131. löggjafarþing — 124. fundur,  6. maí 2005.

Landbúnaðarstofnun.

700. mál
[18:35]

Sigurjón Þórðarson (Fl):

Frú forseti. Mér finnst, eftir að hafa kynnt mér þetta mál, að það hefði mátt vinna talsvert betur. Ég sé það á þeim umsögnum sem hafa fram komið og öllum þeim breytingartillögum sem eru á þessu frumvarpi að það hefði mátt hafa undirbúninginn betri og einnig hefði frumvarpið mátt koma fyrr inn í þingið. Mér finnst miður að hafa ekki fengið betri svör við þeirri fyrirspurn sem ég beindi til hv. formanns landbúnaðarnefndar Drífu Hjartardóttur og að því skuli ekki svarað með betri rökum hvers vegna ekki hafi verið tekið tillit til athugasemda Neytendasamtakanna.

Nú er ég ekki að segja að það hefði endilega átt að fara eftir þessum athugasemdum heldur finnst mér að það eigi að svara þeim með rökum en ekki bara með „af því bara“ og „af því að þetta sé svona þá eigi þetta að vera svona áfram“, vegna þess að menn geta ekkert kastað rökum Neytendasamtakanna algjörlega út af borðinu.

Þegar upp er staðið þá fer hagur neytenda og bænda saman. Það skiptir verulegu máli að hlusta á það hvað fulltrúar neytenda segja. Það getur verið að eitthvað í tillögum þeirra sé þess eðlis að ekki eigi að fara að því. En það verður að svara því með einhverjum rökum en ekki bara að slá það út af borðinu með engum rökum.

Rök Neytendasamtakanna eða skoðun þeirra á þessu frumvarpi var sú að vafasamt væri að hafa matvælaeftirlitið undir atvinnuvegaráðuneyti. Það mótast af því að Neytendasamtökin telja að þá geti afstaða eftirlitsins ekki mótast af hag neytenda sem eftirlitið á í raun að gera, heldur af hag atvinnuvegarins eða ráðuneytisins.

Ef litið er yfir þá sögu undanfarinna ára virðist stundum sem svo að stefna landbúnaðarráðuneytisins geti jafnvel gengið þvert á hag bænda og það er ákaflega sérstakt að verða ítrekað vitni að því. Þá hefur komið ljós þetta nána samband matvælaeftirlitsins í landbúnaðarráðuneytinu og stjórnvalda. Þá hefur maður orðið var við það því miður ítrekað og um allt land að menn hafa verið að breyta reglum og herða matvælaeftirlitið og herða reglur um sláturhús í landinu og búið til svo erfiðar reglur að þær hafa verið illyfirstíganlegar fyrir minni sláturhús í landinu þannig að þau hafa neyðst til að loka. Það hefur m.a. gerst í Búðardal og víðar og þá er ekkert endilega verið að hugsa um hag bænda eða hag neytenda. Þarna eru einmitt rökin fyrir því að skilja á milli og hafa ekki matvælaeftirlitið og atvinnuvegaráðuneyti svo nátengd.

Ég tel að formaður landbúnaðarnefndar ætti að hlýða á það að þetta eru veigamikil rök sem beri að taka tillit til og þegar það er bent á þetta í umsögn þýðir ekkert að kasta henni bara út af borðinu. Svo þegar spurt er á þinginu út í þetta, hvað hafi verið gert með umsögnina, er engu svarað en bara sagt að þetta hafi verið svona og þess vegna eigi þetta að vera svona áfram. En ég tel einmitt að þegar verið er að koma á fót nýrri stofnun eigi menn ekkert endilega að halda í það gamla bara af því að það var svona heldur eigi þeir að hagræða og skoða hvernig þeir geta náð þessu saman og búið til framsækna stofnun landbúnaðinum og neytendum í vil. (JBjarn: ... sjálfstæðismönnum ... að stofna svona nýjar ríkisstofnanir?) (Gripið fram í.) Þeim er umhugað um að stofna ríkisstofnanir á sem flestum sviðum. Ég er ekki að segja að þessi stofnun geti ekki leitt neitt gott af sér, alls ekki. En því miður verður maður var við þessi viðhorf sem ég tel forkastanleg, þ.e. að gera ekkert með skoðanir neytenda, kasta þeim bara út af borðinu og svara í engu þegar spurt er æ ofan í æ. Hver er ástæðan fyrir því að ekkert var gert með umsögn Neytendasamtakanna? Það kemur ekki fram.

Mér finnst vert að fara yfir ýmislegt annað í þessu máli. Ákaflega góðar umsagnir komu, m.a. frá dýralækni úr Búðardal, Sigurbjörgu Ólöfu Bergsdóttur, þar sem hún fer yfir ýmis mál sem þarf að lagfæra. Ég vil vitna í umsögn hennar, með leyfi herra forseta:

„Í þessu sambandi finnst mér mikilvægt að færa þarna undir eftirlit með sláturfjárflutningum sem eru í algerum ólestri að mínum dómi. Í hagræðingarskyni eru notaðir sífellt stærri bílar til flutninga, þeir eru látnir fara þvers og kruss yfir varnarlínur í sömu ferðinni án þess að taka tillit til sjúkdómavarna.“

Þetta eru stór orð. Þarna sjáum við einmitt afleiðingu stefnu hæstv. landbúnaðarráðherra því um það að slá sláturhúsunum saman segir embættismaður hans að það sé bara farið þvert á allar sjúkdómavarnir. Mér finnst þetta vera mjög alvarlegar ásakanir og mér finnst að menn verði að staldra við þegar þeir fá svona umsagnir og fara yfir þetta betur. Þetta er mjög alvarlegt. Bílarnir eru vanbúnir til flutninga og af þeim leka óhreinindi.

Það er margt að athuga í þessu bæði hvað varðar matvælaeftirlitið og sjúkdómavarnir. Það er pottur brotinn í þessum málum. Það má vera að þessi stofnun verði til að bæta úr. Fróðlegt væri ef hæstv. landbúnaðarráðherra greindi okkur frá því hvort það eigi einmitt með þessari stofnun að taka á þeim málum.

Haustið 2003 bar ég upp í þinginu spurningu um fjárflutninga vegna þess að þá stefndi í þetta brjálæði, flutninga á sláturlömbum þvers og kruss um landið, svo ég vitni nú í embættismann sjálfs hæstv. landbúnaðarráðherra, þegar þetta hófst. Þá var mér tjáð í þinginu að til stæði að setja reglugerð um þessa flutninga. Mér finnst sjálfsagt að menn svari áður en þeir búa til nýja stofnun: Hvar er það mál statt? Er búið að setja reglugerð um sláturflutninga? Af bréfi þessa ágæta embættismanns hæstv. landbúnaðarráðherra að dæma virðist svo ekki vera. Mér finnst það vera íhugunarefni að menn byrja ekki á aðalatriðunum heldur byrji á því að slá saman einhverjum stofnunum en hugi ekki að þeim vandamálum sem blasa við öllum.

Hver bjó til vandamálið? Ég tel einsýnt að það var hæstv. landbúnaðarráðherra sem bjó þetta til með því að taka upp svo strangar reglur að minni sláturhúsin réðu vart við þær. Í ofanálag veifaði hann framan í þessi sláturhús 170 millj. kr. af skattfé almennings til að koma í veg fyrir að fólkið á þessum stöðum, í Búðardal og víðar, kæmist í vinnu. Mér finnst mjög alvarlegt að nota almannafé í að úrelda sláturhús og síðan þegar hann er spurður út í það hvort hann ætli að taka á reglugerðum varðandi fjárflutninga hér haustið 2003 þá gerist ekkert. Allt í einu kemur ný stofnun mögulega, Landbúnaðarstofnun sem er eflaust ágæt.

En því miður virðist sem menn ætli ekki að taka tillit til umsagnar Neytendasamtakanna og ekki einu sinni rökstyðja hvers vegna eigi ekki að gera það.

Það er að mörgu að hyggja í þessu og mér finnst staðsetning stofnunarinnar vera umhugsunarefni. Það hefur komið fram í umræðunni og víðar og ágætri skýrslu frá háskólanum á Bifröst að það er ákveðinn halli. Opinberu störfin eru í meira mæli á höfuðborgarsvæðinu og minna úti á landi. Það hefur komið fram að 27% af skattfénu koma af landsbyggðinni og að einungis 15% er varið á landsbyggðinni. Ég tel að menn eigi að vera opnir fyrir því að staðsetja a.m.k. einhvern hluta þessara stofnana á landsbyggðinni, menn eigi að skoða það með opnum huga.

Herra forseti. Ég vil enn og aftur minna á að það er rétt að taka tillit til óska neytenda og Neytendasamtakanna og slá ekki þær óskir algjörlega út af borðinu, a.m.k. ekki án þess að rökstyðja það, vegna þess að þegar upp er staðið fer hagur neytenda og bænda saman og landbúnaðarins alls.