131. löggjafarþing — 126. fundur,  9. maí 2005.

Svar utanríkisráðherra við fyrirspurn um innleiðingu EES-gerða.

[10:33]

utanríkisráðherra (Davíð Oddsson) (S):

Herra forseti. Ég get tekið undir með hv. þingmanni að þetta eru mjög merkilegar upplýsingar og satt best að segja verð ég að viðurkenna að þær komu mér dálítið á óvart líka vegna þess að ég hafði séð einhverjar tölur, sem mér fundust býsna lágar, frá Norðmönnum um að það væru um 18% af tilskipanafjöldanum sem hefðu verið tekin upp í norsk lög. Ég hafði séð þetta einhvers staðar og fannst það tiltölulega lágt einmitt miðað við þær umræður að við tækjum þetta allt hvort sem er upp 70–80%. En staðreyndin er sú að Norðmenn hafa bersýnilega eitthvað yfirtalið þetta þannig að það eru um 6–7% sem við höfum tekið upp af þessum gerðum. Það er rétt að menn skoði samt svarið til þess að menn hafi það allt í hendi því það eru líka skýringar á því af hverju þetta er svona lægra hjá okkur.

Þetta eru mjög merkilegar tölur og einnig það sem hv. þingmaður nefndi um lagasetningarþörfina, að það er aðeins í 101 tilviki á 11 árum sem við höfum orðið að setja slíka hluti í lög. Við sáum það í umræðunum um bresku kosningarnar að undanförnu að þar er verið að tala um að 45% af lögum sem breska þingið setur komi boðsend frá Brussel en þannig er það ekki hjá okkur. Það er auðvitað þannig með þau 6,5% sem við höfum tekið inn í okkar regluverk að við höfum heilmikið um meðferðina á þeim reglum að segja á öllum stigum málsins nema á lokastiginu, sem er hreint formsatriði oftast nær þegar þangað er komið. Fullyrðingar um að við tökum þetta upp allt saman hvort sem er, án þess að hafa áhrif á gerðirnar, eru því algjörlega úr lausu lofti gripnar. Það eru stórkostlega merkilegar upplýsingar sem hér hafa fengist fram við þessa athugun og ég þakka hv. alþingismanni Sigurði Kára Kristjánssyni fyrir að stofna til þess að þær upplýsingar komi á borð manna.