131. löggjafarþing — 126. fundur,  9. maí 2005.

Svar utanríkisráðherra við fyrirspurn um innleiðingu EES-gerða.

[10:44]

dómsmálaráðherra (Björn Bjarnason) (S):

Herra forseti. Ég fagna því að þessar upplýsingar eru komnar fram. Þær staðfesta það sem við höfum einnig orðið áskynja í störfum Evrópunefndar sem starfað hefur frá því á síðasta sumri og farið yfir þessi mál. Við höfum líka séð þar að þær tölur sem menn hafa verið að tala um, að allt að 80% af því sem Evrópusambandið ákveði sé innleitt hér, eru algjörlega rangar og þess vegna er mjög mikilvægt að fá þessar tölur inn í umræðuna þannig að menn átti sig á hvernig að þessum málum er staðið.

Nefndin hefur farið yfir þetta og líka hvaða möguleika við Íslendingar höfum til þess að hafa áhrif á þessar gerðir og koma sjónarmiðum okkar að. Ég held að ég geti sagt, án þess að nefndin hafi komist að eiginlegri niðurstöðu, að það er ljóst að við nýtum ekki öll þau tækifæri sem við höfum í því efni til þess að hafa áhrif á þær gerðir sem snerta fjórfrelsið og samninginn um Evrópska efnahagssvæðið. Ég vek athygli á að sá samningur tók gildi fyrir tíu árum og búið er að hrinda honum í framkvæmd og á þeim tíma höfum við verið að innleiða þessar gerðir og hlutfallslega mun það minnka sem við þurfum að tala tillit til í störfum Evrópusambandsins miðað við framvindu mála sem þar eru á döfinni.

Ég vil einnig mótmæla því sem fram kom í máli hv. þm. Björgvins G. Sigurðssonar að EES-samningurinn líði undir lok þó að Noregur gangi í Evrópusambandið. Þegar EES-samningurinn var gerður á sínum tíma ætluðu Norðmenn að ganga í Evrópusambandið en höfnuðu því síðan í þjóðaratkvæðagreiðslu. Það var enginn bilbugur á neinum sem stóð að gerð samningsins að hann mundi halda gildi sínu þótt Norðmenn hefðu þá samþykkt að ganga í Evrópusambandið.