131. löggjafarþing — 124. fundur,  6. maí 2005.

Skattskylda orkufyrirtækja.

364. mál
[20:42]

Frsm. 1. minni hluta efh.- og viðskn. (Ögmundur Jónasson) (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég held að ríkisstjórn eða stjórnarmeirihluti sem er ábyrgur fyrir stærstu áhættufjárfestingu Íslandssögunnar við Kárahnjúka ætti að fara varlega í að tala á þessum nótum. Spurningin í þessu tilviki snýst um margt. Í fyrsta lagi að verið er að færa fjármuni frá sveitarfélögum til ríkisins án þess að (Gripið fram í.) — sveitarfélögin reka líka velferðarþjónustu — málið sé gert upp í heild sinni.

Hv. þingmaður segir að spurningin sé til hvers skattarnir séu notaðir. Þetta snýst líka um hver er skattlagður. Á að skattleggja sjúkrahúsin? Nú eru þau komin með samkeppnisrekstur á ýmsum sviðum, á þá að láta eitt yfir alla ganga og skattleggja þau? Á að skattleggja skólana? Eigum við að fara með alla þessa þjónustu út á markaðstorg og láta almennar reglur sem þar eru við lýði gilda um alla? Ég held ekki.

Ég vil gera skýran greinarmun á almannaþjónustunni, velferðarþjónustunni og grunnþjónustunni í landinu, sem snýst um lífsnauðsynjar, og hins vegar samkeppnismarkaði. (Gripið fram í: Er maturinn ekki líka …?) Jú, en við höfum fært hann yfir á markaðstorg. Ég er hins vegar andvígur því að færa raforkuna þangað vegna þess að í matvörunni virkjast þó lögmál markaðarins. Á þessu sviði gerist það ekki. (Gripið fram í.) Reynslan sýnir okkur að þar sem farið hefur verið út á þessa braut gengur það dæmi ekki upp. Ykkur, fylgjendum markaðsvæðingarinnar, hefur ekki tekist að sýna fram á ágæti þessara kerfisbreytinga. Þið trúið bara blint á þessar lausnir.