131. löggjafarþing — 125. fundur,  7. maí 2005.

Samkeppnislög.

590. mál
[16:12]

Gunnar Örlygsson (Fl) (andsvar):

Virðulegur forseti. Til þess að gera langa sögu stutta vil ég svara hv. þingmanni og spurningum hans með þessum hætti: Já, ég trúi hverju einasta orði sem ég sagði í ræðu minni. Um leið vil ég nota tækifærið og spyrja hv. þingmann hvort hann telji ekki nauðsynlegt á litlum mörkuðum að vera með öflugt samkeppniseftirlit. Dæmin sanna að á litlum mörkuðum er ríkari tilhneiging til samráðs, ríkari tilhneiging til að fákeppni verði raunin, ríkari tilhneiging til að neytendur beri óþarflega háan fórnarkostnað sökum smæðar markaðarins.

Ég kom inn á það í ræðu minni að Bretar eru með miklu öflugri og rýmri rannsóknarúrræði en nokkurn tíma þekkist á Íslandi. Það kom fram í tillögum hringanefndar að hér ætti að auka á rannsóknarúrræði við störf samkeppniseftirlits í þessu landi. Eftir þeim tillögum var ekki farið. Því spyr ég hv. þingmann: Hvað mælir á móti því að við rýmkum rannsóknarheimildir samkeppnisyfirvalda í landinu og veitum um leið atvinnulífinu það nauðsynlega aðhald sem lítill markaður svo sannarlega krefst?

Mér þætti afar vænt um að hv. þingmaður svaraði því hvað mælir á móti því að við rýmkum um rannsóknarúrræði hjá starfandi samkeppnisyfirvöldum í landinu.