131. löggjafarþing — 125. fundur,  7. maí 2005.

Samkeppnislög.

590. mál
[17:40]

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég er ósammála þessari túlkun hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur. Ég tel að það sé verið að veita samkeppnisyfirvöldum úrræði sem þau hafa ekki í dag með skýrum hætti. Ég held að það ákvæði sem vísað er til, núverandi c-liður 17. gr. sé það almennt orðaður að hann gefi ekki heimild til þess að grípa til mjög íþyngjandi aðgerða vegna þess að það er almennt viðhorf við túlkun lagaheimilda til stjórnvalda að eftir því sem úrræðin eru meira íþyngjandi því skýrari verður lagaheimildin að vera. Það er viðurkennt sjónarmið við skýringu svona lagaákvæða.

Ég held að fyrir þá sem vilja stífar samkeppnisreglur og mikil úrræði fyrir samkeppnisyfirvöld ætti það því að vera fagnaðarefni að þessi breyting er gerð á 16. gr.

Varðandi síðan c-lið 17. gr. í núverandi mynd held ég að það sé lítil eftirsjá að honum vegna þess, eins og fram hefur komið áður við þessa umræðu, að honum hefur ekki verið beitt þannig að þó að veikingin kunni hugsanlega að vera fyrir hendi varðandi ákvæði lagatextans þá er ekki um að ræða að það sé verið að veikja úrræði sem beitt hefur verið eða hefur reynt á í framkvæmd. Því er mjög langsótt hjá hv. talsmönnum stjórnarandstöðunnar að byggja röksemdafærslu sína um það að það sé verið að veikja samkeppnislögin á því einu að verið sé að fella út þennan c-lið 17. gr.

Um þetta vil ég hins vegar segja það að mikilvægustu liðirnir í samkeppnislögunum eru auðvitað þeir liðir sem lúta að t.d. banni við samráði fyrirtækja, lúta að því að samkeppnisyfirvöld hafi tök á að bregðast við misnotkun á markaðsráðandi stöðu og að sjálfsögðu er ekki verið að hreyfa neitt við þessum mikilvægustu ákvæðum í þessu frumvarpi. Það eru þessi atriði sem hefur reynt á þegar Samkeppnisstofnun og samkeppnisyfirvöld hafa verið að grípa inn í (Forseti hringir.) á undanförnum árum og það er auðvitað ekkert verið að hreyfa við þeim.