draga úr því sem kom fram hjá hv. þingmanni og fleirum að það þarf að vaka yfir þessari velferð, afla þarf þekkingar og gera þetta sem best úr garði, því að ég er sannfærður um að 1.500 hross flutt út í dag eru meira virði en þegar við fluttum út 3.000. Við fáum meiri peninga fyrir 1.500 en fyrir 3.000 áður. Við erum að selja úrvalshross sem við fáum hátt verð fyrir. Þannig ber auðvitað að þróa þetta starf. Áður fóru menn kannski með heilu hópana út á einhverjar sléttur og ætluðu að selja hrossin þar eins og í stóðréttum Íslands. Það er löngu liðin tíð, þetta er með allt öðrum hætti.