131. löggjafarþing — 124. fundur,  6. maí 2005.

Lánasjóður landbúnaðarins.

786. mál
[15:46]

Frsm. minni hluta landbn. (Jón Bjarnason) (Vg):

Frú forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti minni hluta landbúnaðarnefndar um Lánasjóð landbúnaðarins. Að því nefndaráliti stend ég sem er fulltrúi Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs í hv. landbúnaðarnefnd.

Hinn 18. apríl sl. var útbýtt hér í þinginu frumvarpi til laga um breytingu á lögum nr. 68/1997, um Lánasjóð landbúnaðarins. Frumvarpið felur í sér að heimila landbúnaðarráðherra að selja eignir sjóðsins og leggja hann niður.

Skilafrestur þingmála til að komast á dagskrá þessa þings sem nú stendur og lýkur senn var 1. apríl. Þurfti því að veita afbrigði til að taka málið á dagskrá. Málið kom á dagskrá 19. apríl, daginn eftir að því var útbýtt, og þurfti þá að veita sérstakt afbrigði vegna þess hve skammur tími var liðinn frá útbýtingu þess. Þingflokkur Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs var andvígur því að þessi afbrigði yrðu veitt þar sem ekki var brýnt tilefni til að keyra þetta mál áfram á svo miklum hraða.

Lánasjóðurinn á sér áratuga sögu. Ef landbúnaðarráðherra var umhugað um að leggja fram frumvarp viðvíkjandi sjóðnum og að það fengi vandaða þinglega meðferð átti honum ekki að vera neitt að vanbúnaði að gera það innan tilskilins frests þingsins.

Á fundi landbúnaðarnefndar 26. apríl kom frumvarpið um sölu Lánasjóðsins á dagskrá nefndarinnar. Undirritaður óskaði eftir að leitað yrði skriflegra umsagna um málið til þeirra aðila sem hagsmuna eiga að gæta varðandi sjóðinn eða vilja láta málefni hans sig varða. Það er hin hefðbundna vinna við þingmál sem fara til nefndar. Það kom því mjög á óvart að formaður nefndarinnar hafnaði þeirri beiðni og tilkynnti að meiri hlutinn ætlaði sér að keyra málið út úr nefndinni án skriflegra umsagna hagsmunaaðila og annarra sem ég hef hér nefnt. Þessum vinnubrögðum meiri hlutans mótmælti ég harðlega í nefndinni, taldi það alveg fáheyrt að sýna þessu máli svo litla virðingu, telja það svo lítils virði að ekki þyrfti að láta það fá eðlilega og vandaða þinglega meðferð eins og annars er venja til, leita umsagna og gefa til þess hæfilegan frest til að aðilar geti sent inn skriflegar umsagnir. Því var hafnað og ég átel slík vinnubrögð.

Lánasjóður landbúnaðarins var stofnaður með lögum árið 1998 og var hann framhald af Stofnlánadeild landbúnaðarins sem starfaði við hlið Búnaðarbankans. Lánasjóður landbúnaðarins er stofnun í eigu ríkisins og heyrir undir landbúnaðarráðherra.

Við einkavæðingu og sölu atvinnuvegasjóðanna og ríkisbankanna tókst að forða atvinnuvegasjóði bænda frá hremmingum og stofnaður var Lánasjóður landbúnaðarins. Hlutverk hans er skv. 2. gr. laganna „að tryggja landbúnaðinum aðgang að lánsfé til fjárfestinga á hagstæðum kjörum og stuðla þannig að æskilegri þróun atvinnuvegarins. Sjóðurinn veitir lán til bænda og þjónustufyrirtækja landbúnaðarins, svo sem nánar er kveðið á um í lögum þessum.“

Samkvæmt 7. gr. laganna veitir hann lán m.a. til eftirtalinna verkefna: til jarðakaupa, ræktunar, bygginga er varða landbúnað, vatns- og varmaveitna í sveitum, bústofns- og vélakaupa, hagræðingarverkefna og til ýmiss annars atvinnustarfs og nýsköpunar í sveitum.

Lánareglur hans hafa verið fullkomlega gagnsæjar og með starfsemi sjóðsins hefur verið reynt að stuðla að því sem kveðið er á um að sé eina hlutverk hans „æskilegri þróun atvinnuvegarins“. Sjóðurinn gegnir því mikilvægu hlutverki í byggðamálum með því að veita lán til landbúnaðar á jafnræðisgrunni óháð búsetu.

Fulltrúar Bændasamtakanna og Byggðastofnunar sem komu fyrir landbúnaðarnefnd viðurkenndu byggðahlutverk sjóðsins og töldu ólíklegt að viðskiptabankar mundu lána bændum á jafnræðisgrunni óháð búsetu. Í nefndaráliti meiri hlutans er einmitt viðurkennd sú staðreynd að það sé líklegt að aðstaða bænda til að leita lána- og fjármálaþjónustu á hinum almenna markaði verði ójöfn og þess vegna er þar lagt til að kanna möguleikana hjá Byggðastofnun. Yrði sjóðurinn lagður niður töldu þessir gestir að til þyrfti að koma annar sjóður eða félagslegar aðgerðir til að tryggja þeim bændum fjármálaþjónustu sem viðskiptabankar höfnuðu viðskiptum við eða byðu afarkosti. Fulltrúar Byggðastofnunar töldu eðlilegt að þeirri stofnun yrði fengið það hlutverk en þá yrði ríkisvaldið að koma með aukið fjármagn inn í stofnunina ef hún ætti að geta sinnt því hlutverki. Er þá spurning hvað er unnið við að leggja niður lánasjóðinn sem ríkisvaldið ber nú þegar ábyrgð á. Ekki er kveðið á um það í frumvarpinu hvernig á þessu hlutverki sjóðsins verður tekið og er það harðlega gagnrýnt að byggðahlutverk sjóðsins skuli skilið eftir í fullkomnu uppnámi ef þessi lög um að einkavæða og selja sjóðinn ná fram að ganga.

Lánasjóður landbúnaðarins, áður Stofnlánadeildin, hefur átt ríkan þátt í að byggja upp og þróa íslenskan landbúnað. Hann hefur aftur og aftur tekið þátt í aðgerðum til að verja einstakar búgreinar og bændur áföllum og hefur lagt drjúgt af mörkum í að tryggja dreifðan sjálfseignarbúskap vítt og breitt um landið. Lánareglur sjóðsins eru fullkomlega gagnsæjar og bændur hafa haft jafnan aðgang að sjóðnum óháð búsetu. Útlánatöp sjóðsins hafa verið nánast hverfandi. Í gegnum áratugina hefur byggst upp ákveðið munstur í fjármögnun búskapar bænda sem hafa verið grunnlán frá Lánasjóði landbúnaðarins, áður Stofnlánadeildinni, og viðbótarfjármögnun frá næsta héraðssparisjóði, bankaútibúi og afurðastöð.

Þótt einstaka bóndi velji nú að segja upp viðskiptum við sjóðinn vegna þess að hann metur aðra möguleika betri á það ekki við um meginþorra bænda. Og framtíð einstakra peningastofnana er mörgum duttlungum háð. Hafa verður þessa sérstöðu í huga við ákvörðun ríkisvaldsins um sölu á Lánasjóði landbúnaðarins. Hér er um að ræða 1. veðrétt í nánast öllum jörðum á Íslandi. Í flestum tilvikum er íbúðarhúsið og allt land veðsett fyrir hverju einstöku láni, hvort sem það er vegna útihúsabygginga, dráttarvélakaupa eða annars. Í lagafrumvarpinu eru engar leiðbeiningar tilgreindar um hver skuli vera réttur skuldara, viðskiptavina sem í góðri trú hafa bundið áratuga viðskipti sín við sjóðinn. Það er átalið hér að ekki skuli vera nein leiðsögn eða fyrirmæli um hvernig fara skuli með þessa viðskiptasamninga. Verða þeir t.d., eins og áður hefur verið minnst á í umræðunni, bundnir átthagaböndum við væntanlegan kaupanda? Hvernig verður háttað yfirfærslugjaldi eða stimpilgjöldum hjá nýjum aðila ef hann kaupir upp? Hver verður staðan? Nú tíðkast það þegar viðskiptabankar gera viðskiptasamninga við einstaklinga eða fyrirtæki að þá vilja þeir fá öll viðskipti viðkomandi. Margir bændur úti um land eru líka stórviðskiptavinir sparisjóðanna sinna, sparisjóðanna á Norðausturlandi, Vestfjörðum og víðar. Þegar kaupandi hefur keypt lánasjóðinn er óvíst að bændur hafi sama frjálsræði og frelsi, án þess að ganga á viðskiptakjörin, til að deila viðskiptum sínum við aðila sem þeir hafa gert í áratugi.

Ég heyri að landbúnaðarráðherra gerir lítið úr þessu, frú forseti, og það er hans mál. Ég tel það mikilvægt mál, áratugaviðskiptasambönd við bændur, og ekki eigi að gera lítið úr þeim með einhverju fánýtu hjali og muldri ofan í bringuna, eins og hæstv. ráðherra gerði hér. (Gripið fram í.) Já, já, við eigum allir góða að, syni og feður, hæstv. ráðherra, og mæður og dætur og systur, ef út í það er farið. En ég skal segja ykkur, frú forseti, úr því að hæstv. ráðherra er kominn út í fjölskyldumál, hvernig þetta er í viðskiptasamböndum nú. Það hafði samband við mig maður sem var í sambandi við viðskiptabanka og sjáið nú hvernig hlutirnir gerast á eyrinni. Bankinn bauð honum viðskipti og þann „díl“ að ef hann kæmi með öll viðskipti sín í bankann fengi hann þessi tilteknu kjör. Síðan sagði hann líka og var þá með flettiskrá fyrir framan sig: Þú átt líka syni og bræður þarna. Geturðu kannski líka fengið þá til að koma í viðskipti við bankann? Þá skal ég gera þér enn þá betri díl.

Auðvitað er hægt að ganga langt í slíkum viðskiptamálum þó að mér finnist þetta nokkuð langt gengið, en fyrir stórar fjölskyldur, eins og við Guðni eigum, getur þetta svo sem verið mál. Ég nefni þetta til að sýna og undirstrika að það er allt annað umhverfi sem ræður á hinum almenna viðskiptabankamarkaði. Þar ríkja engar gegnsæjar viðskiptareglur heldur ráða einstaklingsbundnir samningar för og þá er ekki víst að allir sitji jafnir við borðið. En það hefur einmitt verið aðal Lánasjóðs landbúnaðarins að hann hefur verið með gagnsæjar reglur og þótt hann í sumum tilvikum hafi ekki getað sinnt ýtrustu fjármagnsþörfum einstakra búa hefur hann veitt almennan grunn sem hefur verið veittur jafnt fyrir alla.

Frú forseti. Að mínu mati er fullkomið ábyrgðarleysi að afgreiða svo opna heimild til sölu á Lánasjóði landbúnaðarins eins og þetta frumvarp gerir ráð fyrir. Einkakvæðingarspor ríkisstjórnarinnar hræða, ekki skapa þau traust. Hér er þetta bara afgreitt eins og frumvarpið kveður á um, frú forseti, og sagt: „Landbúnaðarráðherra er heimilt að selja allar eignir og semja um yfirtöku skulda Lánasjóðs landbúnaðarins.“ Það er í sjálfu sér engin leiðsögn um hvernig að skuli farið eða um réttarstöðu viðskiptavinanna.

Í skýrslu sem sérstök nefnd vann á vegum landbúnaðarráðherra, og hér hefur verið minnst á um stöðu lánasjóðsins, er rakinn vandi sjóðsins, m.a. vegna breytts fjármálaumhverfis og nokkuð erfiðrar rekstrarstöðu, minnst á að greidd hafi verið upp lán og einstaka bændur hafi fært sig úr lánasjóðnum og gert samning við aðrar bankastofnanir. Það upplýstist reyndar að verulega hefði hægt á þeim uppgreiðslum. Menn áttuðu sig á að ekki er allt gull sem glóir þó að viðskiptabankar bjóði kannski tímabundið einhver sérstök vildarkjör meðan þeir eru að ná viðskiptum til sín, meðan verið er að brjóta niður þrek lánasjóðsins, hliðstætt því sem við þekkjum núna með Íbúðalánasjóð. Það var gert áhlaup á Íbúðalánasjóð hvað þetta varðar. Sterkir viðskiptabankar geta lagt á sig einhvern ákveðinn fórnarkostnað meðan verið er að brjóta viðskiptin undir sig og þetta voru líka um tíma vandamál Lánasjóðs landbúnaðarins.

Meginþorri bænda er þar samt áfram og hefur ekki breytt til. Ef ekki hefði komið til þessi umræða nú í vetur um sölu sjóðsins tel ég að meiri líkur hefðu verið til að þessar uppgreiðslur hefðu getað staðnæmst og sjóðurinn reynt að ná stöðugleika á ný.

Hitt er alveg rétt sem kemur fram í skýrslunni og hér hefur verið drepið á um stöðu sjóðsins, að vandi hans er að vera fjármagnaður með lánum sem bera milli 5 og 6% vexti og síðan að viðbættu ríkisábyrgðargjaldi er fjármagn sjóðsins sjálfs sem menn eru að lána út með kannski rúmlega 6% vöxtum, og það er allt of hátt. Ég tel að það hefði átt m.a. að leita samninga við þá aðila sem ættu þessi skuldabréf, kanna hvort það væri hægt. Einnig er furðulegt að þetta ríkisábyrgðargjald skuli vera rukkað inn því að í umræðunni hefur komið fram að það hafi verið mjög góð skil. Eins og hv. þm. Drífa Hjartardóttir minntist á og ég get alveg heils hugar tekið undir hafa bændur reynst einhverjir traustustu viðskiptavinir fjármálastofnana og staðið í flestum og meginþorra tilfella og nánast undantekningarlaust við skuldbindingar sínar. Það er fullkomlega athugunarvert að ríkið skuli vera að innheimta ríkisábyrgðargjald af útlánunum, ekki síst þegar það eru bændur sem hafa að stórum hluta fjármagnað þann mismun sem hefur verið í vaxtagreiðslum sjóðsins og gert honum kleift að lána fé á lægri vöxtum.

Mér finnst því að ýmislegt í umgjörð sjóðsins hefði átt að kanna áður en farið var út í svona dramatískar aðgerðir, að leggjast bara með lappirnar upp í loftið, gefast upp, selja sjóðinn og leggja hann niður, eins og landbúnaðarráðherra velur.

Í skýrslunni sem sérstök nefnd vann á vegum landbúnaðarráðherra um stöðu lánasjóðsins er rakinn vandi sjóðsins, eins og ég nefndi áðan. Ekki skal lítið gert úr þeim vanda. En verkefnisstjórn landbúnaðarráðherra leggur bara til þá einu leið að leggja niður sjóðinn og selja eignir hans og skuldbindingar, það er í rauninni eina leiðin sem hún leggur til. Að mínu mati hefði verkefnisstjórnin átt að leggja upp valkosti í framtíðarrekstri sjóðsins sem ríkisvaldið og samtök bænda hefðu getað kynnt sér og tekið afstöðu til. Að mati minni hlutans virðist sem tekin hafi verið ákvörðun um að leggja niður sjóðinn — a.m.k. fær maður sterklega þá tilfinningu — fyrir allnokkru síðan og settur sá ferill í gang sem leiddi til þessarar niðurstöðu. Annars hefði verkefnisstjórnin lagt fleiri valkosti til, hversu góðir sem þeir annars hefðu verið. Þeir hefðu þurft að leggja mat á það því að sjóðurinn er á forsjá ríkisvaldsins.

Því miður, frú forseti, þarf þessi aðferðafræði ekki að koma mikið á óvart í þeirri einkavæðingarfíkn sem heltekur nú ríkisstjórn Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins í mörgum þeim almannaþjónustumálum sem hafa verið einkavædd og stendur til að einkavæða og selja nú á þessum tímum. Nægir að nefna þar sölu Símans þar sem verið er að keyra fram sölu Símans, þess almannaþjónustufyrirtækis sem hefur skilað miklum arði til ríkissjóðs. Skoðanakannanir hafa sýnt að milli 70 og 80% landsmanna eru andvíg sölu Símans, en samt keyra framsóknarmenn og Sjálfstæðisflokkurinn söluna fram. Einkavæðingarfíknin á sér engin takmörk og núna lendir Lánasjóður landbúnaðarins undir þeim einkavæðingarhníf Framsóknarflokksins.

Það er vissulega ástæða til að endurmeta verkefni og stöðu Lánasjóðs landbúnaðarins og þar með einnig svokallað búnaðargjald sem bændur greiða til sjóðsins. En það framlag er bundið í lögum og mun því væntanlega gilda út þetta ár að óbreyttu því að ekki liggur fyrir frumvarp til laga um breytingar þar á.

Við þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs höfum lagt til að skoðaðar yrðu ýmsar leiðir í rekstri sjóðsins, svo sem að afmarka lánaflokka hans og skera niður stjórnunarkostnað eða að sjóðurinn verði rekinn sem deild í öðrum fjármálastofnunum, t.d. með eða í samstarfi við Lífeyrissjóð bænda, við höfum nefnt það. En vegna hins mikla hraða og þjösnaskapar meiri hlutans í afgreiðslu þessa máls hefur nefndinni ekki gefist tóm til að kanna neinar þessara leiða í rekstri sjóðsins.

Það má og benda á að nú standa yfir alþjóðasamningar um skipan á opinberum stuðningi við landbúnað og verslun með landbúnaðarafurðir. Niðurstaða þeirra viðræðna getur haft víðtæk áhrif á búsetumunstur til sveita, rekstrargrundvöll hinna ýmsu greina landbúnaðarins og jafnframt líka fjárhagslega aðkomu hins opinbera að þróun landbúnaðarins og viðgang hans á næstunni. Þar einmitt gæti lánasjóðurinn í endurskoðaðri mynd, eftir því sem menn þar yrðu ásáttir um, komið til að vera þáttur í.

Þess vegna tel ég það vera mjög óvarlegt og óviturlegt að hlaupa nú til og leggja niður Lánasjóð landbúnaðarins í þeirri viðkvæmu stöðu sem nú er á innlendum peningamarkaði og einnig í alþjóðasamningum um stöðu landbúnaðarins.

Skemmst er að minnast, frú forseti, umræðna á þingi í fyrra og hittiðfyrra um hvernig viðskiptabankar hafa í auknum mæli komið inn í atvinnurekstur og landbúnað. Hver var það sem keyrði fram kjötstríðið fyrir tveimur, þremur árum? Voru það ekki viðskiptabankarnir sem keyrðu það fram? Þeir voru stærstu aðilarnir í eigendum og rekstri á kjúklingabúum, svínabúum, og enn þá hygg ég að það sé viðskiptabanki sem sé stærsti svínakjötsframleiðandinn í landinu. Hvaða rekstrarform og samkeppnisstaða er það þegar viðskiptabankar eru samtímis að veita lán, veita fjármálafyrirgreiðslu til almenns landbúnaðar og standa einnig sjálfir í rekstri á fyrirtækjum eða búum sem eru þar að hluta til í heildarmyndinni og í samkeppni á markaði? Þeir hafa alla stöðu til þess að keyra niður framleiðslukostnaðinn og keyra niður verð, eins og við upplifðum fyrir nokkru síðan að bankarnir væru að gera. Þetta er því ekki svo einfalt með þeim hætti sem við nú búum við að hleypa svona sjóði, svona verkefnum inn á hinn almenna bankamarkað.

Ég var síðast að hlusta á útvarp í dag á viðtal við mann þar sem einmitt var verið að rekja hvað þetta traust til bankanna væri takmarkað. Menn þyrðu ekki með góðar viðskiptaáætlanir eða -hugmyndir inn í bankann af ótta við að hann mundi komast yfir þær, ná þeim af þeim og geta selt svo öðrum. Slíkt samband að viðskiptabankar geti staðið í samkeppnisatvinnurekstri er ólíðandi, frú forseti.

Við þekkjum þetta úr sjávarútveginum þar sem viðskiptabankarnir deila og drottna. Þeir hafa innleyst, keypt til sín sjávarútvegsfyrirtæki, ákveðið kaupendurna, ákveðið lánskjörin á fjármagninu hjá kaupendunum og þannig stýrt, deilt og drottnað. Hliðstæð mynd gæti blasað við okkur einmitt í landbúnaðinum líka, að sami banki væri með bændurna í viðskiptunum, kannski með rekstur á eigin búum eins og við þekkjum í dag. Hann væri líka einn af aðalfjármögnunaraðilum afurðastöðvanna og þá færi hann að beita sömu aðferð við landbúnaðinn eins og hann gerir nú í sjávarútvegi, að deila og drottna, ákveða hvaða bú, hvaða bændur fái eðlilega fjármagnsfyrirgreiðslu til að kaupa framleiðslurétt, til að byggja ný hús, útihús, vegna þess að hann væri að meta það út frá hagsmunum sínum hvernig því væri best fyrir komið, bæði hvað varðar búreksturinn, vinnsluna og dreifingu varanna eins og nú er beitt í sjávarútvegi. Þetta er ekkert grín, þetta er saga sem við þekkjum vítt og breitt um landið.

Hvernig hefði þetta t.d. orðið á Vestfjörðum, þar sem stóru viðskiptabankarnir áttu hlutdeild í að fiskveiðiheimildirnar voru fluttar í stórum stíl frá Vestfjörðum og annað, ef ekki hefðu þar komið til sparisjóðirnir til að standa á bak við einstaklingana í nýrri atvinnusköpun? Þá hefðu þessi byggðarlög staðið frammi fyrir stórkostlegum vanda.

Samþjöppun á peningamarkaðnum, eins og við höfum horft á undanfarið, er því veruleg ógnun við frjálst atvinnulíf í landinu. Það að ætla að fara að setja svona mikilvægan sjóð, þó að hann sé ekki stór, eins og Lánasjóð landbúnaðarins á þetta markaðstorg með 1. veðrétti í öllum jörðum á Íslandi, þar sem hinn nýi aðili getur deilt og drottnað yfir uppbyggingu íslensks landbúnaðar, hvar framleiðsluheimildirnar eru, hver fær lán, hver fær ekki lán, hver fær lán á viðeigandi kjörum og hver ekki, finnst mér ógnvænlegt

Við þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs höfum lagt fram á þinginu tillögu um að starfsemi viðskiptabanka verði einskorðuð við fjármálastarfsemi, að þeir hafi ekki heimild til að stunda atvinnurekstur eða reka atvinnufyrirtæki í samkeppnisrekstri um lengri tíma. Þetta hefur ekki fengist rætt.

Skemmst er að minnast orða hæstv. forsætisráðherra, sem hefur ekki hingað til kallað allt ömmu sína í einkavæðingarferlinu. En hann fjallaði, í ræðu á þingi Samtaka atvinnulífsins að mig minnir, um græðgina í þjóðfélaginu, peningagræðgina í þjóðfélaginu. Bragð er að þá barnið finnur, eins og sagt er. Hann vandaði um við banka og fjármálastofnanir sem stæðu allt í kringum borðið og sömdu við sjálfar sig um kjör og kaup og sölu á atvinnufyrirtækjum landsmanna. Hann var að vara við þessu. Honum leist ekki vel á og þó er hann einn af höfundum þeirrar vegferðar, græðgisvæðingar samfélagsins, sem hann nefndi í ræðu sinni. Sá kafli var ágætur en nokkuð seint í rassinn gripið, eins og sagt er.

Skyldu þetta ekki vera varnaðarorð gegn því að fara hægar í að einkavæða Lánasjóð landbúnaðarins? Sjóðurinn á að starfa a.m.k. út þetta ár, (Gripið fram í.) til næstu áramóta. Hefði ekki verið nær að gefa sér meiri tíma til fara yfir þetta mál í heild sinni? (KÓ: Á að setja sjóðinn í sóttkví?) Sjóðurinn er ekki að fara í þrot. Það er rangt. Ef hann væri að fara í þrot þá væri söluvirði hans ekki mikið, áttið ykkur á því. (Gripið fram í.) Það er ekki samtímis hægt að að tala um gjaldþrota sjóð en hins vegar sé hægt að fá fyrir hann stórfé. Það er fullkomin þversögn í svoleiðis málflutningi.

Við þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs höfum lagt fram tillögu á þinginu um að skipuð verði þverpólitísk nefnd til að taka á málefnum landbúnaðarins og tryggja og kanna þróunarmöguleika og áframhaldandi sátt. Sú tillaga liggur einmitt í landbúnaðarnefnd og hefði í sjálfu sér líka verið vel þess virði og nær að við hefðum afgreitt hana áfram inn til þingsins. Tillagan hljóðar svo, frú forseti, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að kjósa nefnd skipaða fulltrúum allra þingflokka til að vera stjórnvöldum og Bændasamtökunum til samstarfs og ráðuneytis við mótun nýs grundvallar fyrir búvöruframleiðsluna og gera tillögur um ráðstafanir til að treysta byggð í sveitum. Sérstaklega verði hugað að því hvernig útfæra megi búsetutengdan grunnstuðning sem hluta af stuðningi við landbúnað og búsetu í sveitum. Markmiðið væri að finna leiðir til fjölbreyttari nýsköpunar og þróunar í atvinnulífi strjálbýlisins, skapa meira jafnræði milli greina, undirbúa nauðsynlegar breytingar vegna nýrra alþjóðasamninga á sviði landbúnaðarmála og taka á vandamálum núverandi landbúnaðarkerfis.“

Mitt ráð væri að samþykkja þessa tillögu og setja þá vinnu í gang og taka fyrir í nefndinni m.a. hlutverk og stöðu Lánasjóðs landbúnaðarins. Það væru hin einu og réttu vinnubrögð, fremur en að gera þetta með þeim hætti sem hér er gert. Þessi tillaga okkar liggur fyrir landbúnaðarnefnd og ég bara ítreka að nær væri að Alþingi afgreiddi hana í stað þess að höggva niður félagslega grunnstoðir landbúnaðarins, eins og gert er með því að einkavæða og selja Lánasjóð landbúnaðarins fyrirhyggjulaust og nánast skilyrðalaust. Mikilvægt er að skoða málefni landbúnaðarins heildstætt og þar með líka framtíð Lánasjóðs landbúnaðarins.

Ég mundi leggja til að þessu frumvarpi, um sölu á Lánasjóði landbúnaðarins, verði vísað til ríkisstjórnarinnar og henni falið að skipa nefnd með fulltrúum allra þingflokka til að vera stjórnvöldum og Bændasamtökum til samstarfs og ráðuneytis við mótun nýs grundvallar fyrir búvöruframleiðsluna og gera tillögur um ráðstafanir til að treysta byggð í sveitum. Eitt af verkefnum nefndarinnar yrði að gera tillögur um framtíðarhlutverk og stöðu Lánasjóðs landbúnaðarins.

Frú forseti. Þetta tel ég að væru hin skynsamlegu vinnubrögð í stað þeirra flausturslegu vinnubragða sem hér eru viðhöfð af meiri hlutanum, þ.e. að taka bara ákvörðun um að selja sjóðinn, einkavæða hann og selja hann án þess að taka nokkuð á því hlutverki sem hann hefur gegnt til þessa, byggðahlutverki, jöfnunarhlutverki. Ekki er heldur hugað að stöðu viðskiptamannanna, skuldara sjóðsins. Menn skilja þá bara eftir. Þessi vinnubrögð eru bæði óábyrg og óskynsamleg og því legg ég til að þessu máli verði vísað til ríkisstjórnarinnar til frekari vinnslu og við reynum að taka heildstætt á málinu, með heill bænda og landbúnaðarins í fyrirrúmi.