131. löggjafarþing — 124. fundur,  6. maí 2005.

Skattskylda orkufyrirtækja.

364. mál
[20:38]

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Pétur H. Blöndal) (S) (andsvar):

Frú forseti. Það er dálítið merkilegt sjónarmið hjá hv. þingmanni að skattar á fyrirtæki valdi kostnaði hjá einstaklingum og almenningi í landinu sem þýðir þá, ef við gagnályktum, að lækkun skatta á fyrirtæki niður í 18% úr 50 þýði þá bætt lífskjör almennings í stórum stíl. Það er mjög ánægjulegt því að það hefur verið stefna ríkisstjórnarinnar. En ég ætlaði að spyrja hv. þingmann, fyrst það er svona óskaplega erfitt fyrir orkufyrirtækin að borga 18% skatt á hagnað, er sá skattur of hár? Mundi hv. þingmaður vilja lækka hann niður í 15% eða 11% eins og ég lagði til á sínum tíma?