131. löggjafarþing — 124. fundur,  6. maí 2005.

Lánasjóður landbúnaðarins.

786. mál
[15:41]

Frsm. meiri hluta landbn. (Drífa Hjartardóttir) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Menn geta greitt upp lánin án uppgreiðslugjalds, það er alveg hreinu, og stimpilgjöldin eru óbreytt í lögum eins og þau eru í dag.

Bændur hafa verið að greiða búnaðargjald til Lánasjóðs landbúnaðarins. Það var ekki tekin ákvörðun um að breyta því á þessu stigi, það þarf að reikna það allt saman upp aftur. Bændur hafa einmitt viljað losna við að greiða þetta ákveðna gjald til lánasjóðsins. Búnaðargjaldið fer til Bændasamtakanna í ákveðnum hlutföllum. Þetta er eitt af því sem hlýtur að koma til kasta okkar í haust að breyta, því að með gjaldinu hafa menn verið að greiða niður vexti og ekki allir notið, eins og hv. þm. Margrét Frímannsdóttir gat um áðan. Ákveðin tegund bænda eins og garðyrkjubændur búa ekki á jörðunum og þeir hafa ekki notið þess að fá fyrirgreiðslu frá Lánasjóði landbúnaðarins. Þetta þarf allt að skoða og var rætt í nefndinni við Bændasamtökin, en þeir báðust undan því að það yrði ákveðið núna með lögum þannig að þeir fengju tíma til að yfirfara málið. Við munum koma með tillögu í haust því auðvitað hlýtur búnaðargjaldið að lækka í kjölfarið á þessu máli.