131. löggjafarþing — 125. fundur,  7. maí 2005.

Skattskylda orkufyrirtækja.

364. mál
[11:01]

Pétur H. Blöndal (S):

Herra forseti. Með þessu frumvarpi er verið að samræma skattlagningu á öll fyrirtæki þannig að orkufyrirtæki borgi skatta eins og önnur fyrirtæki, eins og matvöruverslanir og fleiri. Hér er verið að tala um 18% skatt á hagnað. Hann var einu sinni 50% en hefur lækkað vegna þessarar góðu ríkisstjórnar niður í 18%. Ef hagnaðurinn er 10% af veltu, eins og þykir gott, þá er þetta 1,8% af veltu sem við erum að tala um í hæsta lagi. Allt tal um að verið sé að skattleggja almenning er því út í hött.

Hér er verið að loka glufum í skattkerfinu og það er verið að jafna samkeppni og koma á jafnræði milli aðila sem sumir flokkar vilja, þ.e. að hafa almennt skattkerfi. Ég minni á umræðuna um bankana. Hún var svipuð. Það átti allt að fara niður á við og illa eftir að þeir yrðu hluthafavæddir og einkavæddir og látnir borga skatta. Nú eru þeir orðnir aðalburðarásinn í skattlagningu fyrirtækja í landinu. Ég segi já.