131. löggjafarþing — 126. fundur,  9. maí 2005.

Svar utanríkisráðherra við fyrirspurn um innleiðingu EES-gerða.

[10:30]

Sigurður Kári Kristjánsson (S):

Herra forseti. Ég kveð mér hljóðs um störf þingsins í tilefni af því að mér hefur borist í hendur svar hæstv. utanríkisráðherra um innleiðingu EES-gerða í íslenskan rétt, en svarið felur í sér mikil tíðindi að mínu mati í Evrópuumræðunni. Í fyrirspurninni óskaði ég upplýsinga um það hversu margar gerðir hefðu stafað frá Evrópusambandinu á tímabilinu 1994–2004, hversu margar þessara gerða við hefðum innleitt á Íslandi á grundvelli EES-samningsins og í þriðja lagi hversu margar þessara gerða hefðu krafist lagabreytinga við innleiðingu á Íslandi.

Það er kunnara en frá þurfi að segja, herra forseti, að fylgismenn þess að Ísland sæki um aðild að Evrópusambandinu, bæði innan þings og utan, hafa á síðustu árum haldið því statt og stöðugt fram að við Íslendingar innleiðum meiri hluta af öllum þeim reglugerðum sem Evrópusambandinu stafa inn í okkar rétt. Hafa menn jafnvel gengið svo langt að segja að allt að 80% þess reglugerðafargans sem þar er samþykkt rati inn í lagasafn Íslands. Hafa menn haft það á orði að með aðild okkar að EES-samningnum séum við komin með annan fótinn inn í Evrópusambandið.

Svar hæstv. utanríkisráðherra leiðir allt annan veruleika í ljós. Í svarinu kemur fram að á árunum 1994–2004 samþykkti Evrópusambandið alls 38.936 gerðir, þ.e. reglugerðir, tilskipanir og ákvarðanir. Það vekur athygli að á sama tíma hafa einungis 2.527 gerðir verið teknar upp í EES-samninginn eða um 6,5% af heildarfjölda gerðanna á tímabilinu. Það sem vekur enn meiri athygli er að í einungis 101 skipti hefur innleiðing þessara gerða kallað á lagabreytingar hér á landi sem er langt innan við 0,1% af öllum reglugerðum Evrópusambandsins.

Herra forseti. Þetta eru mikil tíðindi og um leið og ég þakka hæstv. utanríkisráðherra fyrir svarið held ég að það sýni (Forseti hringir.) svo ekki verður um villst að röksemdir þeirra sem telja að Ísland eigi að ganga í Evrópusambandið eru jafnvel vitlausari en hugmyndin sjálf.