131. löggjafarþing — 125. fundur,  7. maí 2005.

Skattskylda orkufyrirtækja.

364. mál
[10:58]

fjármálaráðherra (Geir H. Haarde) (S):

Herra forseti. Málflutningurinn í þessu máli er með algjörum ólíkindum. Það er verið að tala um að taka tiltekinn atvinnurekstur og flytja hann í sama skattumhverfi og gildir um annan atvinnurekstur. Á hvað minnir þessi málflutningur helst? (Gripið fram í.) Jú, hann minnir á málflutning þeirra sem á sínum tíma lögðust gegn því að skattur yrði lagður á bankana í landinu fyrir 20 eða 25 árum þegar bankarnir í landinu og fjármálastofnanirnar voru settar inn í almenna skattkerfið. (Gripið fram í.) Þeir sem halda því fram að skattur á hagnað eins og hér er verið að tala um, tekjuskattur á hagnað eftir að allur kostnaður hefur verið greiddur, muni hækka verðið á framleiðslunni, þ.e. raforkunni, vita ekki mikið um skattamál eða bókhald. Þeir vita sem sagt ekkert hvað þeir eru að tala um. Þessi málflutningur er allur tóm vitleysa, hv. þm. Ögmundur Jónasson og aðrir sem hér eru að tala. (Gripið fram í.)

Skattstofn orkufyrirtækjanna hefði verið eignir þeirra að stærstu leyti til. (Gripið fram í.) Er ekki búið að fella niður eignarskattinn gegn atkvæðum þeirra sem hér eru að mæla gegn þessu máli? Eignarskatturinn er horfinn (Forseti hringir.) og þeir sem voru mest á móti því sitja nú uppi með skömmina af því að hafa lagst gegn því.

Herra forseti. (Forseti hringir.) Ég hef lokið máli mínu. Ég segi já.