131. löggjafarþing — 124. fundur,  6. maí 2005.

Lánasjóður landbúnaðarins.

786. mál
[17:30]

Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Við ræðum frumvarp um breytingu á lögum um Lánasjóð landbúnaðarins, með síðari breytingum. Ljóst er að Lánasjóður landbúnaðarins á talsvert í vök að verjast. Sjálfsagt verður ekki komist hjá því að gera verulegar breytingar á starfsemi sjóðsins miðað við stöðu hans og jafnvel leggja hann niður eins og verið er að ræða um.

Það verður hins vegar að segjast, hæstv. forseti, þótt ég sé ekki andvígur því að skoða þessi mál og jafnvel fara þá leið sem hér er lögð til að öðrum skilyrðum uppfylltum, þá er ekki þar með sagt að sú málsmeðferð sem hér hefur verið viðhöfð sé beinlínis að mínu skapi. Mér finnst í fyrsta lagi að málið hafi komið ákaflega seint í þingið, löngu eftir að frestur var liðinn. Í öðru lagi tel ég að betra hefði verið að málið hefði verið betur unnið til enda og verið búið að ná nokkurn veginn samkomulagi um það milli stjórnmálaflokkanna um hvernig með málið skyldi farið áður en það kæmi í þingið og það hefði verið tekið inn á haustdögum, enda falla lögin samkvæmt frumvarpinu ekki úr gildi fyrr en um áramót.

Með sæmilegu vinnulagi og ferli hefði verið hægt að ná sátt um málið, sem ég held að forsendur séu fyrir, því eins og staða Lánasjóðs landbúnaðarins hefur verið að þróast á undanförnum vikum og missirum verður hún ekki varin óbreytt og kannski ekki skynsamlegt að reyna það. Það er ekki þar með sagt að menn séu alveg sáttir við að fara í það opna ferli sem einkavæðingin býður upp á án þess að menn hafi náð saman um ákveðnar reglur og ákveðin skilyrði.

Ég er t.d. ekki viss um að öllum bændum sem eru viðskiptamenn sjóðsins sé nákvæmlega sama um það hvert sjóðnum verður ráðstafað og menn hafa ekki svarað því í umræðunni í hvaða stöðu einstakir bændur lenda þá. Því hefur heldur ekki verið svarað í umræðunni í hvaða stöðu bændur verða með lánamál sín og fyrirgreiðslur sínar á svæðum þar sem jarðir eru kannski taldar verðminni eða á svæðum þar sem byggð á undir högg að sækja.

Ég held að þetta hefði allt þurft að ræða betur og með hvaða formi yrði staðið að niðurlagningunni og hvaða kosti bændur ættu þá í viðskiptum. Það hefur verið talað um að Byggðastofnun gæti hugsanlega komið að málefnum bænda til að lána m.a. bændum inn á jarðir sem viðkomandi bankar eða lánastofnanir mundu e.t.v. ekki vilja taka þátt í endurfjármögnun á. Allt þetta held ég að menn hefðu þurft að reyna að kortleggja miðað við stöðu lántakanda í Lánasjóði landbúnaðarins og velta því upp að við værum ekki að vega að byggð í landinu með þessari aðgerð. Ég óttast svolítið að með því að leggja sjóðinn niður förum við leið án þess að vera búin að búa til lausnir eða vegvísa sem okkur finnast ásættanlegir fyrir hönd bænda, því þeir eru örugglega misjafnlega settir eftir landshlutum og landsvæðum og auðvitað er skuldastaða bænda og hagur þeirra misjafn eins og allra annarra.

Við megum ekki koma bændum í verri stöðu en þeir eru í dag með niðurlagningu sjóðsins. Ég tel að við hefðum þurft að skoða þau atriði mjög vandlega. Við skulum ekki gleyma því að bankarnir hafa verið í viðskiptum í landbúnaðinum. Ég held að allir hljóti að muna eftir bankastríðinu eða bankakapphlaupinu eða hvernig á að orða það sem varð um fugla- og svínabúin á sínum tíma og hvaða staða kom upp þar. Það er ekki á bætandi ef við lendum í einhverjum sérstökum vandræðum með hinar hefðbundnu greinar landbúnaðarins, mjólkurframleiðslu og sauðfjárframleiðslu.

Þetta vildi ég sagt hafa. Ég ætla ekki að hafa langt mál um þetta. Það liggur auðvitað fyrir að meiri hlutinn vill klára málið með því lagi sem hér er lagt upp með. Ég er búinn að segja mína skoðun á því, ég hefði talið eðlilegt þar sem málið er þannig vaxið eins og ég gat um í upphafi að lögin taka ekki gildi fyrr en um áramót, að þá hefði verið hægt að ná um þetta víðtækari sátt og vinna betur að útfærslunni á bak við tjöldin og koma með málið tilbúið og klára það hér á tiltölulega stuttum tíma. Það held ég að sé alltaf heppilegt að gera þegar við ræðum mál eins og þetta, um lánastofnun og lánaviðskipti einnar stéttar.

Ég hef líka nokkrar áhyggjur af því hvernig þetta muni koma niður á einstökum landsvæðum og hef ekki séð neina kortlagningu á því varðandi stöðu lántakenda í Lánasjóði landbúnaðarins, hvort ákveðin svæði séu þar verr stödd en önnur o.s.frv. Þetta held ég að menn hefðu þurft að skoða og hafa einhverja vegvísa eða viðbrögð við því hvernig með ætti að fara.

Mér finnst rennt svolítið blint í sjóðinn með að fara þá leið sem hér er farin án þess að við vitum hvar viðskiptin lenda eða í hvaða stöðu bændur lenda þegar lögin verða samþykkt.

Að öllu samanlögðu sýnist mér að við hefðum getað unnið að málinu í sumar og undirbúið það vel og náð samkomulagi um það og komið með það tiltölulega vel undirbúið hingað og afgreitt það á stuttum tíma. Ég held að það sé kostur að afgreiða svona mál á stuttum tíma og hafa vegferðina betur kortlagða en hér er gert. Kannski helgast málsmeðferðin aðallega af því að málið kom mjög seint í þing hjá landbúnaðarráðherra og það er auðvitað til mikilla vandræða að fá málið með þessum tímafresti.