131. löggjafarþing — 125. fundur,  7. maí 2005.

Samkeppnislög.

590. mál
[14:28]

Frsm. 2. minni hluta efh.- og viðskn. (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Hæstv. forseti. Hv. þm. Lúðvík Bergvinsson flutti langa, ítarlega og vel rökstudda ræðu hér áðan. Hún var efnismikil og hún var málefnaleg.

Það vakti athygli mína að fyrstur til andsvara við ræðu hv. þingmanns var formaður efnahags- og viðskiptanefndar, hv. þm. Pétur H. Blöndal. Hann gerði þá játningu að hann væri haldinn þeim galla að geta ekki hlustað á mál manna af athygli nema í 10–15 mínútur. Ég velti því fyrir mér hvort það eigi kannski einnig við um álitsgerðir sem hv. þingmanni berast. Álitsgerð Samkeppnisstofnunar um lagafrumvarpið sem við erum að fjalla um hér er einar 30 síður. Gæti verið að hv. formaður efnahags- og viðskiptanefndar hafi ekki haft þrek til að lesa eins og tvær, þrjár fyrstu síðurnar? Ég bara spyr.

Ég tala fyrir áliti 2. minni hluta efnahags- og viðskiptanefndar og ætla í nokkrum orðum að gera grein fyrir þeim sjónarmiðum sem þar koma fram.

Þetta frumvarp ríkisstjórnarinnar til samkeppnislaga er hluti af grundvallarbreytingum sem ríkisstjórnin áformar að gera á skipulagi opinbers eftirlits með samkeppni og markaðsmálum í landinu. Í þessu skyni hafa verið lögð fram þrjú lagafrumvörp. Í fyrsta lagi þetta frumvarp um Samkeppniseftirlit sem að uppistöðu til á að taka við verkefnum Samkeppnisstofnunar og samkeppnisráðs. Samkeppnisstofnun og samkeppnisráð kæmu hins vegar til með að heyra sögunni til. Annað lagafrumvarpið í þessari spyrðu varðar Neytendastofu og talsmann neytenda, en lagt er til að verkefni sem lúta að eftirliti með óréttmætum viðskiptaháttum og gagnsæi markaðarins verði færð frá núverandi Samkeppnisstofnun og sameinuð starfsemi sem nú er á vegum Löggildingarstofu. Þriðja þingmálið er frumvarp til laga um eftirlit með óréttmætum viðskiptaháttum og gagnsæi markaðarins.

Ætla skyldi að leitað hefði verið eftir mjög víðtæku samráði um jafnumfangsmiklar breytingar og þessi lagafrumvörp fela í sér. Það var hins vegar ekki gert. Fram kemur í umsögnum frá helstu almannasamtökum í landinu, sem láta þessi mál til sín taka, ASÍ, BSRB og Neytendasamtökunum, að þau hafi í sameiningu farið yfir fyrirhugaðar breytingar á lagaramma um samkeppni og neytendavernd áður en þau sendu frá sér umsagnir. Niðurstaða þeirra er sú, eins og fram kemur í fylgigögnum sem birtast með áliti þessu, að þótt ekki væri nema fyrir það eitt að margt er óljóst í þessum lögum og margir óhnýttir endar, væri æskilegt að Alþingi gæfi sér rýmri tíma til að afgreiða málin. Lögðu þau því til að málið yrði látið liggja í sumar og þess freistað að ná breiðri, þverpólitískri samstöðu um málið og þá með aðkomu þessara samtaka að slíkri vinnu. Samtökin gagnrýna ekki bara efnistökin og vinnubrögðin heldur einnig einstaka efnisþætti og telja þau margt í þessum frumvörpum vera til óþurftar og í sumum tilvikum að verið sé að stíga skref aftur á bak.

Stjórnarmeirihlutinn ber það fyrir sig að með fyrirhuguðum lagabreytingum, nýjum stofnunum og tilflutningi á verkefnum sé verið að efla neytendavernd og eftirlit með samkeppnismarkaði í þágu neytenda. Við höfum heyrt að stjórnarþingmenn halda þessu blákalt fram í umræðunni. Mesta þekkingu á þessu sviði er óumdeilanlega að finna hjá því starfsfólki sem hefur sinnt þessum málum, það er að segja starfsfólki Samkeppnisstofnunar. Það veit hvar skórinn kreppir og þar af leiðandi hvar helst er úrbóta þörf. Athyglisvert er að sjá hve afdráttarlaus gagnrýni kemur úr þessari átt á lagafrumvörp ríkisstjórnarinnar.

Í umsögn Samkeppnisstofnunar er fjallað um þau markmið sem ríkisstjórnin segist vilja ná með lagabreytingunum. Um þær leiðir sem ríkisstjórnin vill fara til að ná þeim markmiðum sem hún setur segir m.a. eftirfarandi í álitsgerð Samkeppnisstofnunar, með leyfi forseta:

„Að mati Samkeppnisstofnunar er það bagalegt að framangreindar forsendur fyrir þessum breytingum byggjast í aðalatriðum á misskilningi eða röngum upplýsingum um núverandi stjórnsýslu í málaflokknum. Telur Samkeppnisstofnun það gagnrýnisvert að nefnd viðskiptaráðherra hafi kosið að leggja fram þessar tillögur án þess að leita upplýsinga hjá stofnuninni, samkeppnisráði, auglýsinganefnd eða áfrýjunarnefnd samkeppnismála. Hlýtur almennt að teljast æskilegt að leitað sé upplýsinga um staðreyndir og reynslu þeirra stjórnvalda sem falin er framkvæmd á tilteknum lögum áður en gerðar eru tillögur um að stjórnsýslufyrirkomulagi á því sviði sé gerbylt. Þegar Samkeppnisstofnun fékk í hendur skýrslu nefndar viðskiptaráðherra um íslenskt viðskiptaumhverfi og upphafleg drög að frumvarpi til nýrra samkeppnislaga í september 2004 vakti stofnunin athygli iðnaðar- og viðskiptaráðuneytisins á misskilningi og ónákvæmni sem fram kom í skýrslunni og drögunum. Viðbrögð ráðuneytisins fólust í því að gera breytingar á orðalagi í athugasemdum með drögum að frumvarpinu. Samkeppnisstofnun var jafnframt upplýst um það að engar breytingar yrðu gerðar á tillögum um nýtt stjórnsýslufyrirkomulag í samkeppnismálum.“

Önnur varð reyndin því þessi fyrirheit voru svikin. Dagsins ljós litu nú frumvörp sem stokka laga- og stofnanaumhverfið nánast allt saman upp og eru þau í engu samræmi við þær tillögur sem Samkeppnisstofnun höfðu verið kynntar sl. haust, en eins og hér kom fram var stofnuninni sagt og það ítrekað að ekki yrðu gerðar neinar grundvallarbreytingar á stjórnsýslunni. Það sem verra er, hin nýju frumvörp, sem ríkisstjórnin leggur áherslu á að verði nú samþykkt, eru ekki til þess fallin að efla og bæta lögin eins og látið hafði verið í veðri vaka. Um þetta segir í umsögn Samkeppnisstofnunar, með leyfi forseta:

„Í því sambandi skiptir mestu að frumvarp til nýrra samkeppnislaga felur í sér veikingu á samkeppnislögum, þvert á markmið og tillögur nefndarinnar. Kastað hefur verið fyrir róða tillögu nefndar viðskiptaráðherra um aukin rannsóknarúrræði samkeppnisyfirvalda. Þá eru í frumvarpinu gerð mun minni hæfisskilyrði til þeirra sem skipa munu fyrirhugaða stjórn Samkeppniseftirlitsins en gert var ráð fyrir í drögunum sem kynnt voru 1. október sl. Einnig er bagalegt að í frumvarpinu hefur verið felld niður mikilvæg tillaga um að samkeppnisyfirvöld geti skotið málum til dómstóla.“ — Síðan segir að nánari grein verði gerð fyrir þessu síðar í umsögninni. Áfram segir, með leyfi forseta:

„Þó að í orði kveðnu virðist stefnt að því með frumvarpi til samkeppnislaga að efla samkeppniseftirlit og styrkja samkeppnisyfirvöld með auknum fjárframlögum þá er það mat Samkeppnisstofnunar að efnisleg breytingarákvæði geri það ekki. Þetta er rökstutt nánar í þessari umsögn.“ — og er vísað þar í umsögn Samkeppnisstofnunar. — „Það er ótti stofnunarinnar að þær viðamiklu breytingar á stjórnskipulagi samkeppnismála sem ráð er fyrir gert í frumvarpinu séu ekki til bóta þar sem forsendur fyrir þessum breytingum fá vart staðist. Aukin fjárframlög til málaflokksins og fjölgun starfsmanna munu að sjálfsögðu styrkja samkeppnisyfirvöld og auka afköst þeirra og skilvirkni. Það er hins vegar veruleg hætta á því að lítt undirbúnar tillögur um skipulagsbreytingar og veikingu samkeppnislaga dragi úr þessum jákvæðu áhrifum.“

Umsögn Samkeppnisstofnunar er mjög ítarleg. Nú kann einhver að halda því fram að starfsfólkið sem starfar innan þessarar stjórnsýslu kunni sjálft að hafa hagsmuna að gæta og sé ósátt við breytingar af þeim sökum. Slíkt ætti þá að koma í ljós þegar málin eru rædd og reifuð á málefnalegum grunni. Hér að framan kom fram að ekki var leitað eftir samvinnu við Samkeppnisstofnun, hvorki forsvarsmenn stofnunarinnar né annað starfsfólk, þegar þetta frumvarp var smíðað. Þegar þessir aðilar fengu að sjá drög að lagabreytingum sl. haust voru athugasemdir þeirra að engu hafðar og þess í stað samin frumvörp með áherslum sem ganga í þveröfuga átt. Sá sem er í aðstöðu til að breyta landslögum og hefur um það forgöngu hlýtur að þurfa að sýna fram á það á málefnalegan og rökstuddan hátt að sú gagnrýni sem fram kemur standist ekki. Í þessu ljósi er rétt að leggja áherslu á að röksemdum Samkeppnisstofnunar, sem fram eru settar í ítarlegu máli og birtast sem fylgiskjal með þessu áliti eins og ég gat um áðan, hefur annaðhvort ekki verið svarað eða á öldungis ófullnægjandi hátt við meðferð málsins í efnahags- og viðskiptanefnd.

Ég vil aðeins staldra við þessi vinnubrögð, sem eru mjög undarleg, og birtast okkur reyndar í ýmsum öðrum málum og við gerð annarra frumvarpa sem eru í nefndum þingsins. Ég nefni t.d. frumvarp um Ríkisútvarpið. Þar var ekki leitað eftir samráði við þá sem gerst þekkja til, hvað þá hagsmunasamtök. Samningum sem gerðir voru við samtök launafólks á sínum tíma er rift einhliða. Þar vísa ég til samninga sem voru gerðir í kringum 1980 á milli BSRB og fjármálaráðuneytisins um aðkomu starfsmanna að stjórn stofnana, í þessu tilviki Ríkisútvarpsins. Samkvæmt frumvarpi ríkisstjórnarinnar er öllu slíku ýtt til hliðar út af borðinu og án þess að leitað sé eftir samkomulagi eða samvinnu.

Það sem hér er á ferðinni er greinilega fullkomin vanvirðing gagnvart Samkeppnisstofnun og því fólki sem þar starfar. Og það sem verra er, Samkeppnisstofnun fullyrðir að starfsmönnum stofnunarinnar eða forsvarsmönnum hafi verið kynnt drög og hugmyndir og staðhæft að ekki yrðu gerðar breytingar á sjálfri stjórnsýslunni. Þetta kemur fram í máli forsvarsmanna Samkeppnisstofnunar. Þau fyrirheit eru hins vegar greinilega svikin. (Gripið fram í.) Útilokað að það hafi verið þannig? Það væri þá fróðlegt að sjá hæstv. viðskiptaráðherra koma hingað í pontu á eftir að segja okkur að hér sé um misskilning að ræða eða rangar ásakanir í garð stjórnvalda. Forsvarsmenn stofnunarinnar staðhæfa að þeim hafi verið sýndar aðrar hugmyndir og það staðhæft að ekki yrðu gerðar þær grundvallarbreytingar á stjórnsýslunni sem felast í þessum frumvörpum. Það kemur fram af þeirra hálfu. Það þarf að fá botn í þetta og vonandi … (Gripið fram í.) Hæstv. ráðherra situr hér og kallar fram í, en ég hvet hana til að sýna ekki þá hógværð í þessu máli að koma ekki í pontu og leiða okkur í allan sannleika um málið. Ef það eru rangar ásakanir sem fram hafa komið í garð stjórnvalda frá Samkeppnisstofnun þá þarf náttúrlega að upplýsa um það. Hæstv. ráðherra verður að koma í ræðustól á eftir og upplýsa þingið um þetta.

Á meðal efnisatriða sem ástæða er til að vekja sérstaka athygli á eru:

Lagaheimildir samkeppnisyfirvalda til eftirlits og aðgerða eru þrengdar, og er þar vísað sérstaklega í 16. gr. frumvarpsins en í henni hefur verið fellt brott ákvæði sem nú er að finna í 17. gr. samkeppnislaga þar sem segir að samkeppnisráð geti gripið til aðgerða gegn aðstæðum sem hafa skaðleg áhrif á samkeppni.

Vald til að skipa í stjórn Samkeppniseftirlits er hjá ráðherra einum samkvæmt frumvarpinu en nauðsynlegt hefði verið, að okkar dómi í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði, að tilnefningarvaldið væri hjá fleiri aðilum en ráðherra einum. Það tíðkast oft, eins og við þekkjum, að samtökum eða aðilum er falið að koma með tilnefningar í stjórnir samtaka. Þarna mætti hugsa sér Neytendasamtökin t.d., (Gripið fram í.) BSRB, segir hv. þm. Pétur H. Blöndal, það kæmi vel til álita, og Alþýðusamband Íslands og önnur almannasamtök. (Gripið fram í.) Hv. þm. Pétur H. Blöndal nefnir Verslunarráðið sérstaklega og það kemur kannski ekki mikið á óvart vegna þess að Verslunarráðið og Samtök atvinnulífsins eru nánast einu aðilarnir í landinu sem hafa lýst ánægju með þessi frumvörp. (Gripið fram í.) Efnahags- og viðskiptanefnd bárust ítarlegar umsagnir víðs vegar að. Annars vegar er stór bunki frá almannasamtökum og þeim aðilum sem sinna neytendavernd, Neytendasamtökunum sérstaklega, sem gagnrýna frumvarpið, og hins vegar litli bunkinn, þar eru bara nokkrar línur þar sem lögð er blessun yfir þessi frumvörp ríkisstjórnarinnar.

Ég held áfram að lesa þau atriði sem ég vil vekja sérstaka athygli á. Ég tel að eðlilegt væri að gera þá kröfu að stjórnarmenn hafi engin eigna- og viðskiptatengsl sem orkað gætu tvímælis. Í þessu efni er slakað á kröfum frá fyrra fyrirkomulagi en í núverandi lögum er krafa um að formaður og varaformaður hafi ekki slík tengsl. Ég skil ekki hvers vegna ekki er hægt að gera slíka kröfu. Þjóðfélagið er nú ekki þannig að nánast hver einasti maður sé kominn á kaf í bisness, ég held að það sé ekki svo. Ég held að t.d. í háskólaumhverfinu sé að finna fólk sem ekki er á kafi í viðskiptum. (Gripið fram í.) Háskólarnir eru í samkeppni hver við annan, segir hv. þm. Pétur H. Blöndal. Þeir eru í samkeppni hver við annan og þess vegna ekki hægt að gera kröfur um viðskiptatengsl.

Það er náttúrlega draumsýn sem hv. þm. Pétur H. Blöndal á, að gera allt þjóðfélagið þannig úr garði að þar sé ein bullandi samkeppni á öllum sviðum. (Gripið fram í.) Það er bara komið, segir hv. þingmaður. Það er nú ekki orðið þannig í menntakerfinu, að uppistöðu til eru skólarnir reknir á vegum samfélagsins, og sama á líka við um heilbrigðisþjónustuna og velferðarþjónustuna almennt. Það er alveg rétt sem hv. þingmaður segir að við erum að færa okkur alltaf nær og nær markaðshyggjunni í þeim efnum. Alþingi var að samþykkja frumvarp í morgun um skattlagningu á orkufyrirtæki og við heyrðum hæstv. fjármálaráðherra segja hér í pontu að það sé fullkomlega eðlilegt að ein lög og sömu reglur gildi um öll fyrirtæki í landinu og þar með grunnþjónustufyrirtækin. Hv. þm. Pétur H. Blöndal tók að sjálfsögðu undir þau sjónarmið. Þetta er pólitísk skoðun og ekkert við hana að athuga nema mér finnst hún arfavitlaus og röng og berst á móti henni eins og ég mögulega get en það er önnur saga. Ég tel eðlilegt að hafa þessa kröfu í lögunum. Það getur hins vegar vel verið að allflestir þeirra einstaklinga sem eru á snærum Framsóknarflokksins eða tengdir þeim flokki séu komnir í bisness, það má vel vera. Framsóknarflokkurinn hefur verið gagnrýndur mjög harðlega fyrir að koma sínu fólki fyrir og framsóknarmenn hafa hagnast vel á einkavæðingunni, einkavæðingarspillingunni. (Gripið fram í.) Ég minnist þess þegar hæstv. … (Gripið fram í.)

(Forseti (JóhS): Ekki samtöl.)

Mér finnst mjög fróðlegt, hæstv. forseti, að hlýða á frammíkall hæstv. viðskiptaráðherra landsins. En ég er alveg sammála hæstv. forseta að það væri náttúrlega eðlilegra að ráðherrann kæmi í pontu og gerði grein fyrir málunum. Ég man eftir því þegar hæstv. viðskiptaráðherra talaði um það hér í ræðustól á sínum tíma að tiltekin fyrirtæki væru framsóknarfyrirtæki, okkar fyrirtæki, held ég að hún hafi orðað það fyrir fáeinum árum. Framsóknarflokkurinn lítur greinilega þannig á að hann eigi viss fyrirtæki og vissa einstaklinga þar með, eigi þá, slær eign sinni á þá. Og ég spyr: Eru allir þeir einstaklingar sem eru á snærum eða vegum Framsóknarflokksins eða tengjast honum á kafi í bisness þannig að ekki sé hægt að finna fólk sem ekki hefur slík hagsmunatengsl til að gæta hagsmuna almennings? (Gripið fram í.)

Hér er annar stjórnarþingmaður sem hefur áhuga á að ræða málin og væri fróðlegt að fá hann hingað í pontu til að ræða um hagsmunatengsl og gera okkur grein fyrir hvers vegna hann stendur að frumvarpi sem dregur úr kröfum að þessu leyti. Þegar samkeppnislögin voru sett á sínum tíma þótti ástæða til að hafa skilyrði af þessu tagi gagnvart formanni og varaformanni stjórnar sem núna er verið að veikja. Það er verið að draga úr því og það væri fróðlegt að fá að heyra nánari röksemdir fyrir þessari breytingu.

Þá er ástæða til að gera athugasemd við 6. gr. frumvarpsins sem gerir ráð fyrir því að stjórn Samkeppniseftirlitsins, sem einhliða er skipuð af ráðherra, ákvarði forstjóranum kjör. Hvers vegna skyldi þessi einstaklingur ekki falla inn í kjaraumhverfi opinberra starfsmanna almennt? Er það til þess að hægt sé að greiða honum hærri laun en almennt gerist í því umhverfi? Eða er það til þess að auðveldara sé að reka hann án tillits til réttinda sem embættismenn í sambærilegri stöðu hafa? Hver er ástæðan fyrir því að þessi einstaklingur er tekinn út úr kjara- og réttindaumhverfi opinberra starfsmanna? Hver er ástæðan? (Gripið fram í.) Finnst hv. þm. Pétri H. Blöndal, formanni efnahags- og viðskiptanefndar, þetta vera æskilegt og rétt?

Ég veit að hv. þm. Pétur H. Blöndal vill helst burt með allt þetta umhverfi eða margar af þeim reglum og lögum sem gilda um opinbera starfsmenn, réttinda- og kjaraumhverfi þeirra. Ég geri mér grein fyrir því, ég hef oft hlustað á ræður hans um það efni. En hvers vegna á taka þennan einstakling? Hann nefnir að forstjóri Fjármálaeftirlitsins búi við svipaðar aðstæður. Er það til þess að þessir menn geti fengið hærri laun, hærri tekjur en annað fólk sem gegnir stjórnunarstöðum hjá ríkinu? Eða er verið að veikja réttindi þessara manna til að auðveldara sé að reka þá? Það er nefnilega auðveldara að reka menn ef þeir eru teknir út úr þessu umhverfi. Það gilda ákveðnar reglur um embættismenn sem eru jafnan skipaðir til fimm ára í senn en hafa trausta stöðu á því tímabili. Þeir þurfa að hafa brotið eitthvað af sér í starfi til að hægt sé að reka þá. Í þessu tilviki væri hins vegar hægt að reka forstöðumanninn með tilskildum fyrirvara, sem er ekki mjög langur. (Gripið fram í.) Það væri fróðlegt að heyra þetta. Hæstv. ráðherra Valgerður Sverrisdóttir er alltaf að kalla hér fram í og það eru mjög áhugaverð ummæli sem frá henni heyrast en ég heyri þau bara ekki öll, ég heyrði ekki það síðasta. Hvað var það sem hæstv. ráðherra var að reyna að koma hér að? (Viðskrh.: Ég ætla að halda ræðu á eftir.) Já, gott. Hæstv. ráðherra ætlar að halda ræðu á eftir og skýra þessi sjónarmið og þá óska ég eftir því að heyra skýringuna á þessu. En ég tel þetta vera slæmt, ég tel þetta vera varasamt. Ákveðnar reglur eiga að gilda almennt um opinbera starfsemi og ég hefði talið æskilegt og nauðsynlegt að breyting yrði gerð á frumvarpinu að þessu leyti.

Neytendasamtökin nefna þetta sérstaklega í álitsgerð sinni og benda á að staða forstöðumanns Samkeppniseftirlitsins sé viðkvæm staða og það er alveg rétt. Forstöðumaður Samkeppniseftirlitsins og Samkeppniseftirlitið eru iðulega að taka á málum sem eru erfið og iðulega umdeild og við þekkjum það náttúrlega úr olíumálinu og þessum stóru samráðsmálum, þessum spillingarmálum sem upp hafa komið.

Þá nefni ég hérna sem hluta af atriðum sem ég tel sérstaka ástæðu til að vekja athygli á að Samkeppniseftirlitið kæmi ekki til með að njóta sama sjálfstæðis og Samkeppnisstofnun gerir nú. Forstöðumaðurinn yrði settur í vasa pólitískt skipaðrar stjórnar og stofnunin þyrfti auk þess að bera allar meiri háttar ákvarðanir undir stjórnina. Stjórninni er síðan ætlað að gæta þess að meðalhófs sé gætt í hvívetna, nokkuð sem forstjórar olíufélaganna og neytendur hefðu án efa skilgreint með mismunandi hætti þegar samráðssvindlið kom upp nú nýlega. Hver skyldi vera ástæðan fyrir því að nú vilja ríkisstjórn og stjórnarmeirihluti festa ákvæði þessa efnis í lög? Hræða dæmin? Og ef svo er, þá hvernig og hvern? Þetta er stóra spurningin. Hvers vegna er verið að festa þetta í lögin? Hvers vegna sjá menn ástæðu núna til að setja ákvæði þessa efnis í lög?

Í breytingartillögum efnahags- og viðskiptanefndar er þessu ákvæði laganna lítillega breytt. (Gripið fram í: Meiri hlutans.) Meiri hlutans, þessu ákvæði laganna er breytt í þá átt sem við erum að gagnrýna, það er rétt, en við teljum að þarna hefði þurft að hnykkja betur á. (PHB: Allt skynsamlegt tekið til greina.) Allt skynsamlegt tekið til greina, segir hv. þingmaður og formaður efnahags- og viðskiptanefndar og er þar með að dæma umsagnir sem bárust frá Samkeppnisstofnun og starfsmönnum hennar, sem gerst þekkja til þessara mála, frá ASÍ, BSRB, Neytendasamtökunum, sem óskynsamlegt rugl væntanlega, vegna þess að öllu skynsamlegu var svarað jákvætt og gerðar breytingar. En staðreyndin er sú að að uppistöðu til hefur ábendingum og gagnrýni sem fram hefur komið á þessi frumvörp ekki verið svarað á jákvæðan hátt. Það hefur ekki verið orðið við beiðni um breytingar.

Ég ætla að víkja að 27. gr. frumvarpsins sem er vægast sagt mjög vafasöm.

Hún er svohljóðandi, með leyfi forseta:

„Þegar dómstóll fjallar um samninga, ákvarðanir eða aðgerðir skv. 53. og 54. gr. EES- samningsins í máli sem Eftirlitsstofnun EFTA hefur þegar tekið ákvörðun í má úrlausn hans ekki brjóta í bága við þá ákvörðun. Enn fremur skal hann forðast að leysa úr máli á annan veg en þann sem Eftirlitsstofnun EFTA kann að gera í máli sem hún hefur til meðferðar. Dómstóllinn getur í þessu skyni frestað meðferð málsins. Ákvæði 1. mgr. hefur ekki áhrif á heimild dómstóls til að leita eftir ráðgefandi áliti EFTA- dómstólsins skv. 34. gr. samnings milli EFTA-ríkjanna um stofnun eftirlitsstofnunar og dómstóls.“

Það er fyrsti hlutinn í þessari grein sem orkar mjög tvímælis. „Þegar dómstóll fjallar um samninga, ákvarðanir eða aðgerðir skv. 53. og 54. gr. EES- samningsins í máli sem Eftirlitsstofnun EFTA hefur þegar tekið ákvörðun í má úrlausn hans ekki brjóta í bága við þá ákvörðun.“ Með þessu lagaákvæði yrðu íslenskir dómstólar skyldaðir til að fara eftir niðurstöðum erlendra aðila. Verður ekki annað séð en að með samþykkt frumvarpsins felist framsal dómsvalds úr landi. Um þetta segir m.a. í umsögn laganefndar Lögmannafélags Íslands, með leyfi forseta:

„Laganefndin bendir á að í tilvitnaðri grein felst að íslenskir dómstólar verði bundnir af ákvörðun alþjóðastofnana í máli sem þeir annars eiga lögsögu í. Hér er því um að ræða framsal dómsvalds sem kann að höggva nærri stjórnarskrá. Það er ekki á færi nefndarinnar að gefa álit sitt á þessu álitaefni í ljósi þess skamma tíma sem gafst til að veita umsögn þessa. Verður látið við það sitja að benda á mikilvægi þess að álitaefnið verði gaumgæfilega íhugað í meðferð þingsins.“

Nú verður ekki annað sagt, svo menn séu látnir njóta sannmælis, en að menn hafi reynt að gaumgæfa þetta nokkuð. Farið var yfir þetta mál og því skotið einnig til utanríkismálanefndar þingsins þar sem um þetta var fjallað og lögfræðingar og lögspekingar komu á fund okkar. Í þeim hópi var Stefán Már Stefánsson lagaprófessor sem sendi efnahags- og viðskiptanefnd jafnframt álitsgerð í nafni réttarfarsnefndar. Í áliti hans segir m.a., með leyfi forseta:

„Telja verður að álitamál varðandi stjórnarskrána sem hér er við að glíma beri að leysa á grundvelli þeirra meginsjónarmiða sem nefnd sem utanríkisráðherra skipaði 14. apríl 1992 setti fram um það hvort EES-samningurinn eða fylgisamningar hans brytu á einhvern hátt í bága við íslensk stjórnskipunarlög, en nefndin skilaði áliti 6. júlí 1992. Þá ber einnig að hafa í huga tvær fyrrgreindar álitsgerðir um samning milli Íslands og Evrópubandalagsins um Schengen-samstarfið sem einnig fjalla um stjórnskipulegt gildi þess samnings. Samkvæmt þessu verður að telja að fyrrgreind 1. mgr. 27. gr. frumvarpsins fái vart staðist þar sem:

Farið er inn á nýja braut sem ekki var til áður í EES-samningnum, þ.e. að íslenskir dómstólar verða bundnir við ákvörðun Eftirlitsstofnunar EFTA í samkeppnismálum við tilteknar aðstæður.

Fullveldisframsal það sem hér er gert ráð fyrir verður að skoða í heild og miða við allan EES-samninginn en hann reyndi í upphafi mjög á íslenska stjórnarskrá eins og kunnugt er. Það er með öðrum orðum ekki unnt að líta á fullveldisframsalið varðandi dómstólana nú sem einangrað fyrirbæri. Þetta skiptir máli þegar metið er hvort framsal teljist smávægilegt.

Varhugavert er að rökstyðja umrætt fullveldisframsal með því að það sé takmarkað við tilteknar aðstæður eins og gert er í fyrirliggjandi álitsgerð. Sé haldið áfram á þeirri braut má segja nákvæmlega það sama um flesta hluta EES-samningsins. Hann má greina í sundur í afmarkaða þætti og draga þannig smám saman vald frá íslenskum dómstólum.

Að áliti undirritaðs getur hugsanlegur fjöldi tilvika sem 1. mgr. 27. gr. frumvarpsins kynni að taka til ekki skipt máli þegar stjórnskipulegt gildi ákvæðisins er metið.“

Þetta eru varnaðarorð sem ég tel að þurfi að taka mjög alvarlega og reyndar var það gert í nefndinni. Menn fóru rækilega yfir þetta og ég held að það eigi við um alla nefndarmenn að þeir hafa af þessu áhyggjur, menn gera það ekki brosandi að samþykkja lög, lagaákvæði sem a.m.k. orka tvímælis á þennan hátt.

Ég tel reyndar að við eigum að forðast sem heitan eldinn að stíga skref af þessu tagi því að eins og Stefán Már Stefánsson bendir á leiðir eitt skref af öðru og smám saman erum við að færa valdið út úr landinu. Það er mjög alvarlegur hlutur ef við færum dómsvaldið út úr landinu.

Menn reyndu síðan að réttlæta þetta gagnvart sjálfum sér, liggur mér við að segja, þannig að það kæmi ekki til þessa, ólíklegt væri að til þessa kæmi, að á þetta reyndi og þetta væri afmarkað við tiltekin einstök mál og hefði ekki fordæmisgildi o.s.frv. Slíkar vangaveltur voru uppi. Ég held að við eigum að taka þessi tilvitnuðu orð Stefáns Más Stefánssonar prófessors alvarlega því að hann varar okkur við því að stíga skref af þessu tagi. Var reyndar með hugmyndir um breytt orðalag en að mínum dómi var innihaldið engu að síður hið sama. Menn voru að velta því fyrir sér hvernig hægt væri að tryggja innihaldið, sama innihald, en með öðru orðalagi. Það er innihaldið hins vegar sem þarna skiptir máli.

Þetta finnst mér að eigi að vera sameiginlegt verkefni okkar allra að glíma við hvernig við getum forðast þetta, að afsala okkur valdinu út úr landinu, og þá náttúrlega sérstaklega dómsvaldinu. Ég vil leggja áherslu á andstöðu okkar við þetta ákvæði.

Þetta eru helstu efnisþættirnir sem fram koma í nefndaráliti mínu og ég ætla að víkja aðeins að þeim umsögnum sem fylgja. Ég ætla ekki að fara mjög ítarlega í þær allar. Það væri að sjálfsögðu hægt að hafa mjög langt mál um þær. Umsögn Samkeppnisstofnunar einnar er upp á einar 30 síður. Ég spurði nú, að fjarstöddum þá formanni efnahags- og viðskiptanefndar, sem upplýsti þingheim um að hann hefði yfirleitt ekki þrek til að hlusta með athygli á ræður manna, a.m.k. ekki þær ræður sem væru lengri en u.þ.b. kortér, hvort hann hefði lesið alla álitsgerð Samkeppnisstofnunar og hvort þetta eigi þá ekki við um skrifaðar skýrslur, hann hafi þrek og athygli, sé vakandi þegar hann fari yfir þær. Þetta segi ég nú í gamansömum tóni að sjálfsögðu.

Umsögn frá Alþýðusambandi Íslands er á þann veg að ASÍ minnir á að sambandið hafi oft ályktað um mikilvægi þess að efla samkeppnislöggjöfina og Samkeppnisstofnun, nú síðast í tengslum við skýrslu Samkeppnisstofnunar um ólögmætt samráð olíufélaganna. Segir Alþýðusambandið að afstaða ASÍ verði að skoðast í þessu ljósi.

Síðan segir, með leyfi forseta:

„Ein helsta breyting sem lögð er til í frumvarpinu er að gert er ráð fyrir að þau verkefni sem nú heyra undir samkeppnisyfirvöld er lúta að eftirliti með óréttmætum viðskiptaháttum og gagnsæi markaðarins verði ekki unnin í sömu stofnun og þau verkefni sem snúa sérstaklega að samkeppnismálum.“

Síðan er minnt á að fyrir þinginu liggi þrjú frumvörp, sem ég gat um hér áðan. Síðan er vísað í einstakar greinar og fyrst vikið að 5.–7. gr. þar sem fjallað er um stjórn Samkeppniseftirlits, skipun hennar og hlutverk.

Alþýðusamband Íslands segir, með leyfi forseta, orðrétt:

„ASÍ telur að hlutverk stjórnarinnar sé ekki skýrt samkvæmt frumvarpinu, að stjórnin geri stjórnkerfið flóknara og um leið óskilvirkara. Einnig kunna að koma upp erfiðleikar vegna hugsanlegra tengsla einstakra stjórnarmanna við þá hagsmuni sem Samkeppniseftirlitið á að sinna. ASÍ leggur því til að ákvæði um skipun og hlutverk stjórnar verði felld út úr frumvarpinu og þess í stað verði sett inn ákvæði þess efnis að forstjóri stofnunarinnar verði skipaður beint af ráðherra.“

Alþýðusambandið vill greinilega hafa þessi sýnilegu tengsl. Ég hef skýrt frá sjónarmiði mínu um stjórn stofnunarinnar, ég vil hafa fjölskipað tilnefningarvald, getum við sagt.

Um 16. gr. frumvarpsins segir Alþýðusambandið, með leyfi forseta:

„16. gr. frumvarpsins hefur sama tilgang og 17. gr. gildandi samkeppnislaga. Þó hefur sú mikilvæga breyting verið gerð að c. liður gildandi 17. gr. er felldur brott,“ — nokkuð sem ég fór yfir í umsögn minni áðan, en Alþýðusambandið telur þetta vera slæmt og segir orðrétt, með leyfi forseta:

„ASÍ telur að með því að fella brott c. lið 17. gr. verði úrræði samkeppnisyfirvalda til að bregðast við fákeppni og öðrum markaðsbrestum mun veikari en nú er. ASÍ leggur því áherslu á að bætt verði við 16. gr. frumvarpsins nýjum lið sem verði samsvarandi og c. liður 17. gr. gildandi laga.“

Þetta er mjög í þeim anda sem hv. þm. Lúðvík Bergvinsson skýrði hér áðan og ég hef tekið undir í áliti mínu.

Síðan segir áfram í álitsgerð Alþýðusambandsins, með leyfi forseta:

„Samkvæmt tillögum í skýrslunni um íslenskt viðskiptalíf segir: „Lagt er til að samkeppnisyfirvöldum verði veittar ríkari heimildir til vettvangsrannsókna, þar á meðal á heimilum, landsvæðum eða flutningatækjum í eigu stjórnarmanna, framkvæmdastjóra og annarra starfsmanna hlutaðeigandi fyrirtækis og samtaka fyrirtækja. Nefndin leggur þó áherslu á það að vettvangsrannsóknir megi ekki framkvæma nema fyrir liggi dómsúrskurður, sem og að fundin verði leið til að lögreglan, en ekki starfsmenn samkeppniseftirlits, geti séð um framkvæmd vettvangsrannsókna sem fram fara utan starfsstöðva fyrirtækis.““

Áfram segir um þetta í álitsgerð Alþýðusambandsins:

„Í drögum að nýjum samkeppnislögum sem kynnt voru 30. september 2004 var ákvæði í samræmi við framangreinda tillögu og heimilaði samkeppnisyfirvöldum að gera að gera húsleit á öðrum stöðum en starfsstöð viðkomandi fyrirtækis, þar á meðal á heimilum stjórnarmanna, framkvæmdastjóra og annarra starfsmanna. Í frumvarpinu eins og það liggur nú fyrir Alþingi er þetta ákvæði fellt út. ASÍ telur nauðsynlegt að samkeppnisyfirvöld hafi víðtækar rannsóknarheimildir. ASÍ leggur því til að á eftir 1. mgr. 20. gr. frumvarpsins komi ný málsgrein, sem yrði svohljóðandi:

„Þegar rökstuddur grunur er um að gögn, sem varða starfsemi fyrirtækis eða samtaka fyrirtækja og viðfangsefni rannsóknar máls og skipta máli við sönnun alvarlegs brots gegn lögum þessum eða ákvörðunum samkeppnisyfirvalda, séu geymd annars staðar en á starfsstað fyrirtækis, þar með talið á heimilum stjórnarmanna, framkvæmdastjóra og annarra starfsmanna hlutaðeigandi fyrirtækis og samtaka fyrirtækja, getur Samkeppniseftirlitið gert athugun og lagt hald á gögn þar.““

Þetta er náttúrlega stórmál. Ég verð að segja að ég er ekki á einu máli með Alþýðusambandinu hvað þetta snertir. Ég verð að játa að ég hef miklar efasemdir um hvert við stefnum með þjóðfélagið í því að herða á eftirliti og lögregluvaldi. Mér finnst það óhugnanleg tilfinning ef löggjafinn færi lengra inn á þessar brautir. Ég gæti fyrir mitt leyti ekki tekið undir það. Ég vil berjast gegn spillingu, samráðsspillingunni einnig, með því að reyna að opna þjóðfélagið eins og við mögulega getum, efla þær stofnanir sem eiga að veita samfélaginu aðhald, efla neytendaverndina, efla umræðu um málefni af þessu tagi. En þegar kemur að því að leita inni á heimilum manna þá segi ég stopp. Þá hef ég miklar efasemdir.

Hins vegar vil ég að allar upplýsingar séu sem opin bók. Ég er því fylgjandi að þingmenn og ráðherrar og gefi upplýsingar um fjárreiður sínar og tengsl. Ég tel að stjórnmálaflokkarnir eigi að hafa bókhald sitt galopið til að koma í veg fyrir að menn gjaldi pólitíska vinargreiða með fjárframlagi. Það er mjög mikilvægt, það er spurning um lýðræði. Ég er mjög á öndverðum meiði við unga sjálfstæðismenn sem vilja láta loka skattskýrslurnar niðri og gera þær að leyniplaggi á þeirri forsendu að um sé að ræða svo viðkvæmar persónuupplýsingar að þær eigi ekki erindi út í samfélagið. Ég vil opna samfélagið á öllum vígstöðvum, alls staðar.

En við verðum að stíga gætilega til jarðar og gæta meðalhófs, svo að maður noti það orð. Annars endum við með því að láta svikarana og þá sem óprúttnir eru stýra þjóðfélaginu inn í hart eftirlitssamfélag, nánast lögregluríki. Þetta er stórmál sem við þurfum að taka umræðu um vegna þess að þetta gerist mjög hratt á öllum sviðum, eftirlit með ferðamönnum t.d. og ferðum manna. Bráðum verður hægt að fylgjast með því hvert menn aka, mælar settir í bíla og hægt að sjá hvar þeir hafa farið um landið. Þetta er umræða sem við þurfum að taka í þinginu og í samfélaginu. Ég tel það mjög brýnt.

Hins vegar virði ég hitt sjónarmiðið að sjálfsögðu einnig. Alþýðusambandið horfir í sinni umsögn til þeirra miklu svikamála sem hér hafa komið upp, þar sem fulltrúar olíufélaganna voru í samráði og gerðu um það nákvæmar áætlanir hvernig þeir gætu haft fé af fólki. Ljótustu svikin finnast mér hafa verið leiksýningarnar í kringum útboðin. Þeir þóttust bjóða í verkefni en höfðu í reynd komið sér saman um verðlagið, verðið og hvernig ætti að skipta með sér hagnaðnum eða ránsfengnum. Auðvitað er þetta ránsfengur og ekkert annað. Þetta er náttúrlega samhengi hlutanna. Þá segja menn: Það á að leita allra leiða til þess að upplýsa um brot af þessu tagi.

Ég tek undir nánast allt sem fram kemur hjá Samkeppnisstofnun og í umsögn Samkeppnisstofnunar. Ég vil efla þá stofnun og efla þá starfsemi. (Viðskrh.: Það er það sem við erum að gera.) Það er það sem er verið að gera, segir hæstv. ráðherra og er enn með athyglisvert inngrip inn í þessa umræðu. Það verður mjög fróðlegt að hlusta á ræðu hennar á eftir. Ég minni á þau efnisatriði sem ég óska eftir að hún fjalli sérstaklega um, t.d. hvers vegna forstjóri hinnar nýju stofnunar verður tekinn út úr almennu kjaraumhverfi opinberra starfsmanna og hann ekki látinn njóta þeirra réttinda sem embættismenn almennt búa við. Hvers vegna er það gert?

Síðan tek ég undir spurningu sem fram kom hjá hv. þm. Lúðvíki Bergvinssyni: Verður núverandi forstjóri endurráðinn? (Viðskrh.: Er það ekki spurning í þessu ...) Það er spurning já, vegna þess að menn velta því fyrir sér hvort hér sé um að ræða hefndaraðgerð gagnvart núverandi samkeppnisyfirvöldum. Það er spurning sem skiptir máli vegna þess að í þessum stofnunum starfa einstaklingar. Ef það er verið að níðast á fólki, níðast á þessum einstaklingum með hefndaraðgerðum þá er það að sjálfsögðu mál sem þarf að ræða og upplýsa. Þess vegna viljum við fá svör við þessu. (Gripið fram í.)

Alþýðusamband Íslands telur að ákvæði frumvarpsins um viðurlög séu með öllu óásættanleg og gerir ASÍ þá kröfu að inn í samkeppnislög verði sett ákvæði um skilyrðislausa upptöku ólögmæts ávinnings brotaaðila.

Í álitsgerðinni segir orðrétt, með leyfi forseta:

„Í refsilögum er almennt við það miðað að ávinningur brotamanns sé í öllum tilvikum gerður upptækur. Það er því eðlilegt að ákvæði þessa efnis verði sett í samkeppnislög. Það er með öllu óviðunandi að brotaaðili hagnist á broti sínu jafnvel þó að það sannist. Til viðbótar upptöku ólögmæts ávinnings af broti þurfa að koma ákvæði um eðlilegar sektir, þannig að brotlegt fyrirtæki skili ekki einungis ávinningi sínum af brotinu heldur skaðist einnig af háttsemi sinni.“

Þetta stendur í álitsgerð Alþýðusambandsins sem bendir á að í nýlegum úrskurðum Samkeppnisstofnunar og samkeppnisráðs varðandi ólögmætt samráð olíufélaganna hafi hinum brotlegu fyrirtækjum einungis verið gert að skila hluta af áætluðum ávinningi sínum.

Fleiri efnisatriði nefnir Alþýðusambandið en að þessu leyti eru ábendingarnar svipaðar og fram koma hjá Neytendasamtökunum.

Í umsögn BSRB kemur fram að fulltrúar samtakanna hafi átt samræður við fulltrúa annarra samtaka launafólks og Neytendasamtökin og það hafi verið samdóma álit þessara aðila að fyrirhugaðar lagabreytingar væru að ýmsu leyti óljósar þannig að eðlilegt væri að gefa þessu viðfangsefni betri tíma.

BSRB ræðir um tilnefningu í stjórnina, telur að hún eigi að vera fjölmennari en gert er ráð fyrir og að tilnefningar eigi að berast úr nokkrum áttum til að tryggja að fleiri en einn aðili komi að skipan stjórnarinnar.

Síðan segir orðrétt, með leyfi forseta:

„BSRB gerir alvarlega athugasemd við 6. grein frumvarpsins sem veitir stjórninni heimild til að ákvarða kjör forstjóra. Skýra þarf hvers vegna forstjóri þessarar stofnunar eigi að lúta öðrum reglum en almennt gerist hjá hinu opinbera. Hvers vegna á þessi einstaklingur ekki að heyra til sama kjaraumhverfis og annað starfsfólk í almannaþjónustu?“ Um þetta spyr BSRB.

Síðan segir, með leyfi forseta:

„Í 7. gr. frumvarpsins segir að forstjóri Samkeppniseftirlitsins skuli búa yfir víðtækri reynslu og þekkingu á sviði samkeppnismála. Þetta er sjálfsögð krafa. Því er síðan hnýtt við að forstjórinn skuli hafa háskólamenntun án þess að það sé skilgreint nánar á hvaða sviði hún skuli vera. Þetta er fráleitt ákvæði sem ratar þó inn í alla löggjöf sem frá Alþingi kemur nú um stundir og virðist fyrst og fremst eiga að útiloka allt fólk frá embættum hjá hinu opinbera sem ekki hefur háskólagráðu upp á vasann. Þessu mótmælir BSRB.“

Þetta eru athugasemdir sem hafa verið teknar til greina, hygg ég, a.m.k. varðandi Neytendastofu. Meiri hluti efnahags- og viðskiptanefndar gerir tillögu um það og það þykir mér hið besta mál.

Síðan er vikið að 27. greininni í umsögn BSRB, sem virðist heimila, segja samtökin, með leyfi forseta: „… framsal dómsvalds úr landi en fram til þessa hafa íslenskir dómstólar ekki verið bundnir með svo afgerandi hætti af erlendum dómsniðurstöðum. Þetta ákvæði hlýtur að þurfa rækilegrar skoðunar við áður en það er fest í lög.“

Þá segir í umsögn BSRB, með leyfi forseta:

„Í ákvæði til bráðabirgða segir að starfsmönnum Samkeppnisstofnunar skuli boðið annað starf hjá þeim stofnunum sem taka við verkefnum stofnunarinnar. Hér þarf að standa sambærilegt starf.“

Í sumum tilvikum hefur það verið gert, þegar stofnanir hafa verið lagðar niður eða færðar til eða breytingar gerðar á lagaumhverfinu, að sett hefur verið inn í sjálfan lagatextann að tryggja eigi starfsmönnum sambærilega stöðu. Það er ekki gert í þessu frumvarpi sem er mjög miður.

Í umsögn Neytendasamtakanna er vikið sérstaklega að starfi forstjórans og þeim kjörum og réttindum sem honum eru búin og ég vék lítillega að þessu áðan.

Hér segir, með leyfi forseta, í umsögn frá Neytendasamtökunum:

„Vert er að vekja athygli á því að starf forstjóra Samkeppniseftirlits er viðkvæmt starf og nauðsynlegt er að setja ákveðna lagavernd fyrir þann einstakling sem gegnir því starfi til þess að hann geti rækt starf sitt sem best og njóti starfsöryggis. Af þeim sökum telja Neytendasamtökin að forstjóri Samkeppnisstofnunar eigi að hafa svipaða lagavernd og Hæstaréttardómarar njóta í dag.“

Síðan er fjallað um forstjórann og hvernig Neytendasamtökin telja heppilegast að skipa þeim málum. Ég hleyp hér yfir stóra kafla úr álitsgerð Neytendasamtakanna en ætla að vísa hér í hluta af áliti þeirra um viðurlög.

Hér segir, með leyfi forseta:

„Neytendasamtökin telja með öllu óviðunandi að þeir sem brjóta gegn samkeppnislögum skuli iðulega og venjulegast hagnast á brotastarfseminni. Slíkt er til þess fallið að brotastarfsemi haldi áfram og verði víðtækari. Virkasta leiðin til að draga úr þessari brotastarfsemi er að mati Neytendasamtakanna að ólögmætur ávinningur verði ávallt gerður upptækur auk sekta og heimilda til að sækja þá til saka sem standa að brotunum þ.e. að sérstök ákvæði verði sett í almenn hegningarlög um brot gegn þeim almannahagsmunum sem um ræðir þegar um brot á samkeppnislögum er að ræða.“

Þetta er af svipuðum toga og gagnrýni sem kom frá Alþýðusambandinu. Um tengt efni, um 37. gr. frumvarpsins, segir orðrétt í umsögn Neytendasamtakanna, með leyfi forseta:

„Neytendasamtökin telja nauðsynlegt að breyta ákvæðum um sektir í 37. gr. en þar segir að sekt skuli aldrei vera hærri en nemur 10% af veltu síðasta almanaksárs. Neytendasamtökin leggja til að heimilt verði að víkja frá þessu hafi brotastarfsemi staðið í langan tíma. Hugsanlega mætti orða undanþágu með þeim hætti að heimila samkeppnisyfirvöldum að víkja frá þessu ákvæði um hámark sektar hafi brotastarfsemi staðið í þrjú ár eða lengri tíma. Þörfin á þungum sektargreiðslum er þó minni ef ólögmætur ávinningur er ávallt gerður upptækur og ákvæði sett um refsingar þeirra sem standa að brotunum, þ.e. þeirra einstaklinga sem að þeim stóðu. Verði slík ákvæði tekin upp í lög er minni ástæða til að breyta ákvæðum laga um sektargreiðslur.“

Ég vildi vekja athygli á þessu sjónarmiði sem fram kemur hjá Neytendasamtökunum.

Í fylgiskjölum með minnihlutaálitinu er umsögn frá Lögmannafélagi Íslands, laganefnd félagsins, sem fjallaði m.a. um 27. gr. og ég hef áður gert grein fyrir. Hér er einnig álitsgerð Stefán Más Stefánssonar prófessors auk að sjálfsögðu mjög ítarlegrar, vandaðrar og yfirgripsmikillar álitsgerðar frá Samkeppnisstofnun.

Hv. þm. Lúðvík Bergvinsson hefur farið mjög rækilega yfir þá umsögn og ætla ég ekki að gera það í fyrri ræðu minni um málið. Ég mun hugsanlega gera umsögnina að umræðuefni í síðari ræðu, en ég ítreka að á meðal vor er hæstv. bankamálaráðherra og samkeppnismálaráðherra landsins. Það verður mjög fróðlegt að hlýða á ræðu hennar á eftir þar sem hún fjallar væntanlega um þá gagnrýni sem fram hefur komið og þær alvarlegu ábendingar, vil ég leyfa mér að segja, sem heyrst hafa frá Samkeppnisstofnun um vinnubrögð af hálfu ráðuneytisins í málinu, að stofnuninni hafi verið kynntar hugmyndir sl. haust með yfirlýsingum þess efnis að ekki yrðu gerðar grundvallarbreytingar á stjórnsýslunni sem hefur reynst vera rangt því að frumvörpin eru ekki í samræmi við það sem fulltrúum stofnunarinnar var kynnt í haust. Þetta staðhæfa þessir aðilar.

Eins er nauðsynlegt að ráðherrann segi hug sinn varðandi þá einstaklinga sem í hlut eiga. Það eru alvarlegar ásakanir að tala um hefndaraðgerðir. (Gripið fram í: Hver byrjaði á því?) Hver byrjaði á því? Það getur vel verið að það hafi verið ég eða hv. þm. Lúðvík Bergvinsson og við stöndum alveg fullkomlega við það. Menn skilja ekki aðfarirnar á annan veg en nákvæmlega þennan.

Ég ætla að láta máli mínu lokið að sinni og mun að sjálfsögðu fylgjast mjög grannt með yfirlýsingum ráðherrans á eftir.