131. löggjafarþing — 125. fundur,  7. maí 2005.

Samkeppnislög.

590. mál
[14:19]

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil í upphafi segja að það hefur verið fróðlegt að hlusta á mál hv. þm. Lúðvíks Bergvinssonar sem hefur farið ítarlega yfir sjónarmið sín við þessa umræðu. Í yfirgripsmikilli ræðu hans komu fram ýmsir þættir sem ég tel fulla ástæðu til að svara og fæ tækifæri til þess síðar í dag. Þó eru tvö atriði sem mér finnst rétt að vekja máls á núna.

Annars vegar er það sú aðferð, sú nálgun sem hv. þm. Lúðvík Bergvinsson velur sér þegar kemur að þessu máli. Hann byrjar á því að gefa sér að verið sé að veikja samkeppnisyfirvöld og veikja samkeppnislög með því frumvarpi sem hér liggur fyrir og fer síðan á mikið flug til að draga ályktanir af þeirri fullyrðingu sinni.

Það er nauðsynlegt að það komi fram við þessa umræðu að yfirlýst markmið ríkisstjórnarflokkanna með frumvarpi þessu er þvert á móti að efla samkeppniseftirlit í landinu. Nú kann að vera að okkur hv. þm. Lúðvík Bergvinsson greini nokkuð á um hvaða leiðir ber að fara í einstökum tilvikum í því sambandi. Hins vegar liggur fyrir að þetta er markmiðið, að efla þá stofnun sem á að hafa með höndum samkeppniseftirlit í landinu. Það eru ráðagerðir um að setja aukið fjármagn til þeirrar stofnunar og ráða inn fleiri sérfræðinga til að sinna þessum málum. Þess vegna er í raun fráleitt að hv. þm. Lúðvík Bergvinsson haldi því fram að hér séu ríkisstjórnarflokkarnir í einhverri herferð til að veikja samkeppniseftirlit í landinu. Öðru nær, það er verið að efla það með þessum breytingum, bæði skipulagsbreytingum og eins með því að setja aukið fjármagn í þennan málaflokk. Það er það sem skiptir máli af hálfu ríkisstjórnarflokkanna.