131. löggjafarþing — 124. fundur,  6. maí 2005.

Skattskylda orkufyrirtækja.

364. mál
[21:06]

Frsm. 2. minni hluta efh.- og viðskn. (Lúðvík Bergvinsson) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er kannski ekki nema von að tekið hafi talsverðan tíma fyrir hv. þingmenn að trúa því og kaupa þá röksemdafærslu að verið sé að skapa jafnræði milli orkubúskapar landsmanna annars vegar og nokkurra lítilla virkjana í landinu hins vegar og til að skapa þetta jafnræði þurfi að skattleggja hvert einasta heimili í landinu.

Það þarf heldur ekki að koma hv. þingmönnum stjórnarandstöðunnar á óvart, sem auðvitað hlýða á hv. þm. Pétur Blöndal og fleiri sem hingað ruddust inn á þing með það að vopni (Gripið fram í.) og undir þeim gunnfána að nú skuli lækka skatta, að hv. þingmaður skuli vera helsti talsmaður skattahækkana á hinu háa Alþingi. (Gripið fram í.) Og ekki aðeins þetta, nú nýverið náðist samkomulag milli ríkis og sveitarfélaga um tilfærslu fjármuna frá ríkinu til sveitarfélaga, þótt ekki væri nema sanngjörn jöfnun. Ef þessar reglur hefðu verið við lýði undanfarin missiri væri nánast búið að hreinsa upp þá tilfærslu.

Það liggur einnig fyrir að þetta er gert algjörlega í andstöðu við Samband íslenskra sveitarfélaga, sem hefur lýst þessu tiltekna máli sem hneyksli. En andúðin á Orkuveitu Reykjavíkur, andúðin á þeim sem fara með ferðina í Reykjavík er slík að það blindar sýn. Meiri hlutinn á hinu háa Alþingi er tilbúinn að ganga út í hvaða drullupoll sem er til þess eins að koma höggi á þá aðila. Það er einasti tilgangurinn með þessu tiltekna máli, virðulegi forseti.