131. löggjafarþing — 125. fundur,  7. maí 2005.

Samkeppnislög.

590. mál
[15:40]

Frsm. 2. minni hluta efh.- og viðskn. (Ögmundur Jónasson) (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þóttist hafa talað aðeins um sérfræðingana, um hinn svart/hvíta heim, að það ætti að leita til þess fólks sem hefur sérfræðiþekkingu og hlusta á það og reyna að vega og meta það sem frá því kemur. Ég tel að það hafi ekki verið gert.

Varðandi hæfisskilyrði þekki ég náttúrlega ekki þann hóp sem hv. þm. Pétur H. Blöndal umgengst. En það er til fólk á Íslandi, meira að segja mjög margt fólk, sem er mjög viti borið og prýðilega hæft til að sinna störfum af þessu tagi, sem er ekki á kafi í bisness, það er bara staðreynd. (Gripið fram í.) Það hefur góða þekkingu og það á að leita til þess fólks. Ég tel að svo hafi verið, eins og ákvæði eru um í núgildandi lögum (Gripið fram í.) varðandi stjórn og stjórnarformann.

Síðan aðeins hitt, (Forseti hringir.) það er ekki verið að einfalda kerfið með lagabreytingunum.