131. löggjafarþing — 124. fundur,  6. maí 2005.

Skattskylda orkufyrirtækja.

364. mál
[20:12]

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Vissulega hafa skattar á matvöru áhrif á matvöruverð, enda höfum við í Samfylkingunni lagt til að virðisaukaskattur á matvöru verði lækkaður, enda augljóst að hér er hæsta matvælaverð a.m.k. í Evrópu ef ekki í veröldinni allri, það er auðvitað afleiðing af álögunum.

Það sem við erum hér að fjalla um, hv. þingmaður, er ekki atvinnulíf í venjulegum skilningi þess orðs. Þetta er ekki fyrirtæki á markaði. Þetta er almannaþjónusta í opinberri eigu og einokunarstarfsemi. Um einokunarstarfsemi veit hv. þingmaður að það gildir að kostnaðarhækkanir á einokunarstarfsemi, eins og skattálögur þessar, fara beint út í verðlagið og beint til neytendanna. Í samkeppnisumhverfi, í frjálsri samkeppni á markaði, þarf það ekki að henda, slíkum kostnaðarhækkunum kunna menn að mæta með hagræðingu eða öðrum slíkum hlutum. En þegar um einokunarstarfsemi er að ræða verða svona kostnaðarhækkanir beint að verðhækkunum á neytendur.

Það sem er alvarlegt fyrir þingmann úr Reykjavík, eins og hv. þm. Pétur H. Blöndal er, er að hér er verið að refsa Reykvíkingum fyrir að hafa rekið orkufyrirtæki sín með afbrigðum vel, á hagkvæman og öflugan hátt, og þau hafa getað haldið orkuverði niðri áratugum saman. Hins vegar er verið að hygla lélegum rekstri víðs vegar annars staðar í þessu kerfi með sívaxandi niðurgreiðslum. Það ætti auðvitað að vera nóg til þess að formaður efnahags- og viðskiptanefndar og þingmaður Reykjavíkur, Pétur H. Blöndal, legði stein í götu þessa frumvarps og segði: Nei, ekki meiri skattahækkanir á Reykvíkinga, ekki meiri sérstakar skattahækkanir á Reykvíkinga, nóg er nú samt.