131. löggjafarþing — 125. fundur,  7. maí 2005.

Samkeppnislög.

590. mál
[17:50]

Jóhanna Sigurðardóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er að heyra það í þessum ræðustól og sá það líka í einhverju dagblaði eða fjölmiðli að efnahags- og viðskiptanefnd og nefndir þingsins væru bundnar trúnaði um allt sem fram færi í nefndunum. Ég held að hv. þingmaður ætti að lesa þingsköpin. Það er einungis utanríkismálanefnd sem bundin er trúnaði um það sem sagt er í nefndinni. (Gripið fram í.) Fyrir utan það sem hv. þingmaður nefndi í fjölmiðlum þá var ég að bregðast við því þegar hann hljóp beint í fjölmiðla með það sem nefndin var að ákveða og átti að bera undir þingflokkana og sem hleypti illu blóði a.m.k. í þingmenn Framsóknarflokksins og varð kannski til þess að ákveðið mál lokaðist inni í hans ágætu nefnd.

Varðandi ákvæðið sem þingmaðurinn var líka gerður afturreka með í þingflokknum, um 27. gr., þá segir svo í áliti réttarfarsnefndar, með leyfi forseta, og menn hafa nú viljað skoða það sem sú nefnd segir:

„Hvorki EES-samningurinn né fylgisamningar hans gera ráð fyrir að íslenskir dómstólar séu bundnir við dóma EFTA-dómstólsins eða EB-dómstólsins.“

Þess vegna var sú tillaga sem Stefán Már Stefánsson setti fram fyrir nefndina fullkomlega eðlileg og réttmæt og hefði átt að láta reyna betur á það fyrir Eftirlitsstofnun EFTA frekar en að hætta við þetta og taka séns á því að brjóta ákvæði stjórnarskrárinnar eins og mér sýnist stjórnarflokkarnir gera með því að taka ekki tillit til þeirra réttmætu ábendinga og tillögu sem Stefán Már Stefánsson setti fram.