131. löggjafarþing — 124. fundur,  6. maí 2005.

Skattskylda orkufyrirtækja.

364. mál
[20:00]

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Það frumvarp sem við ræðum, frumvarp um skattskyldu orkufyrirtækja, er enn ein laumuskattahækkun ríkisstjórnarinnar sem lögð er á litla manninn í samfélaginu til að afla fjár í ríkissjóð til að standa undir þeim stórfelldu skattalækkunum sem stjórnarflokkarnir hafa staðið fyrir gagnvart hátekjufólki og eignafólki í landinu. Hér á sem sagt að ná í nokkur hundruð milljónir í vasa fólksins í landinu, í vasa almennings, í vasa orkunotendanna, sem leggst nokkuð jafnt yfir allt fólkið í landinu óháð tekjum þeirra og óháð eignum, þannig að hinir skuldugu borga jafnmikið og hinir efnuðu og hinir lágt launuðu borga jafnmikið og hinir hátt launuðu og raunar borgar trúlega barnafólkið hvað mest, enda orkufrekustu heimilin. Ávinningurinn sem af þessu verður, nokkur hundruð milljónir, kannski upp undir milljarður þegar fram líða stundir á ári hverju, gengur svo til þess að fella niður eignarskattinn á eignafólkið, til þess að lækka hátekjuskattinn á hátekjufólkið og til þess að lækka tekjuskattinn flatt á alla þar sem sá sem er með milljón á mánuði græðir jú margfalt ef ekki hundraðfalt á við þá sem litlar hafa tekjurnar.

Nú væri það í sjálfu sér auðvitað framfaramál ef skattkerfið almennt í landinu væri einfaldað og alls kyns undanþágur í því felldar á brott og sömu reglurnar gerðar einfaldari og gagnsærri til að auka skilvirknina í skattkerfinu og réttlætið í skattheimtunni og einfalda alla tekjuöflun ríkissjóðs. Ef skattlagning á raforkuiðnaðinn væri hluti af einhverri slíkri kerfisbreytingu mætti e.t.v. styðja slíkt mál. Hér er hins vegar verið að taka alveg sérstaklega út úr fyrirtæki í almannaeigu, fyrirtæki í eigu sveitarfélaganna í landinu að mestu leyti og leggja sérstakar skattálögur á þau. Það er auðvitað alveg ljóst hver borgar á endanum þær skattálögur, það er notandinn, það er sá sem borgar rafmagnsreikninginn, hitareikninginn og fyrir vatnið.

Það er kannski hitt atriðið sem er stórlega ámælisvert við þetta frumvarp, leyfi ég mér að segja. Það hófst með því að hér varð svokölluð samkeppnisvæðing í raforkuiðnaðinum á vegum hæstv. iðnaðarráðherra, því við bárum ekki gæfu til að setja fyrirvara við tilskipun Evrópusambandsins um samkeppni í raforkuiðnaðinum og þurftum því að innleiða hana hér, þó ekki nokkur maður utan Íslands hafi enn skilið hvað menn eiga við þegar talað er um samkeppni í raforkuiðnaði á eyju í Norður-Atlantshafi þar sem búa 0,29 milljónir manna. Það er nú einfaldlega þannig að markaður okkar á Íslandi, sem eins og flestir þingmenn þekkja er eyland, er ákaflega smár og ekkert rúm fyrir raunverulega samkeppni á þeim markaði að gagni. Þess vegna höfum við haft þá farsælu skipan að það hafa verið sveitarfélögin í landinu og ríkið með eignarhlut sínum í Landsvirkjun sem hinir opinberu aðilar, sem hafa rekið hér raforkukerfi og reynt að reka það sem almannaþjónustu á lágmarksverði. Nú er þetta sem sagt breytt og raforkuiðnaðurinn hefur verið samkeppnisvæddur. Þá þarf eðlilega að huga að skattlagningu á honum. Í þessu frumvarpi er hins vegar gengið miklu lengra því að inn í þá skattlagningu eru teknar hitaveiturnar og vatnsveiturnar en þau eru ekki samkeppnisfyrirtæki. Þetta eru einokunarfyrirtæki sem allir landsmenn verða að skipta við.

Þær skattálögur sem hér er verið að samþykkja á þessi fyrirtæki munu neytendurnir auðvitað borga, fólkið í landinu, vegna þess að það getur ekki sagt upp heita vatninu, kalda vatninu eða rafmagninu. Það verður einfaldlega að greiða þann reikning sem fyrir það kemur, því að í raun og sann er auðvitað takmörkuð samkeppni á raforkusviðinu þó það eigi að heita svo.

Frumvarpið er líka lagt fram í fullri andstöðu við sveitarfélögin. Það er ótrúlegt hvað ríkisstjórnin leyfir sér að ganga á þessum vetri langt gagnvart sveitarfélögunum. Það vita allir hvernig á fjárhag þeirra hefur verið gengið á undanförnum árum með því að auka álögurnar á sveitarfélögin frá ári til árs, fjölga verkefnum þeirra, draga úr skatttekjum með einkahlutafélagavæðingunni og þannig gætum við áfram talið. Við þessar aðstæður þegar sveitarfélögin eru rekin með umtalsverðum halla og ríkissjóður rekinn með bullandi hagnaði ár eftir ár ákveður ríkið að seilast nú enn í vasa sveitarfélaganna sem ekki standa undir rekstri sínum fyrir og eðlilegt að það mæti andstöðu hjá sveitarfélögunum. Auðvitað mun það bitna á grunnþjónustunni ef menn eru að auka álögur og draga úr möguleikum sveitarfélaganna á því að veita góða grunnþjónustu á meðal landsmanna.

Þessu frumvarpi hlýtur þó sérstaklega að vera beint gegn Reykjavík, því það er nú einu sinni þannig að Reykvíkingar höfðu næga fyrirhyggju á fyrri hluta síðustu aldar til þess að reisa hér hitaveitu sem hefur verið ákaflega hagkvæm í rekstri og það hefur tekist að standa þannig að rekstrinum að hann hefur allur verið hinn hagkvæmasti. Það hefur löngum verið kappsmál þeim sem hafa starfað að stjórnmálum fyrir Reykvíkinga að ekki yrðu af ríkissjóði lagðar sérstakar álögur á þá almannaþjónustu í Reykjavík, að ríkið færi ekki að setja krumlurnar í Hitaveitu Reykjavíkur og margir borgarfulltrúar og borgarstjórar hygg ég úr öllum flokkum sem talað hafa í þá veruna í gegnum tíðina.

Nú virðist það vera svo, virðulegur forseti, árið 2005 að kjördæmið Reykjavík eigi enga þingmenn. Það kemur út af fyrir sig ekki á óvart hvað Framsóknarflokknum viðvíkur, en það virðist ekki vera að neinir þingmenn séu fyrir Sjálfstæðisflokkinn í Reykjavík, því hér hafa þeir ákveðið að leggja því lið að setja sérstakar skattálögur á orkufyrirtækin í landinu og þar með á Orkuveitu Reykjavíkur og augljóst að það verða notendur orkunnar í Reykjavík sem munu þurfa að borga fyrir þær álögur þó það fyrirtæki kunni að geta forðast þær í einhvern tíma með þeim fjárfestingum sem nú eru á þess vegum.

Ég verð við lok máls míns í umræðunni, virðulegur forseti, að fá að auglýsa eftir því hvort í stjórnarflokkunum séu einhverjir þingmenn fyrir kjördæmið Reykjavík og þá hvernig á því standi að þeir leggi lið sitt skattlagningarfrumvarpi á Reykvíkinga sérstaklega með þessum hætti, því það er alveg augljóst að hér er verið að afla fjármuna, kannski til þess að mæta hinum aukna kostnaði við niðurgreiðslur í raforkukerfinu úti á landi eftir hina misheppnuðu breytingar á raforkukerfinu sem ríkisstjórnin stóð fyrir fyrr í vetur og landsmenn þekkja af eindæmum, en þar hækkuðu raforkureikningar fjölmargra heimila langt umfram það sem ríkisstjórnin hafði boðað. Það varð að mæta því með sérstökum umframniðurgreiðslum úr ríkissjóði sem ríkisstjórnin ákvað. Kannski menn hafi ekki fundið önnur ráð til þess að fjármagna það en að fara inn með þennan skatt sem svo augljóslega leggst sérstaklega hart á hagkvæmt rekin orkufyrirtæki Reykvíkinga. Þess vegna er full ástæða til að auglýsa eftir því hvort það séu einhverjir þingmenn stjórnarliðsins sem eru fyrir kjördæmið Reykjavík.