131. löggjafarþing — 125. fundur,  7. maí 2005.

Samkeppnislög.

590. mál
[18:29]

Frsm. 2. minni hluta efh.- og viðskn. (Ögmundur Jónasson) (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það var afskaplega fróðlegt að hlusta á málefnalegt innlegg ráðherrans í málinu. Þetta er allt saman tómt bull. Ráðherranum kemur starfsöryggi forstöðumannsins ekkert við. Ég heyrði ekki betur en hún hafi sagt það í ræðu sinni áðan að það væri ekki síður tryggt. Ég held því fram að embættismaður ráðinn til fimm ára samkvæmt lögum sem gilda um réttindi opinberra starfsmanna sé betur tryggður, starfsöryggi hans betur tryggt en hinn sem er tekinn út úr þessu kjaraumhverfi.

Varðandi ráðningu nýs fólks er það iðulega gert og er margoft gert að núverandi starfsfólki eru tryggð störf og sambærileg störf. Það væri einnig hægt að gera það í þessu máli ef pólitískur vilji væri til þess.

Að sjálfsögðu er það alltaf val á hvern er hlustað, það getur verið fólgin í því pólitík á hvern er hlustað. Að sjálfsögðu á að hlusta á þá sem gerst þekkja til málanna og það er starfsfólkið sem sinnir þessum málum, (Forseti hringir.) en ráðherrann kýs hins vegar að hlusta fyrst og fremst á Samtök atvinnurekenda og Verslunarráð.