131. löggjafarþing — 125. fundur,  7. maí 2005.

Landbúnaðarstofnun.

700. mál
[10:43]

Jón Bjarnason (Vg):

Herra forseti. Með þessu frumvarpi er ætlunin að sameina ýmsar stofnanir, embætti og verkefni á sviði eftirlits og stjórnsýslu innan landbúnaðarins í eina stjórnsýslustofnun, Landbúnaðarstofnun.

Hægt er í nokkru að taka undir þær áherslur sem frumvarpið felur í sér og þó sérstaklega það að hér er ákveðið að ríkið eða hið opinbera beri ábyrgð á þessum stjórnsýsluverkefnum en þau ekki einkavædd. Hér er því verið að búa til nýja ríkisstofnun.

Hins vegar er það gagnrýnt hversu seint frumvarpið er komið fram og illa unnið. Í umsögn fjármálaráðuneytisins kemur fram að fjárhagsleg hlið þess í stofnkostnaði og rekstrarkostnaði liggur eiginlega ekki fyrir. Því legg ég til, herra forseti, að þessu máli verði vísað til ríkisstjórnarinnar og það unnið betur fyrir næsta þing þannig að það geti komið með eðlilegum hætti og ljóst verði hvað við erum að fara þarna að gera.