131. löggjafarþing — 125. fundur,  7. maí 2005.

Samkeppnislög.

590. mál
[17:38]

Jóhanna Sigurðardóttir (Sf) (andsvar):

Það hefur legið fyrir og kom fram í nefndinni að samkeppnisráð hefur túlkað þetta ákvæði 17. gr. c sem verið er að fella niður. Túlkunin hefur verið með þeim hætti að stofnunin hafi nú þegar heimild til þess að skipta upp fyrirtækjum. Með því að lögfesta þetta ákvæði nú sem hv. þingmaður nefnir er bara verið að staðfesta þessa túlkun samkeppnisráðs og samkeppnisyfirvalda þannig að hér er ekki um nein viðbótarúrræði að ræða sem Samkeppnisstofnun hefur ekki í dag.

En um leið notar meiri hlutinn tækifærið til að fella út ákvæði í 17. gr. c sem er afar mikilvægt og ég fór mörgum orðum um í máli mínu og ég fór yfir rökstuðning Samkeppnisstofnunar í því máli. Þeir telja að með því að fella brott þetta ákvæði eins og núna er gert sé verið að koma í veg fyrir að stofnunin geti gripið til aðgerða gegn hringamyndun og samþjöppun.

Samkeppnisstofnun hefur verið að kalla eftir því að styrkja þetta ákvæði, fá skýrari heimildir og styrkja þetta ákvæði og hún vitnar þar t.d. til breskra laga og norskra laga þar sem þetta ákvæði er mjög skýrt enda kannski eitt af mikilvægustu ákvæðum samkeppnislaga. Það er þetta ákvæði sem verið er að fella brott. Það er það sem við gagnrýnum. En Samkeppnisstofnun, og ég ítreka það, er ekki að fá nein ný úrræði til að skipta upp fyrirtæki, ekki nein úrræði umfram þau sem hún hefur í dag. Fyrst og fremst væri Alþingi að staðfesta hér túlkun samkeppnisráðs sem hefur legið fyrir í þessu máli.