131. löggjafarþing — 125. fundur,  7. maí 2005.

Skattskylda orkufyrirtækja.

364. mál
[11:00]

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Málflutningur hæstv. fjármálaráðherra hér minnir nú helst á það þegar seðlabankastjórinn útskýrði hvaðan peningarnir kæmu til að byggja Seðlabankann forðum. Hann sagði: „Þeir verða til hérna í bankanum.“ Þetta er svona svipaður málflutningur þegar hæstv. fjármálaráðherra talar um skattgreiðslurnar sem koma af himnum og koma ekki við neinn. Auðvitað verður þarna tilfærsla á fjármunum, t.d. frá sveitarfélögunum til ríkisins. Það sjá allir menn.

Hæstv. ríkisstjórn hefur afrekað það með markaðsvæðingu raforkunnar undir forustu Framsóknarflokksins og hæstv. iðnaðarráðherra Valgerðar Sverrisdóttur að stórhækka raforkuverð í landinu og er þó ekki allt búið enn því þar á eftir að koma til sögunnar hækkandi arðsemiskrafa á komandi árum. Hér á að bæta þessari skattlagningu við á orkufyrirtækin og auðvitað greiða það engir að lokum aðrir en viðskiptavinir orkufyrirtækjanna, hæstv. fjármálaráðherra. Hvaða endemis rugl er þetta? Hvaðan eiga fjármunirnir að koma að lokum til að standa undir þessum skattgreiðslum annars staðar en úr tekjum fyrirtækjanna?

Er þó ekki endilega allt sem sýnist hér. Ætli fyrstu áhrifin af þessu verði ekki þau að mynda innstæður hjá skattgreiðendum í landinu gegnum uppsafnanlegt og frádráttarbært tap (Forseti hringir.) á þessum orkufyrirtækjum næstu árin? Það skyldi nú ekki fara svo? Að heyra hæstv. fjármálaráðherra tala með þessum hætti um (Forseti hringir.) málin er með miklum endemum. (Fjmrh.: .. í tapinu.)