131. löggjafarþing — 125. fundur,  7. maí 2005.

Samkeppnislög.

590. mál
[16:34]

Jóhanna Sigurðardóttir (Sf):

Frú forseti. Það frumvarp sem hér er komið til 2. umr. gengur á margan hátt þvert á markmið og tillögur sem unnar voru fyrir viðskiptaráðherra um stefnumótun íslensks viðskiptaumhverfis. Er þá alveg ljóst, miðað við frumvarpið eins og það var lagt fram og eins og það kemur hér frá meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar, að viðskiptaráðherra var beygð af samstarfsflokknum sem knúði fram meiri háttar breytingar sem skipta sköpum um samkeppniseftirlit og úrræði til að taka á hringamyndun og fákeppni.

Ég hef fylgst nokkuð með þessari umræðu og það hefur vakið athygli mína hve óróleg hæstv. viðskiptaráðherra er við þessa umræðu, og þeir framsóknarmenn sem hér eru, enda held ég að þeim líði ekki vel (Viðskrh.: … svo vel.) með það frumvarp sem hér er komið til 2. umr. Ég velti fyrir mér hvort óróleiki hæstv. viðskiptaráðherra stafi af því að hún hafi e.t.v. — ég vona að hæstv. ráðherra hafi gert það — lesið ítarlega umsögn Samkeppnisstofnunar sem efnahags- og viðskiptanefnd fékk, upp á 30 blaðsíður. Þetta er faglega og vel unnin umsögn þar sem tekið er á ákvæðum frumvarpsins. Raunverulega er þetta frumvarp hæstv. ráðherra tætt þar niður og mjög skýr rök sett fram um það að hér sé verið að veikja Samkeppnisstofnun og draga úr sjálfstæði hennar. Vona ég að hæstv. ráðherra hafi lesið þá umsögn. Hafi hún gert það er ég mjög hissa á því að hún vilji ekki taka tillit til þeirra sjónarmiða, tillagna og ábendinga sem koma fram í þessari ágætu umsögn. (Gripið fram í.)

Raunar minnist ég þess ekki að neinn aðili sem sendi efnahags- og viðskiptanefnd umsögn um málið hafi fagnað þessu frumvarpi, nema ef vera skyldi Samtök atvinnulífsins sem er auðvitað lýsandi fyrir þetta mál sem mun veikja mjög allt samkeppniseftirlit í landinu.

Samkeppnisstofnun hefur í þessari umsögn sinni staðfest það sem ég hélt fram við 1. umr. þessa máls að engin rök liggja fyrir þeirri breytingu á Samkeppnisstofnun sem hér er verið að gera, engin fagleg úttekt hefur farið fram, ekkert samráð verið haft við samkeppnisyfirvöld um þessar breytingar. Er það raunverulega hneisa að stjórnvöld og hæstv. viðskiptaráðherra skuli fara fram með þetta veigamiklar breytingar á samkeppnislögum án þess að fagleg úttekt liggi þar að baki eða að samráð hafi verið haft við þá sem gerst þekkja til, þ.e. samkeppnisyfirvöld.

Samkeppnisstofnun tekur nokkuð á þessu í umsögn sinni og segir, með leyfi forseta:

„Helstu forsendur fyrir tillögum frumvarpanna um breytingar á stjórnsýslu í samkeppnismálum fá ekki staðist. Engin rök hafa komið fram sem sýna að núverandi stjórnsýsla samkeppnismála sé óeðlileg og þunglamaleg enda hefur engin úttekt verið gerð á stjórnsýslunni. Þá kemur ekkert fram í frumvarpinu sem styður það að tillögur um breytta stjórnsýslu efli skilvirkni eða geri samkeppnisyfirvöldum betur kleift að sinna verkefnum sínum. Þvert á móti geta þessar tillögur veikt samkeppnisyfirvöld. Sökum þessa varar Samkeppnisstofnun eindregið við þeim breytingum á stjórnsýslu sem ráð er fyrir gert í frumvörpunum.“

Ég vil spyrja hæstv. ráðherra — og hún skuldar raunverulega þinginu skýringu á því: Hvaða fagleg úttekt liggur að baki þeim breytingum sem hér eru gerðar? Ef hæstv. ráðherra er að vísa í þá nefnd og skýrslu sem var lögð fyrir hæstv. ráðherra á síðasta ári um íslenskt viðskiptaumhverfi hefur ekki verið farið að þeim breytingum sem þar koma fram og mun ég rekja það nánar í máli mínu. Veigamiklar breytingar sem sú nefnd lagði til hurfu á brott úr frumvarpi ráðherrans eftir að Sjálfstæðisflokkurinn hafði fjallað um málið í þingflokki sínum. Það rökstyður auðvitað að hæstv. ráðherra var beygð í þessu máli.

Ég vil aðeins fara nánar út í umsögn Samkeppnisstofnunar sem ég á eftir að vísa oft til í nokkuð ítarlegu máli sem ég þarf að hafa um þetta frumvarp. Í umsögninni er farið yfir forsendur fyrir breytingunum og rökin fyrir þeim þar sem raunverulega er hrakið það sem fram hefur komið um að það sé einhver nauðsyn fyrir þeim breytingum sem er verið hér að gera á samkeppnislögum.

Hér segir, með leyfi forseta:

„Tilgangur þessara tillagna er sagður vera að efla eftirlit með samkeppnishömlum. Byggjast tillögur að mestu á niðurstöðum nefndar viðskiptaráðherra um stefnumótun íslensks viðskiptaumhverfis. Af skýrslu þeirrar nefndar og ummælum í athugasemdum í ofangreindum frumvörpum má ráða að eftirfarandi meginforsendur liggi til grundvallar þessum hugmyndum að skipulagsbreytingum í samkeppnismálum.

Núverandi skipulag og stjórnsýsla sé of flókin og tvískipting samkeppnisyfirvalda í Samkeppnisstofnun og — ráð sé sérstök og skapi ójafnvægi milli málsaðila.

Eftirlit með samkeppnisreglum sé lítill hluti af störfum Samkeppnisstofnunar.

Samkeppnisyfirvöld hafi ekki getað einbeitt sér nægjanlega að eftirliti með samkeppnisreglum vegna anna við önnur verkefni.

Samkeppnisyfirvöld geti ekki við óbreyttar aðstæður sinnt nauðsynlegum verkefnum.

Samkvæmt framansögðu er ljóst að frumvarpið leggur til grundvallarbreytingar á stjórnsýslu í samkeppnismálum,“ segir hér í umsögninni.

Áfram segir, með leyfi forseta:

„Að mati Samkeppnisstofnunar er það bagalegt að framangreindar forsendur fyrir þessum breytingum byggjast í aðalatriðum á misskilningi eða röngum upplýsingum um núverandi stjórnsýslu í málaflokknum. Telur Samkeppnisstofnun það gagnrýnisvert að nefnd viðskiptaráðherra hafi kosið að leggja fram þessar tillögur án þess að leita upplýsinga hjá stofnuninni, samkeppnisráði, auglýsinganefnd eða áfrýjunarnefnd samkeppnismála. Hlýtur almennt að teljast æskilegt að leitað sé upplýsinga um staðreyndir og reynslu þeirra stjórnvalda sem falin er framkvæmd á tilteknum lögum áður en gerðar eru tillögur um að stjórnsýslufyrirkomulagi á því sviði sé gerbylt. Þegar Samkeppnisstofnun fékk í hendur skýrslu nefndar viðskiptaráðherra um íslenskt viðskiptaumhverfi og upphafleg drög að frumvarpi til nýrra samkeppnislaga í september 2004 vakti stofnunin athygli iðnaðar- og viðskiptaráðuneytisins á misskilningi og ónákvæmni sem fram kom í skýrslunni og drögunum. Viðbrögð ráðuneytisins fólust í því að gera breytingar á orðalagi í athugasemdum með drögum að frumvarpinu. Samkeppnisstofnun var jafnframt upplýst um það að engar breytingar yrðu gerðar á tillögum um nýtt stjórnsýslufyrirkomulag í samkeppnismálum.“

Með öðrum orðum, virðulegi forseti, hæstv. ráðherra gaf bara fulltrúum Samkeppnisstofnunar langt nef þegar þeir komu með rökstuddum hætti á framfæri við ráðuneytið og ráðherra ýmsum athugasemdum og tillögum sem þeir höfðu fram að færa við þessa skýrslu nefndar viðskiptaráðherra. Er það raunar furðulegt að hæstv. ráðherra skuli hunsa Samkeppnisstofnun svo mikið sem raun ber vitni.

Það er forkastanlegt að hæstv. viðskiptaráðherra ætli ekkert að gera með umsögn Samkeppnisstofnunar. Það er auðvitað ljóst að það gengur þvert á markmið og tillögur sem unnar voru fyrir viðskiptaráðherra um stefnumótun í íslensku viðskiptaumhverfi þegar ráðherrann stendur nú að því að fylgja fram tillögum sem veikja stofnunina og skerða sjálfstæði hennar.

Það er líka athyglisvert að fara yfir álit Samkeppnisstofnunar varðandi breytingu á stjórnsýslunni sem fram kemur í umsögninni. Þar eru þeir að svara því sem hæstv. ráðherra byggir tillögur sínar á um breytingu á stjórnsýslunni, þ.e. að núverandi stjórnsýslufyrirkomulag sé flókið, sérstakt og óeðlilegt.

Um það segir í áliti Samkeppnisstofnunar, með leyfi forseta:

„Í áliti nefndar viðskiptaráðherra segir að núgildandi tvískipting samkeppnisyfirvalda í Samkeppnisstofnun og samkeppnisráð sé sérstök og skapi ójafnvægi milli málsaðila og er í því samhengi á það bent að málsaðilar geti ekki flutt mál sín beint fyrir samkeppnisráði. Sökum þessa m.a. vill nefndin leggja niður samkeppnisráð og Samkeppnisstofnun.

Samkeppnisstofnun fær í fyrsta lagi ekki séð hvað sé sérstakt eða óeðlilegt við núgildandi stjórnsýslufyrirkomulag í samkeppnismálum hér á landi. Jafnframt er ekki ljóst hver sú mælistika er sem heimilar þá ályktun að skipulag samkeppnismála hér á landi sé sérstakt. Í því sambandi verður að hafa í huga að það er mjög mismunandi hvernig einstök aðildarríki EES skipuleggja framkvæmd á samkeppnisreglum. Stjórnsýslufyrirkomulagið er t.d. ekki það sama í Noregi og Svíþjóð eða í Bretlandi og Írlandi. Samkvæmt gildandi lögum annast Samkeppnisstofnun rannsókn samkeppnismála og undirbýr mál í hendur samkeppnisráðs sem hefur það hlutverk að taka ákvarðanir á fyrsta stjórnsýslustigi. Ákvörðunum samkeppnisráðs er unnt að skjóta til áfrýjunarnefndar samkeppnismála og síðar dómstóla. Þetta er í eðli sínu sama stjórnsýslufyrirkomulag og gildir í Danmörku þar sem stjórnvöld samkeppnismála eru samkeppnisstofnun, samkeppnisráð og áfrýjunarnefnd samkeppnismála. Önnur ríki eins og t.d. Belgía og Frakkland hafa í aðalatriðum einnig farið þá leið að fela sérstakri samkeppnisstofnun að rannsaka mál og samkeppnisráði að taka ákvörðun í samkeppnismálum. Á hinn bóginn notast ríki eins og t.d. Þýskaland og Ítalía við aðra aðferð og fela einu og sama stjórnvaldi að rannsaka og taka ákvarðanir í samkeppnismálum. Að mati Samkeppnisstofnunar er því ekki unnt að rökstyðja breytingar á núgildandi fyrirkomulagi stjórnsýslu með vísan til þess að stjórnskipulagið sé á einhvern hátt sérstakt eða óeðlilegt.

Í skýrslu nefndar viðskiptaráðherra kemur fram að málsaðilar geti ekki flutt mál sitt fyrir samkeppnisráði öðruvísi en í gegnum Samkeppnisstofnun og að þessi „tvískipting í stofnun og ráð skapi ákveðið ójafnvægi milli málsaðila“. Samkvæmt þessu virðist nefndin byggja á því að Samkeppnisstofnun sé líkt og fyrirtæki málsaðili fyrir samkeppnisráði. Svo er hins vegar ekki. Samkeppnisstofnun eða starfsmenn hennar eru ekki í stöðu málsaðila gagnvart samkeppnisráði og hafa enga hagsmuni af tiltekinni niðurstöðu mála. Samkeppnislögin gera sérstaklega ráð fyrir því að Samkeppnisstofnun annist dagleg störf ráðsins og stofnunin taki þátt í fundum ráðsins. Samkeppnisstofnun og samkeppnisráð eru þannig ekki tvö aðskilin sjálfstæð stjórnvöld heldur eru þau í þeim málum þar sem samkeppnisráð fer með ákvörðunarvald í raun ígildi eins stjórnvalds. Má í þessu samhengi líkja starfsmönnum Samkeppnisstofnunar við starfsmenn ráðuneyta sem undirbúa mál sem ráðherra tekur ákvörðun í. Fáum aðilum stjórnsýslumáls dytti í hug að halda því fram að þeir séu í lakari stöðu gagnvart starfsmönnum ráðuneyta þar sem þeir sitji ekki fundi með ráðherra þar sem stjórnsýslumál eru til lykta leidd. Samkeppnisstofnun hefur enga hagsmuni að verja fyrir samkeppnisráði. Á henni og samkeppnisráði hvílir einfaldlega sú skylda að tryggja að störf samkeppnisyfirvalda leiði til þess að markmið samkeppnislaga náist.“ (Gripið fram í: Faglegur metnaður.)

Virðulegi forseti. Það er mikil ókyrrð í stjórnarþingmönnum sem hér sitja og þeir grípa sífellt fram í. Ég skil það út af fyrir sig vel, virðulegi forseti, vegna þess að þeim líður ekki vel með þá afurð sem þeir eru að reyna að koma hér áfram og gera að lögum. (Gripið fram í.)

Ég vil halda áfram, virðulegi forseti, að vísa í þessa umsögn Samkeppnisstofnunar. Vonandi fæ ég frið til þess. Ég er að fara yfir rök hennar þar sem hún er að hnekkja því sem sagt er um að núverandi stjórnsýslufyrirkomulag sé flókið, sérstakt og óeðlilegt. Ég held áfram með umsögn um þann þátt málsins en hér segir, með leyfi forseta:

„Rétt er að hafa í huga að í máli sem varðaði ólögmætt samráð á grænmetismarkaði var látið reyna á næstum alla þætti varðandi stjórnsýslu samkeppnismála fyrir áfrýjunarnefnd samkeppnismála og dómstólum. Því var m.a. haldið fram af málsaðilum að Samkeppnisstofnun væri í stöðu aðila fyrir samkeppnisráði og ójafnvægi væri milli stofnunarinnar og viðkomandi fyrirtækja. Ekki var fallist á nein þessara gagnrýnisatriða. (Viðskrh.: Búið að því.) Úrskurður áfrýjunarnefndar, sem staðfestur var af Hæstarétti, sýnir að stjórnsýsla í samkeppnismálum er að þessu leyti fullkomlega eðlileg og sanngjörn. Í nýlegu máli sem varðar ólögmætt samráð olíufélaganna hefur áfrýjunarnefnd samkeppnismála hnykkt á því að stjórnsýslan í samkeppnismálum sé að þessu leyti eðlileg. Umfjöllun um þetta í nefndarálitinu byggir því á misskilningi á núverandi fyrirkomulagi í stjórnsýslu í samkeppnismálum og er ekki í samræmi við gildandi rétt. Jafnframt er ljóst að skýrsla nefndarinnar byggir á röngum upplýsingum því samkeppnisráð heimilar fyrirtækjum í alvarlegri málum að koma fyrir ráðið og tjá sig munnlega. Frá mars 2004 hefur öllum aðilum að málum þar sem kemur til álita að beita stjórnvaldssektum, til viðbótar við skriflegar athugasemdir til ráðsins, verið boðið að koma fyrir samkeppnisráð og tjá sig munnlega. Hafa málsaðilar í sektarmálum nýtt sér þetta og þetta fyrirkomulag hefur reynst vel.“

Ég vil næst, virðulegi forseti, víkja að mikilvægri breytingu sem ráðherrann er að beita sér fyrir og getur haft mjög alvarlegar afleiðingar, m.a. að draga úr möguleikum stofnunarinnar til að grípa til aðgerða gegn hringamyndun og samþjöppun eða yfirburðastöðu fyrirtækja á markaði. Í umsögn Samkeppnisstofnunar er eindregið varað við þessari breytingu. Í henni kemur fram að það að fella niður ákvæði í 17. gr. c í núgildandi lögum feli í sér ótvíræða veikingu á samkeppnislögum og möguleikum samkeppnisyfirvalda til þess að bregðast við alvarlegum samkeppnishömlum sem stafað geta af óhæfilegri samþjöppun og skaðlegri fákeppni.

Ég trúi því varla að hæstv. ráðherra sé að rengja, eins og mér heyrðist hæstv. ráðherra vera að gera áðan með frammíkalli, það sem Samkeppnisstofnun segir um þetta mál, sú sem best þekkir til. Samkeppnisyfirvöld hljóta að þekkja best hvaða úrræði þau þurfa að hafa til að geta gripið til aðgerða gegn hringamyndun og samþjöppun. Hæstv. ráðherra leyfir sér að gagnrýna og næstum segja (Viðskrh.: Nei, nei.) að hér sé bull á ferðinni, að það sé verið að veikja Samkeppnisstofnun með því að fella niður þetta ákvæði. Samkeppnisstofnun segir að hér sé um ótvíræða veikingu á samkeppnislögum að ræða og möguleikum samkeppnisyfirvalda til þess að bregðast við alvarlegum samkeppnishömlum sem stafað geta af óhæfilegri samþjöppun og skaðlegri fákeppni.

Í því umhverfi sem við erum í núna á fjármálamarkaðnum, svo að dæmi sé tekið, er mjög mikilvægt að hafa fyrir hendi slík úrræði sem hér er verið að taka af Samkeppnisstofnun.

Ég vil líka nefna að samkeppnisráð hefur túlkað þetta ákvæði sem á að fella niður svo að það veiti heimild til þess að krefjast uppskipta á fyrirtækjum. Það kom líka fram í umfjöllun efnahags- og viðskiptanefndar og var staðfest af Samkeppnisstofnun að samkeppnisráð hefur túlkað þetta ákvæði sem nú á að fella niður með þeim hætti að það veiti heimild til að krefjast uppskipta á fyrirtækjum en það er það ákvæði í frumvarpinu, nýtt, sem er sett inn og hæstv. ráðherra státar sig af … (Gripið fram í.) Það var heimild fyrir því í núgildandi samkeppnislögum að krefjast uppskiptingar á fyrirtækjum. (Gripið fram í.) Þetta liggur fyrir sem túlkun samkeppnisráðs á þessum málum sem best ætti að þekkja til mála. Furðu sætir að stjórnvöld ætli að veikja samkeppnislögin með þessum hætti þegar það er yfirlýstur tilgangur nefndar viðskiptaráðherra að leita leiða um hvernig bregðast megi við aukinni samþjöppun í íslensku atvinnulífi. Sá er yfirlýstur tilgangur og markmið með þessum breytingum. Svo er það tæki sem er inni í núgildandi lögum til að bregðst við því numið á brott.

Ég segi, virðulegi forseti, þetta er alvarleg atlaga stjórnvalda gegn neytendum og heilbrigðu samkeppnisumhverfi, enda er þarna gengið erinda stóru viðskiptasamsteypnanna og viðskiptablokkanna sem eru að eignast Ísland. Ég spyr: Hvað vakir fyrir stjórnvöldum að gera slíkt, að ganga hér erinda þessara stóru viðskiptasamsteypna? Ég ætla bara að leyfa mér að segja það sem framsóknarmenn eru greinilega viðkvæmir fyrir hér í þessum sal: Geldur Samkeppnisstofnun fyrir þá vasklegu framgöngu sem hún sýndi í olíumálinu? Það er alltaf svo að ef einhver stofnun eða aðili í stjórnsýslunni leyfir sér að mótmæla með einum eða öðrum hætti stjórnvöldum eða er þeim ekki sammála eða setur eitthvað fram sem stjórnvöld eru ekki sammála um mega þau búast við að hér komi inn frumvarp um að leggja niður þá stofnun.

Við munum eftir Þjóðhagsstofnun. Hún var lögð niður af því að hún var ekki viljalaust verkfæri í höndum stjórnvalda. Við höfum á síðustu dögum verið að ræða um Mannréttindaskrifstofuna. Framlög eru bara tekin af henni af því að hún veitir umsagnir sem eru ekki stjórnvöldum að skapi, og svo mætti áfram telja. Við höfum orðið vitni að þessu í valdatíð ríkisstjórnarinnar og það er bara haldið áfram á þessari göngu, ef einhver hefst eitthvað að í stofnunum í samfélaginu sem stjórnvöldum er á móti skapi er þetta bara leiðin, refsivöndurinn hafinn á loft og viðkomandi látinn gjalda þess.

Það er athyglisvert að eftir að niðurstaðan í olíumálinu lá fyrir seint á síðasta ári voru gerðar grundvallarbreytingar á því frumvarpi sem nefnd viðskiptaráðherra lagði til í meðferð þingflokka stjórnarflokkanna í málinu og allt í þá átt að veikja Samkeppnisstofnun og draga úr sjálfstæði hennar.

Um þetta atriði sem ég hef hér verið að nefna, 17. gr. c, þar sem verið er að taka út þetta ákvæði, möguleika Samkeppnisstofnunar til að taka á hringamyndun og samþjöppun í atvinnulífinu, er nauðsynlegt að fara yfir hvað Samkeppnisstofnun segir. Hún segir hér, með leyfi forseta:

„Í 16. gr. frumvarps til samkeppnislaga sem er sambærileg 17. gr. núgildandi laga hefur c-liður 1. mgr. 17. gr., þar sem segir að samkeppnisráð geti gripið til aðgerða gegn aðstæðum sem hafa skaðleg áhrif á samkeppni, verið felldur á brott. Þetta er í hróplegri mótsögn við meintan tilgang með endurskoðun samkeppnislaganna. Ef þetta nær fram að ganga felur það í sér ótvíræða veikingu á samkeppnislögum og takmörkun á möguleikum samkeppnisyfirvalda til þess að bregðast við alvarlegum samkeppnishömlum, sem m.a. stafa af aukinni samþjöppun í viðskiptalífinu.“

Það er bara hvorki meira né minna en þetta, það er verið að taka þetta tæki úr höndum Samkeppnisstofnunar. Skil ég ekki, virðulegi forseti, hvað vakir fyrir hæstv. viðskiptaráðherra sem í orði kveðnu hefur haldið því á lofti að við þurfum að búa hér við öflugt samkeppniseftirlit og hefur verið að reyna — þrátt fyrir að það hafi ekki oft gengið vel — að styrkja Samkeppnisstofnun, væntanlega af því að hæstv. viðskiptaráðherra hefur þá trú á Samkeppnisstofnun að hún sé mikilvæg í stjórnsýslu okkar og hefur trú á því að þar hafi verið unnir réttir hlutir. Þess vegna skil ég ekki þann viðsnúning hjá hæstv. viðskiptaráðherra að ganga hér erinda Sjálfstæðisflokksins og stóru viðskiptasamsteypnanna með því að fella út þetta ákvæði.

Hér segir áfram, með leyfi forseta:

„Samkeppnisstofnun leggur til að þetta ákvæði núgildandi 17. gr. verði styrkt enn frekar og samkeppnislög þar með gerð að öflugra tæki en þau nú eru til þess að berjast gegn óæskilegri samþjöppun, hringamyndun og skaðlegri fákeppni í íslensku viðskiptalífi.“

Síðar í umsögn sinni fjallar hún um þetta ákvæði og segir, með leyfi forseta:

„Í 17. gr. samkeppnislaga er samkeppnisráði veitt heimild til þess að grípa til aðgerða gegn ýmsum tilvikum sem raska samkeppni. Í a-lið 1. mgr. 17. gr. laganna er samkeppnisráði veitt heimild til þess að grípa til aðgerða gegn samningum og hvers konar athöfnum fyrirtækja sem brjóta í bága við bannreglur 10.–12. gr. samkeppnislaga. Í b-lið 1. mgr. 17. gr. laganna er samkeppnisráði að tilteknu skilyrði uppfylltu veitt heimild til að grípa til aðgerða gegn athöfnum opinberra aðila sem raskað geta samkeppni. Samkvæmt c-lið ákvæðisins getur samkeppnisráð gripið til aðgerða gegn „aðstæðum sem skaðleg áhrif hafa á samkeppni“.

Saman mynda liðir a–c í 1. mgr. 17. gr. samkeppnislaga heildstætt og öflugt kerfi sem gerir samkeppnisyfirvöldum kleift að grípa til aðgerða gegn margvíslegum samkeppnishömlum. Í frumvarpinu er hins vegar umræddur c-liður 1. mgr. 17. gr. laganna felldur brott. Í athugasemdum við 16. gr. frumvarpsins eru tilgreind eftirfarandi rök fyrir þessari veikingu samkeppnislaga:

„Ákvæðið er ekki í samræmi við samkeppnisreglur Evrópusambandsins og ef það yrði haft óbreytt í lögunum ásamt þeim breytingum sem lagðar eru til í 2. mgr. þessarar greinar hefði Samkeppniseftirlitið víðtækari heimildir til að krefjast skipulagsbreytinga en t.d. framkvæmdastjórn Evrópusambandsins, Eftirlitsstofnun EFTA og norsk samkeppnisyfirvöld þar sem heimildin til að krefjast skipulagsbreytinga yrði ekki takmörkuð við að fyrirtæki hefði brotið gegn ákvæðum samkeppnislaga.““

Tilvitnun lýkur í þessi rök sem sett eru fram í athugasemdum með frumvarpinu fyrir þessari breytingu.

Þessu svarar Samkeppnisstofnun og segir, með leyfi forseta:

„Í almennum athugasemdum við frumvarpið kemur fram að ef c-liður 17. gr. laganna yrði óbreyttur í lögum yrðu heimildir samkeppnisyfirvalda til skipulagsbreytinga hjá fyrirtækjum of víðtækar. Samkvæmt þessu má ráða að í aðalatriðum liggi tvö sjónarmið til grundvallar þessari breytingu á gildandi lögum.

c-liður 1. mgr. 17. gr. samkeppnislaga er ekki í samræmi við samkeppnisreglur EB.

Heimildir Samkeppniseftirlitsins yrðu of víðtækar og meiri en sambærilegra systurstofnana ef umræddur c-liður 1. mgr. 17. gr. laganna stæði óbreyttur í nýjum samkeppnislögum.

Samkeppnisstofnun telur að hvorug þessara forsendna fyrir veikingu samkeppnislaga standist. Verður nú gerð nánari grein fyrir þessu.“ — Hún fer fyrst í meint ósamræmi við EES/EB-samkeppnisrétt og segir, með leyfi forseta:

„Í fyrsta lagi er ljóst að ákvæði EES-samningsins koma ekki í veg fyrir það að íslensk samkeppnislög feli í sér styrkari reglur til að vinna gegn samkeppnishömlum heldur en þær reglur sem fram koma í samkeppnisákvæðum EES-samningsins. Þannig er það þekkt í samkeppnisrétti að samkeppnislög í t.d. Bretlandi, Frakklandi og Þýskalandi fela í sér strangari reglur heldur en þær sem fram koma í EES/EB-samkeppnisrétti. Í þessu samhengi má benda á að ákvæði 14. gr. íslensku samkeppnislaganna veita samkeppnisyfirvöldum ríkari heimildir en þekkjast í öðrum löndum til að hlutast til um skipulag opinberra fyrirtækja eða fyrirtækja sem njóta verndar jafnframt því að vera í samkeppni.

Fjallað er um lagaleg tengsl samkeppnislaga aðildarríkja EES og EES/EB-samkeppnisréttar í 3. gr. reglugerðar EB-ráðsins nr. 1/2003 um framkvæmd samkeppnisreglna sem mælt er fyrir um í 81. og 82. gr. sáttamálans. Í 2. mgr. 3. gr. reglugerðarinnar kemur fram að beiting innlendra samkeppnisreglna megi ekki leiða til þess að bannaðir verði samningar, ákvarðanir samtaka fyrirtækja og samstilltar aðgerðir sem gætu haft áhrif á viðskipti milli aðildarríkja en hamla ekki samkeppni í skilningi 81. gr. Rómarsáttmála eða uppfylla undanþáguskilyrði 3. mgr. 81. gr. sáttmálans eða falla undir reglugerð sem veitir tilteknum tegundum samninga undanþágu frá bannreglu 81. gr. Síðan segir í ákvæðinu að reglugerðin „kemur ekki í veg fyrir að aðildarríkin geti samþykkt og beitt á yfirráðsvæði sínu strangari landslögum sem banna eða beita viðurlögum við einhliða athæfi fyrirtækja“ sbr. einnig 26. gr. frumvarpsins.“

Það er því beinlínis rangt sem haldið er fram í athugasemdum með frumvarpi þessu að ákvæðið sé ekki í samræmi við samkeppnisreglur Evrópusambandsins og það komi í veg fyrir að hægt sé að halda þessu ákvæði inni. (Gripið fram í.)

Síðan segir í umsögninni, með leyfi forseta:

„Samkvæmt þessu geta gilt hér á landi strangari samkeppnislög gagnvart samningum og samstilltum aðgerðum fyrirtækja sem ekki hafa áhrif á viðskipti milli aðildarríkja EES. Einnig er beinlínis ráð fyrir því gert í EES-rétti að m.a. hér á landi geti gilt strangari reglur en í EES-réttinum sjálfum varðandi þær samkeppnishömlur sem stafað geta af markaðsráðandi fyrirtækjum. Samkvæmt þessu er það á engan hátt óeðlilegt eða í ósamræmi við EES-samninginn að hér á landi sé að finna heimild í samkeppnislögum til að grípa til aðgerða gegn öflugum fyrirtækjum, þar með talið fyrirmæli um skipulagsbreytingar, sem skapa eða viðhalda aðstæðum sem raska samkeppni, alveg án tillits til þess hvort viðkomandi fyrirtæki hafi brotið gegn banni 11. gr. samkeppnislaga við misnotkun á markaðsráðandi stöðu. EES-samningurinn felur því ekki í sér rök fyrir því að fella c-lið 1. mgr. 17. gr. samkeppnislaga á brott úr samkeppnislögum.“

Síðan segir um þessar meintu víðtæku heimildir samkeppnisyfirvalda, með leyfi forseta:

„Sú forsenda frumvarpsins að heimildir samkeppnisyfirvalda yrðu of víðtækar ef umræddur c-liður 17. gr. yrði látinn halda sér óbreyttur stenst heldur ekki. Fyrir það fyrsta verður að líta til þess að til stuðnings því sjónarmiði að valdheimildir samkeppnisyfirvalda verði að þessu leyti of víðtækar er á það bent í frumvarpinu að heimildin til að krefjast skipulagsbreytinga yrði ekki takmörkuð við að fyrirtæki hefði brotið gegn ákvæðum samkeppnislaga. Samkeppnisstofnun bendir hér á að gildandi samkeppnislög fela í sér heimild til að krefjast skipulagsbreytinga, sbr. umfjöllunina hér að framan. Ekki er því um að ræða að valdheimildir samkeppnisyfirvalda aukist þótt umræddur c-liður 17. gr. laganna mundi standa óbreyttur í nýjum samkeppnislögum.

Í öðru lagi verður almennt að horfa til þess að ekkert mælir gegn því að Íslendingar setji sér styrkari samkeppnisreglur heldur en gilda annars staðar gagnvart t.d. markaðsráðandi fyrirtækjum og EES-samningurinn felur í raun Alþingi sjálfdæmi um það, samanber framangreint. Landfræðileg einangrun landsins, fámenni og tilhneiging til myndunar fákeppnismarkaða geta falið í sér rök fyrir því að hér á landi gildi enn sterkari samkeppnislög heldur en hjá fjölmennari þjóðum.

Í þriðja lagi er það alls ekki svo að íslensk samkeppnisyfirvöld mundu hafa valdheimildir sem ekki þekkjast annars staðar ef c-liður 17. gr. stæði óbreyttur í nýjum samkeppnislögum. Í þessu samhengi verður að horfa til þess að samkeppnislög ríkja byggja almennt á tveimur meginstoðum. Annars vegar reglum sem ætlað er að koma í veg fyrir að fyrirtæki raski samkeppni með hegðun sinni á markaði og hins vegar reglum sem ætlað er að koma í veg fyrir að fyrirtæki breyti samkeppnislegri gerð markaðarins og dragi úr samkeppni með samruna eða yfirtöku. Íslensk samkeppnislög eru byggð upp með þessum hætti. Þannig koma t.d. fram í 10. og 11. gr. laganna ákvæði sem banna skaðlega hegðun fyrirtækja eins og verðsamráð, markaðsskiptingu og hvers konar misnotkun á markaðsráðandi stöðu. Í 18. gr. samkeppnislaga kemur hin meginstoðin fram en í ákvæðinu er samkeppnisráði veitt heimild til að grípa til aðgerða í því skyni að hindra að samruni breyti gerð markaða á þann hátt að dragi með alvarlegum hætti úr samkeppni. Samkeppnishömlur geta hins vegar í vissum tilvikum átt rót sína að rekja til annarra atriða en samruna eða brota fyrirtækja á bannreglum samkeppnislaga. Hugsanlegt er t.d. að fyrirtæki sé í slíkri yfirburðastöðu á markaði að tilvist þess í óbreyttu formi geti útilokað eða takmarkað að verulegu leyti samkeppni. Í slíkum tilvikum felst hið samkeppnislega vandamál ekki í brotlegri hegðun viðkomandi fyrirtækis heldur í því að einstök yfirburðastaða þess sem slík raskar samkeppni. Röskun á samkeppni af þessum toga getur hins vegar verið jafnalvarleg fyrir neytendur og sú takmörkun á samkeppni sem leiðir af broti á bannreglum samkeppnislaga. Samkvæmt núgildandi lögum væri unnt að grípa til aðgerða á grundvelli umrædds c-liðar 17. gr. gegn samkeppnishamlandi afstöðu af þessum toga. Þekkt er í samkeppnisrétti annarra þjóða að unnt sé að taka á samkeppnishömlum sem ekki eiga rót sína að rekja til brots á bannreglum eða til samruna fyrirtækja. Dæmi um þetta eru breskur og norskur samkeppnisréttur.“

Síðan fer hún yfir breskan samkeppnisrétt og þar er að finna, virðulegi forseti, miklu ítarlegri og strangari ákvæði en eru í 17. gr. núgildandi samkeppnislaga. Samkeppnisstofnun er raunverulega að kalla eftir því að fá ákvæði sem er fyllra og skýrara og feli í sér víðtækari heimildir til að grípa til aðgerða en eru í núgildandi samkeppnislögum. Hæstv. ráðherra bregst hins vegar þveröfugt við og bara nemur á brott þetta ákvæði þannig að þau í Samkeppnisstofnun standa alveg berskjölduð ef þau þurfa að grípa til aðgerða gegn samkeppnishömlum, t.d. gegn hringamyndun eða fákeppni.

Þau segja hér, þar sem þau vitna í breskan samkeppnisrétt, með leyfi forseta:

„Í breskum samkeppnisrétti er að finna mjög víðtækar heimildir til að grípa til aðgerða gegn samkeppnishömlum sem ekki stafa af samruna eða broti fyrirtækja á bannreglum breskra samkeppnislaga. Samkvæmt breskum samkeppnislögum getur breska samkeppnisstofnunin vísað málum til annars stjórnvalds á sviði samkeppnisréttar (samkeppnisnefndin (Competition Commission)) þegar samkeppnisstofnunin telur líkur á því að til staðar séu aðstæður eða einkenni á tilteknum breskum markaði sem takmarki eða raski samkeppni. Aðstæður eða einkenni á viðkomandi markaði eru í þessum skilningi skilgreind sem hvers konar þættir í gerð eða uppbyggingu viðkomandi markaðar og hvers konar hegðun m.a. fyrirtækja sem kaupa og selja vöru á viðkomandi markaði. Breska samkeppnisstofnunin hefur lýst því yfir að mál af þessum toga (market investigations) snúist ekki um rannsókn á því hvort fyrirtæki hafi brotið lög með því að hafa með sér ólögmætt samráð eða misnota markaðsráðandi stöðu. Tilgangur þessara rannsókna sé að kanna hvort samkeppni sé virk á viðkomandi markaði í heild sinni. Þegar slík samkeppnisleg vandamál séu til staðar dugi ekki bannregla breskra samkeppnislaga. Ef samkeppnisnefndin kemst að þeirri niðurstöðu að aðstæður á makaði raski samkeppni hefur hún mjög víðtækar heimildir til að grípa til aðgerða. Getur nefndin til að mynda mælt fyrir um uppskiptingu fyrirtækja ef það er talið nauðsynlegt til að tryggja samkeppni. Samkvæmt þessu er alveg ljóst að bresk samkeppnisyfirvöld geta krafist skipulagsbreytinga hjá fyrirtækjum þrátt fyrir að þau hafi ekki brotið gegn breskum samkeppnislögum.“

Síðan er farið í norsku samkeppnislögin líka og þar kemur fram að unnt sé að setja reglur gegn viðskiptaháttum, samningum eða aðgerðum sem takmarka eða eru líklegar til að takmarka samkeppni. Þar er jafnframt ekki skilyrði fyrir beitingu þess ákvæðis gagnvart fyrirtækjum að þau hafi brotið gegn bannákvæðum norsku samkeppnislaganna.

Þá kemur niðurstaða Samkeppnisstofnunar. Ég hef leyft mér, virðulegi forseti, að vitna nokkuð ítarlega í þetta álit Samkeppnisstofnunar að því er varðar þessa 17. gr. vegna þess að ég tel að þetta sé eitt af því alvarlegasta sem hæstv. ráðherra er að gera, þ.e. að fella brott þessa grein. Það er mikilvægt að í þingsal komi skýrt fram þau rök sem Samkeppnisstofnun teflir fram fyrir því að það verði ekki gert. Ég held að við munum geta staðið frammi fyrir því að sú staða gæti komið upp að menn muni kannski sjá eftir því að hafa tekið brott þessa 17. gr. c, þegar ekki verður hægt að beita henni gegn hringamyndun eða fákeppni í atvinnulífinu.

Niðurstaðan er sem sagt þessi, með leyfi forseta:

„Samkvæmt framansögðu telur Samkeppnisstofnun að forsendur frumvarpsins fyrir því að c-liður 1. mgr. 17. gr. samkeppnislaga verði felldur á brott úr samkeppnislögum séu rangar. Ef þessi tillaga frumvarpsins nær fram að ganga felur hún í sér ótvíræða veikingu á samkeppnislögum og takmörkun á möguleikum samkeppnisyfirvalda til þess að bregðast við alvarlegum samkeppnishömlum sem stafað geta af óhæfilegri samþjöppun og skaðlegri fákeppni. Þessi veiking á samkeppnislögum mundi þannig koma í veg fyrir að samkeppnisyfirvöld gætu beitt sér gegn þeim samkeppnistakmörkunum sem stafað geta af yfirburðastöðu fyrirtækja á tilteknum mörkuðum. Í því sambandi verður og að hafa í huga að yfirlýstur tilgangur nefndar viðskiptaráðherra var að taka fyrir hvernig bregðast mætti við aukinni samþjöppun í íslensku atvinnulífi. Ein helsta tillaga nefndarinnar til að vinna gegn óæskilegri samþjöppun lýtur að því að samkeppnisyfirvöld hafi skýra heimild til að mæla fyrir um skipulagsbreytingar hjá fyrirtækjum sem m.a. „skapa aðstæður“ sem skaðleg áhrif hafa á samkeppni. Því má alveg ljóst vera að sú tillaga frumvarpsins að fella á brott umrætt ákvæði samkeppnislaga er í andstöðu við tillögur nefndar viðskiptaráðherra.

Í d-lið 2. mgr. 5. gr. núgildandi samkeppnislaga kemur fram að eitt af hlutverkum samkeppnisráðs sé að fylgjast með samkeppni á einstökum mörkuðum og kanna eigna- og stjórnunartengsl milli fyrirtækja. Er sagt að þetta skuli gera í því skyni að meta hvort í íslensku viðskiptalífi sé að finna einkenni hringamyndunar, óæskilegra tengsla eða valdasamþjöppunar. Í skýrslu nefndar viðskiptaráðherra var lagt til að bætt yrði við þetta ákvæði málslið þess efnis að Samkeppniseftirlitið skuli birta skýrslur um athuganir sínar og grípa til aðgerða til að stuðla að virkri samkeppni. Er þessi tillaga nefndarinnar tekin upp í 8. gr. frumvarps til nýrra samkeppnislaga, samanber umfjöllun hér að framan. Samkeppnisstofnun vekur athygli á því að viðbúið er að samkeppnishömlur sem stafað geta af hringamyndun og samþjöppun eigi ekki rót sína að rekja til brota á bannreglu samkeppnislaga heldur til skaðlegra aðstæðna í skilningi c-liðar 17. gr. núgildandi samkeppnislaga. Með því að fella á brott það ákvæði samkeppnislaga er verið að vinna gegn markmiði þeirra breytinga sem lagðar eru til í 8. gr. frumvarpsins. Með öðrum orðum þá er lagt til í 8. gr. frumvarpsins að samkeppnislögum verði breytt þannig að samkeppnisyfirvöldum beri að fylgjast með hringamyndun og samþjöppun og grípa til aðgerða gegn þessu. Í 16. gr. frumvarpsins hefur hins vegar eitt helsta tækið til að vinna gegn þessum hömlum verið fellt á brott úr lögunum. Er hér um að ræða einkar skýra innbyrðis mótsögn í frumvarpinu.“

Svo mörg voru þau orð, virðulegi forseti, hjá Samkeppnisstofnun um þetta ákvæði, og trúi ég því varla að hæstv. viðskiptaráðherra ætli bara að láta þau faglegu rök sem hér eru sett fram gegn því að felld verði niður þessi 17. gr. sem vind um eyru þjóta, og þeim mun heldur þegar þetta kemur frá þeim sem best þekkja til hvernig standa eigi að samkeppniseftirliti hér á landi.

Það er ástæða til að nefna í þessu sambandi, þegar verið er að veikja samkeppnislögin svo með því að taka út þetta ákvæði, að Morgunblaðið hvatti til þess í ritstjórnargrein nýlega að taka frumvarp viðskiptaráðherra um starfsumhverfi atvinnulífsins til rækilegrar endurskoðunar þannig að lög yrðu sett sem endurspegluðu betur vilja almennings í landinu. Þar var verið að vitna til fjöldahreyfingar Agnesar Bragadóttur um kaup almennings á Símanum og þess getið einmitt í ritstjórnargreininni að stjórnmálamenn væru tregir til að ganga þvert á hagsmuni stóru viðskiptasamsteypnanna. Það er auðvitað full ástæða til að taka undir þessa hvatningu Morgunblaðsins. Skil ég reyndar ekki hvers vegna Morgunblaðið hefur ekki gert þessari ítarlegu umsögn Samkeppnisstofnunar betri skil þar sem verið er að veikja hana, draga úr sjálfstæði hennar og taka upp þau rök sem Samkeppnisstofnun hefur sett fram fyrir því að halda inni þessu ákvæði 17. gr. c, sem er í núgildandi lögum, sem er raunar forsendan fyrir því að hægt sé að taka á hringamyndun og samþjöppun í íslensku atvinnulífi.

Ég vil víkja að öðru ákvæði sem hæstv. viðskiptaráðherra sá ástæðu til að fella út úr tillögum nefndarinnar um íslenskt viðskiptaumhverfi eftir að Sjálfstæðisflokkurinn hafði fjallað um frumvarpið. Svo virðist sem hæstv. viðskiptaráðherra beygi sig fyrir öllu sem fram kemur hjá Sjálfstæðisflokknum og alveg sama þó að það sé til þess fallið að veikja Samkeppnisstofnun eða draga úr möguleikum hennar til að halda hér uppi virku samkeppniseftirliti. Þannig hafa stjórnarflokkarnir sammælst um að fella út mikilvægt rannsóknarúrræði sem nefnd viðskiptaráðherra lagði til á sínum tíma, sem var heimild til vettvangsrannsókna á heimilum stjórnenda fyrirtækja. Samkeppnisstofnun hefur líka mjög gagnrýnt það að fá ekki þetta rannsóknarúrræði. Húsleit hjá stjórnendum fyrirtækja er m.a. heimiluð í norskum lögum og af þeim er afar góð reynsla, virðulegi forseti, og m.a. hafa oft fundist á heimilum forstjóra samráðsgögn sem ekki voru vistuð í fyrirtæki.

Um þetta segir í umsögn Samkeppnisstofnunar, með leyfi forseta … (Gripið fram í.) Ég held að ekki veiti af, virðulegi forseti, að lesa þetta álit aftur og aftur, og aftur og aftur (LB: Sammála því.) til þess að athuga hvort það geti ekki síast inn í höfuðið á hæstv. ráðherra að hún veður í villu með því að taka ekki tillit til þess sem fram kemur hjá Samkeppnisstofnun.

Ég fer nú að taka aftur það sem ég sagði í upphafi máls míns, að hæstv. ráðherra hefði lesið þetta álit. Ég hygg að hún hafi bara ekkert lesið þetta álit og þeim mun frekar er ástæða til að fara ítarlega yfir það í þessari umræðu, virðulegi forseti.

Um húsleitina segir Samkeppnisstofnun, með leyfi forseta:

„Samkeppnisstofnun leggur til að 20. gr. frumvarps til nýrra samkeppnislaga verði breytt og samkeppnisyfirvöldum veitt heimild til vettvangsrannsókna á heimilum, landsvæðum eða flutningatækjum í eigu stjórnarmanna, framkvæmdastjóra og annarra starfsmanna hlutaðeigandi fyrirtækis.“

Síðar í umsögninni er farið ítarlegar í þessa grein, og þar segir, með leyfi forseta:

„Í 20. gr. frumvarpsins er kveðið á um heimildir Samkeppniseftirlitsins til þess að framkvæma húsleit á starfsstöðum fyrirtækja. Ákvæðið er efnislega samhljóða 40. gr. samkeppnislaga. Samkeppnisstofnun vekur hins vegar athygli á því að í tillögu nefndar viðskiptaráðherra var lagt til að samkeppnisyfirvöldum yrðu veittar ríkari heimildir til vettvangsrannsókna, þar á meðal á heimilum, landsvæðum eða flutningatækjum í eigu stjórnarmanna, framkvæmdastjóra og annarra starfsmanna hlutaðeigandi fyrirtækis. Taldi nefndin eðlilegt að samkeppnisyfirvöld fengju sams konar heimild til vettvangsrannsókna hjá fyrirsvarsmönnum íslenskra fyrirtækja og Eftirlitsstofnun EFTA mun hafa hér á landi. Í drögum að frumvarpi til nýrra samkeppnislaga sem viðskiptaráðherra kynnti opinberlega 1. október 2004 var þessi tillaga nefndarinnar tekin upp og gerð tillaga í 20. gr. frumvarpsins um sams konar heimild og Eftirlitsstofnun EFTA mun fá hér á landi. Í því frumvarpi sem nú liggur fyrir Alþingi hefur þetta nýmæli verið fellt brott.“

Virðulegi forseti. Það er ástæða til þess að hæstv. ráðherra fari aftur yfir það af hverju hún vill ekki taka þetta ákvæði upp sem var sett fram í nefnd á hennar vegum. Mig minnir að hæstv. ráðherra hafi talað um að nefnd á vegum viðskiptaráðherra og dómsmálaráðherra væri að fjalla um þessi mál. Ef það eru rökin, sem mig minnir að hafi verið, er nauðsynlegt að fá fram, sem ekki var hægt að fá upplýst í nefndinni, hvenær þessi nefnd muni skila af sér. Ég tel að það sé alveg nauðsynlegt að samkeppnisyfirvöld hafi þetta úrræði sem vel hefur gefist t.d. í Noregi.

Hér segir í umsögninni, með leyfi forseta:

„Samkeppnisstofnun leggur til að samkeppnisyfirvöldum verði veitt ríkari heimild til vettvangsrannsókna í samræmi við tillögur nefndar viðskiptaráðherra. Hér ber að hafa í huga að í 22. gr. frumvarpsins er lagt til að Eftirlitsstofnun EFTA verði veitt heimild til vettvangsrannsókna, m.a. á heimilum fyrirsvarsmanna fyrirtækja. Samkeppnisstofnun fær ekki séð að nein rök mæli gegn því að íslensk samkeppnisyfirvöld hafi sömu heimildir. Samkeppnisstofnun bendir einnig á að brot fyrirtækja gegn samkeppnislögum eru oft framin í leynd og erfitt getur verið að sanna þau. Erlendar systurstofnanir Samkeppnisstofnunar og alþjóðasamtök eins og t.d. OECD hafa á undanförnum árum fjallað talsvert um afleiðingar af samkeppnishamlandi samráði keppinauta. Niðurstaðan virðist vera sú að slíkt samráð sé algengara og skaðlegar afleiðingar þess mun meiri og alvarlegri en áður var talið. Í skýrslu OECD er hvatt til þess að aðildarríki styrki viðurlög sín við þessum brotum og beiti t.d. háum sektum til að tryggja að fyrirtæki geti ekki hagnast af slíku athæfi. OECD hefur einnig bent á að reynslan sýni að fyrirtæki ganga sífellt lengra í viðleitni sinni til að fela þessi brot. Bent er í dæmaskyni á mál þar sem stjórnendur hjá stórfyrirtæki gættu þess að geyma allar upplýsingar um samráð á tölvudiski sem falinn var uppi á háalofti heima hjá ömmu eins stjórnandans. Einnig er sagt frá máli þar sem samkeppnisyfirvöld sendu ósk um upplýsingar og í kjölfarið fluttu stjórnendur fyrirtækisins skjöl út á víðavang þar sem það tók daginn að brenna þau í fjórum stórum bálköstum, eins og það er orðað í skýrslu OECD. Þessi aukna vitneskja um afleiðingar og eðli samráðs keppinauta hefur leitt til þess að ýmis ríki hafa breytt samkeppnislögum sínum og styrkt þau. Þannig hafa t.d. Bretar og Írar hert mjög viðurlög og eflt rannsóknarúrræði í þessum málaflokki. Norsk samkeppnisyfirvöld hafa um langt árabil haft heimild til húsleita á heimilum starfsmanna fyrirtækja.

Einnig liggur fyrir að sú breyting á EES/EB-samkeppnisrétti að heimila húsleitir á heimilum fyrirsvarsmanna fyrirtækja byggir á reynslu af málum þar sem í ljós hefur komið að stjórnendur fyrirtækja hafa falið gögn sem varða ólögmætt samráð fyrirtækja á heimilum sínum. Ef ætlunin er að eftirlit með samkeppnisreglum verði nægjanlega virkt hér á landi telur Samkeppnisstofnun blasa við að veita beri þessar auknu rannsóknarheimildir.“

Hér kemur fram alveg skýrt og skorinort að víða í löndum sem við berum okkur saman við er verið að styrkja samkeppnislög, samkeppniseftirlit og þau rannsóknarúrræði sem samkeppnisyfirvöld hafa. Hér göngum við í þveröfuga átt. Hæstv. viðskiptaráðherra er í forsvari fyrir stjórnarmeirihlutann að veikja samkeppnislögin og draga úr sjálfstæði þeirra og hunsa þær óskir sem Samkeppnisstofnun er að leita eftir um að fá aukin rannsóknarúrræði.

Ég geri ráð fyrir að hæstv. viðskiptaráðherra hafi lesið skýrslu nefndar sinnar um íslenskt viðskiptaumhverfi en þar er einmitt farið inn á þá nauðsyn að Samkeppnisstofnun fái þetta úrræði. Sé ég ekki ástæðu til að lesa það frá orði til orðs en hér kemur alveg skýrt fram að hún leggur til að lögfestar verði húsleitarheimildir.

Ég vil þá, virðulegi forseti, næst fara inn á breytingu á stjórnskipulagi stofnunarinnar sem nokkuð hefur verið rætt hér. Vekur það furðu hvernig hæstv. ráðherra ætlar að standa að málum. Hv. efnahags- og viðskiptanefnd hefur lítið gert af því að breyta og raunar kemur hér inn ákvæði til bráðabirgða í meðförum nefndarinnar sem er alveg stórfurðulegt og ég mun fara nokkrum orðum um það og óska eftir skýringum hæstv. ráðherra á því ákvæði. Það er alveg ljóst að með þeim breytingum sem hér eru lagðar til á stjórnskipulagi stofnunarinnar er veruleg hætta á pólitískri íhlutun í störf Samkeppnisstofnunar. Í núgildandi lögum er kveðið á um að stjórnarmenn megi ekki hafa beinna eða verulegra hagsmuna að gæta, þ.e. formaður og varaformaður. Þetta ákvæði er tekið út í frumvarpinu og hæfisskilyrði veikt þannig að viðskiptaráðherra getur skipað þriggja manna stjórn stofnunarinnar, getur skipað í hana þá sem hafa hagsmuna að gæta í atvinnulífinu ef hann svo kýs. Auk þess er kveðið á um að allar meiri háttar ákvarðanir eigi að bera undir stjórnina og með því tel ég að sé skert verulega sjálfstæði stofnunarinnar.

Meiri hluti efnahags- og viðskiptanefndar hefur heldur dregið hér úr með því að bæta við nýjum málslið, svohljóðandi, með leyfi forseta:

„Stjórnin skal setja sér starfsreglur, þar sem m.a. skal kveðið á um hvað teljist til meiri háttar ákvarðana.“ — Að auki hefur hún bætt inn orðinu „efnislegar“.

Hér hefur heldur verið dregið úr enda var nauðsynlegt að taka á þessu. Eftir sem áður tel ég að eins og þessi lagarammi er úr garði gerður, og ætlunin er að lögfesta hann, sé veruleg hætta á pólitískri íhlutun í störf Samkeppnisstofnunar.

Ég ætla alveg að taka undir það sem þeir í stjórnarandstöðunni hafa sagt í þessum stól, þeir sem hafa talað á undan mér, að það kemur ekki á óvart að ráðamenn noti þessar breytingar á stjórnskipulagi stofnunarinnar til að setja til hliðar núverandi forustumenn í Samkeppnisstofnun. Hún hefur svo sannarlega, virðulegi forseti, þrátt fyrir þröngan fjárhag stofnunarinnar haldið uppi öflugu eftirliti með samkeppni og rótað upp í heilu atvinnugreinunum sem hafa verið í samsæri gegn hagsmunum almennings. Kannski munu þeir súpa seyðið af því með þessu frumvarpi stjórnarflokkanna sem er raunverulega frumvarp um veikingu á Samkeppnisstofnun.

Í núgildandi lögum er forstjóri valinn af ráðherra en samkvæmt frumvarpinu er hann valinn af þriggja manna ráðherraskipaðri stjórn og líklegt að í henni verði pólitískir fulltrúar. Forstjórinn starfaði áður sjálfstætt en nú þarf hann að bera ákvarðanir undir stjórnina áður en gripið er til aðgerða. En meiri hlutinn hefur aðeins dregið í land og búið er að bæta við orðinu „efnislegar“ eins og ég nefndi.

Ég held að það sé alveg nauðsynlegt að hæstv. ráðherra skýri út (Gripið fram í.) þær breytingar sem hér eru lagðar til í ákvæði til bráðabirgða. (Gripið fram í.) Ég vænti þess, virðulegi forseti, að hæstv. ráðherra hlýði hér á mál mitt þegar ég er að bera undir hæstv. ráðherra spurningar sem ég ætlast til að hæstv. ráðherra svari. Þar sem ég sé nú ekki hæstv. ráðherra vildi ég biðja forseta um að athuga hvort ráðherrann hlýði á mál mitt vegna þess að ég er að bera hér undir hana spurningu. Ég hlýt að ætlast til þess að ráðherrann hlusti þá á það sem ég hef fram að færa vegna þess að hér er um að ræða nýtt ákvæði í …

(Forseti (JBjart): Forseti hefur orðið þess var að hæstv. ráðherrann hefur setið undir ræðu þingmannsins frá upphafi, og er ekki langt undan.)

(Gripið fram í: Formaður nefndarinnar er hér.) Já, ég hef ekkert við formann nefndarinnar að tala. Ég hef við hæstv. ráðherra að tala, (Gripið fram í.) hér er um að ræða nýtt ákvæði sem ekki var inni í frumvarpinu (Gripið fram í.) þegar við ræddum það við 1. umr. Ég hef áhuga á að heyra sjónarmið hæstv. ráðherra um þetta nýja ákvæði sem við erum hér að fjalla um. (Gripið fram í.) Mér er alveg kunnugt um sjónarmið hv. þm. Péturs Blöndals og hef engan áhuga á að hlýða á sjónarmið hans í þessu máli. Ég hef áhuga á að hlusta (Gripið fram í.) á hæstv. ráðherra, hvað hún hefur að segja um þetta nýja ákvæði til bráðabirgða.

Hér kemur fram að starfsmönnum Samkeppnisstofnunar skal boðið — ég er að lesa hér upp úr breytingartillögum meiri hlutans, með leyfi forseta:

„Starfsmönnum Samkeppnisstofnunar skal boðið annað starf hjá þeim stofnunum er taka við verkefnum Samkeppnisstofnunar 1. júlí 2005, þ.e. Samkeppniseftirliti og Neytendastofu. Við ráðstöfun þeirra starfa þarf ekki að gæta 7. gr. laga nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins.

Viðskiptaráðherra er heimilt að skipa þegar stjórn Samkeppniseftirlitsins og skal stjórnin“ — og nú kem ég að því —„hafa heimild til að undirbúa gildistöku laganna, þ.m.t. að bjóða starfsmönnum Samkeppnisstofnunar annað starf hjá Samkeppniseftirlitinu, sbr. 1. mgr., eftir 1. júlí 2005.“

Ja, hérna.

Virðulegi forseti. Í frumvarpinu sem á hér að gera að lögum er það forstjórinn sem á að ráða starfsmenn. Hann er sjálfur ráðinn af stjórn stofnunarinnar en forstjórinn á að annast daglega stjórn á starfsemi og rekstri stofnunarinnar. Forstjóri ræður starfsmenn stofnunarinnar. Hér á að byrja í þessu nýja samkeppnisapparati á því að það er stjórnin sem á að ráða starfsmenn. Getur þetta gengið, virðulegi forseti? Það var ítarlega farið yfir þetta með starfsmönnum stofnunarinnar og það er alveg ljóst að þeir skilja heldur ekki þetta ákvæði sem hér er verið að setja inn. Rökin fyrir því að verið er setja þetta inn er að eyða eigi óvissu að því er varðar starfsöryggi starfsfólksins og þess vegna þurfi stjórnin að grípa til þess að skipa starfsmenn, en ekki þá forstjórinn.

Ef það á að gera þetta með þessum hætti tel ég mjög varasamt að stjórn stofnunarinnar skipi starfsfólk en ekki forstjóri. Og ef það tekur einhvern tíma að skipa forstjóra á bara að fresta gildistökunni á þessu frumvarpi til haustsins þannig að það verði forstjórinn sjálfur sem ræður starfsfólkið en ekki stjórn stofnunarinnar. Þetta finnst mér mjög alvarleg breyting sem verið er að gera og vil gjarnan fá að heyra álit hæstv. ráðherra á því.

Ég hafði ætlað mér að fara í að ræða nokkuð ítarlega það sem fram kemur og Samkeppnisstofnun er að kalla eftir, að Samkeppniseftirlit geti höfðað mál fyrir dómstólum vilji þeir ekki una úrskurði áfrýjunarnefndar. Ég mun bíða með það þar til í síðari ræðu minni eða við 3. umr. Ég tel að einnig hefði þurft að fara mjög ítarlega yfir 27. gr., um framsal eða takmörkun á sjálfstæði dómsvalds, sem á að keyra hér í gegn. Meiri hlutinn hefur ekki viljað hlusta á breytingartillögu sem Stefán Már Stefánsson hefur gert varðandi þessa grein. Ég tel mjög alvarlegt að gera þetta með þessum hætti, að lögfesta framsal á dómsvaldi. Stefán Már Stefánsson kom með ákveðna breytingartillögu sem fram kemur í umsögn hans og ég tel að efnahags- og viðskiptanefnd hefði átt að taka tillit til hennar þar sem þá væri tryggt að ekki væri verið að brjóta stjórnarskrána sem menn telja að verið sé að gera með því að fara þá leið sem 27. gr. felur í sér.

Ég hefði líka talið ástæðu til að fara ítarlega yfir fjármögnun stofnunarinnar og álit Samkeppnisstofnunar í því efni. Gerð hefur verið lausleg þarfagreining á nauðsynlegum mannafla sem stofnunin þarf að hafa yfir að ráða. Það er ekki farið að þeim tillögum hjá hæstv. ráðherra og þótt verið sé að auka nokkuð fjármagn til stofnunarinnar, um 60 milljónir, hefur komið fram hjá forráðamanni stofnunarinnar og lýst er í þeirri þarfagreiningu sem nefndin fékk að um 100 millj. kr. þyrfti til þess að stofnunin gæti annað þeim verkefnum sem henni eru ætluð.

Þetta eru kaflar í þessu frumvarpi sem ég þarf að fara ítarlega yfir í síðari ræðu minni eða við 3. umr. Ég geri ráð fyrir að fleiri þurfi að komast að hér og nú þannig að ég skal ekki hafa þessi orð fleiri. En það skal vera ljóst, virðulegi forseti, að þegar þessi ríkisstjórn verður farin frá og Samfylkingin tekin við verður það fyrsta verk okkar að breyta þessum samkeppnislögum, styrkja þau aftur og tryggja Samkeppnisstofnun þann sess sem henni ber í stjórnsýslunni vegna þess að það er ekkert mikilvægara fyrir neytendur og hagsmuni almennings en að hafa sterk samkeppnislög. Hún á að vera eins styrk og kostur er og ekki síðri en í nágrannalöndum okkar. Með þessu frumvarpi er stigið skref aftur á bak og þetta frumvarp er, og það skulu vera lokaorð mín, virðulegi forseti, um að veikja Samkeppnisstofnun og fá tilefni til þess að reka starfsfólk sem hefur staðið sig í stykkinu og gert hluti — þrátt fyrir að stofnunin hafi verið svelt — sem hafa skilað miklu til þess að bæta hér stöðu og hagsmuni neytenda.