131. löggjafarþing — 125. fundur,  7. maí 2005.

Samkeppnislög.

590. mál
[15:41]

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Í máli sínu kom hv. 9. þm. Reykv. s., Ögmundur Jónasson, inn á ákvæði frumvarpsins, 27. gr., sem snertir dómstólana og samspil dómstóla og samevrópskra stofnana í sambandi við úrlausn tiltekinna samkeppnismála.

Það er alveg rétt sem fram kom í máli hv. þingmanns að það var farið vel yfir þetta í efnahags- og viðskiptanefnd og nefndin átti um þetta fundi með sérfræðingum og ræddi málið einnig með utanríkisnefnd sem hafði til meðferðar sambærilegt ákvæði í þingsályktunartillögu sem felur í sér staðfestingu á þeim EES-gerðum sem lúta að þessu.

Það er líka alveg rétt að þegar við nefndarmenn í efnahags- og viðskiptanefnd nálguðumst efnið gerðum við okkur grein fyrir að niðurstaðan var ekki endilega sjálfgefin, um var að ræða framsal og bindingu fyrir dómstólana með nýjum hætti miðað við það sem áður hefur verið.

Hins vegar er mjög mikilvægt, og það er kannski það sem hafði grundvallaráhrif á niðurstöðu meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar, að þarna er um að ræða beitingu tiltekinna ákvæða EES-sáttmálans. Lögsagan hefur hingað til alfarið verið hjá hinum evrópsku stofnunum, Eftirlitsstofnun EFTA og EFTA-dómstólnum. Nú er verið að gera þá breytingu að verið er að færa hluta af þeirri lögsögu heim, en í tilteknum afmörkuðum tilvikum verða íslenskir dómstólar bundnir. Það er á þeim forsendum, vegna þess að verið er að taka lögsöguna heim, afsala að hluta til á móti, (Forseti hringir.) sem meiri hluti efnahags- og viðskiptanefndar taldi sér fært að styðja ákvæðið.