131. löggjafarþing — 125. fundur,  7. maí 2005.

Samkeppnislög.

590. mál
[14:17]

Frsm. 1. minni hluta efh.- og viðskn. (Lúðvík Bergvinsson) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta seinna andsvar hv. þingmanns vakti athygli mína og leiðir að vissu leyti í ljós þann veruleika að hv. þingmenn meiri hlutans hafa hugsanlega ekki sett sig nægilega inn í þetta mál til að skilja hvað hér er á ferðinni. Hér er engin breyting frá því sem nú er, að stjórnin tekur yfir hlutverk samkeppnisráðs. (PHB: Eitt apparat.) Stjórnin tekur yfir hlutverk samkeppnisráðs. Þetta var eitt apparat, eins og hér er kallað fram í, og verður það áfram. Eðlisbreytingin er því engin.

Hv. þingmaður vísaði hér til mála sem hafa verið lengi í vinnslu. Það er rétt að þau hafa verið allt of lengi í vinnslu. Það hefur ekkert með skipulagið að gera. Það hefur með það að gera að stofnuninni hefur verið haldið fanginni með því að hún hefur ekki fengið það fjármagn sem hún þarf til þess að vinna sína vinnu. Það hefur ekkert með stofnunina eða skipulagið að gera heldur vilja fjárveitingavaldsins. Þar hefur hv. þingmaður ekki farið fremstur í flokki við að tryggja það fjármagn sem nauðsynlegt er til þessarar starfsemi. Rétt skal vera rétt. Menn ættu ekki að færa fram sjónarmið sem hafa ekkert með málið að gera, varpa reyksprengjum til að hylja kjarna málsins. (Gripið fram í.)