131. löggjafarþing — 125. fundur,  7. maí 2005.

Samkeppnislög.

590. mál
[16:28]

Dagný Jónsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég talaði einmitt um að við yrðum að passa það að eftirlitsstofnanir tryggðu hag neytenda. Það er auðvitað meginmarkmið okkar með þessum lögum. Við teljum, eftir þessa skýrslu sem var gerð um íslenskt viðskiptaumhverfi — þar voru lagðar fram fimm tillögur og í frumvarpinu var tekið tillit til fjögurra þeirra — að við séum á þeirri braut að við séum að tryggja hag neytenda, í fyrsta lagi með því að einfalda stjórnsýsluna, í öðru lagi, og ekki síst, með því að auka fjárframlögin. Það hefur auðvitað verið gagnrýnt síðustu ár, og ég er alveg sammála henni, að samkeppnisyfirvöld hafa þurft meiri fjármuni. Það á að ráða sjö sérfræðinga í viðbót þannig að þeir fara úr 10 í 17. Að sjálfsögðu verður stofnunin miklu betur í stakk búin til að sinna samkeppnismálum og fara í fleiri rannsóknir.

Ég held að ég og hv. þm. Sigurjón Þórðarson séum alveg sammála um að stofnunin þurfi að sinna fleiri rannsóknum. Þetta verður að taka styttri tíma og þess vegna stígum við þessi skref og hjálpum til við það. Það mun að sjálfsögðu skila sér í bættum hag neytenda.