131. löggjafarþing — 124. fundur,  6. maí 2005.

Lánasjóður landbúnaðarins.

786. mál
[15:33]

Frsm. meiri hluta landbn. (Drífa Hjartardóttir) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Bændur eru almennt mjög góðir lántakendur, þeir standa í skilum hvar sem þeir taka lán. Það eru ekki allar stéttir sem geta hrósað sér af því en þannig orðspor fer af bændum. Ákveðnar greinar í landbúnaði hafa átt í erfiðleikum eins og t.d. loðdýraræktin, en það er alveg gegnumgangandi að bændur hafa staðið í skilum hjá Lánasjóði landbúnaðarins og það geta nefndarmenn vottað eftir yfirferðina.

Það var farið mjög vel yfir málið í landbúnaðarnefnd og fjöldi gesta kom til nefndarinnar. Það kom líka fram að Lífeyrissjóði bænda er óheimilt að taka við Lánasjóði landbúnaðarins, það var allt saman kannað.

Forsaga málsins er að 10. janúar 2005 setti hæstv. landbúnaðarráðherra á stofn verkefnisstjórn sem var falið að endurskoða framtíðarhlutverk og tilgang Lánasjóðs landbúnaðarins í ljósi þeirrar þróunar sem hafði átt sér stað og við höfum rætt um. Staðan var orðin þannig að sjóðnum var að blæða út og það varð að taka á því verkefni. Í verkefnisstjórninni sátu Haraldur Benediktsson og Sigurgeir Þorgeirsson frá Bændasamtökum Íslands, Guðmundur Stefánsson, tilnefndur af stjórn Lánasjóðs landbúnaðarins, og Baldur Erlingsson og Eysteinn Jónsson, fulltrúar landbúnaðarráðuneytisins.

Tillagan kom eftir þá yfirferð og verið að bregðast við tilteknu ástandi. Eins og hv. þm. Jón Bjarnason veit hafa uppgreiðslur úr sjóðnum verið gríðarlega miklar og sjóðurinn getur einfaldlega ekki staðið undir því með það litla (Forseti hringir.) fjármagn sem eftir er þegar búið er að greiða allt þetta upp.