131. löggjafarþing — 125. fundur,  7. maí 2005.

Samkeppnislög.

590. mál
[18:23]

Jóhanna Sigurðardóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Það er alveg augljóst að hæstv. ráðherra gerir ekkert með þetta ítarlega álit Samkeppnisstofnunar, en Samkeppnisstofnun hefur sýnt faglega fram á það á hvers konar villigötum hæstv. ráðherra er og öll rök sem ráðherrann hefur sett fram fyrir breytingunum eru hreinlega skotin í kaf af Samkeppnisstofnun.

Ég ætla að grípa niður í umsögn Samkeppnisstofnunar af því að ráðherrann talar um að hér séu bornar á borð vitleysur. Hér stendur, með leyfi forseta: „Ef þessi tillaga frumvarpsins“ — þ.e. 17. gr. c — „nær fram að ganga felur hún í sér ótvíræða veikingu á samkeppnislögum og takmörkun á möguleikum samkeppnisyfirvalda til að bregðast við alvarlegum samkeppnishömlum sem stafað geta af óhæfilegri samþjöppun og skaðlegri fákeppni.“ Og ekki sé hægt að bregðast við yfirburðarstöðu fyrirtækja á tilteknum mörkuðum.

Telur hæstv. ráðherra virkilega að hér sé bara um vitleysu að ræða? Tekur ráðherrann virkilega ekkert mark á því sem fram kemur í áliti Samkeppnisstofnunar?