131. löggjafarþing — 126. fundur,  9. maí 2005.

Samkeppnislög.

590. mál
[11:21]

viðskiptaráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þingmaður þekkir til þessara mála, hann sat í efnahags- og viðskiptanefnd þegar upphaflegu lögin voru sett, 1993, ég geri ekki lítið úr því. Ég tók ekki eftir að hann bæri það á borð hér að stjórnvöld stæðu í hefndaraðgerðum gagnvart Samkeppnisstofnun út af olíumálunum eins og flokksbróðir hans, hv. þm. Ögmundur Jónasson, gerði á laugardaginn, og ég vil þakka honum fyrir það. Mér heyrist því að hv. þingmenn séu að reyna að bakka út úr þeim málflutningi og það er í sjálfu sér virðingarvert. Ég tók eftir því að þannig var líka með hv. þm. Lúðvík Bergvinsson í morgun. Ég fer ekkert frekar út í það.

Það sem ég ætlaði að segja var að hv. þingmaður talar um að hann sjái eftir samkeppnisráði, m.a. vegna þess að þar þurfti ekki að bera hlutina undir neina stjórn. Það vill svo til að samkeppnisráð er skipað af ráðherra, eins og verður með þá stjórn sem kveðið er á um í frumvarpinu, þannig að það er eðlilegt að svo sé ekki. Munurinn er hins vegar sá að samkeppnisráð í dag er ákvörðunartökuaðili á neðra stjórnsýslustigi, þetta pólitíska ráð er ákvörðunartökuaðilinn. Það verður hins vegar ekki í nýja fyrirkomulaginu, heldur er það eftirlitsstofnunin, Samkeppniseftirlitið, sem verður ákvörðunartökuaðilinn. Hins vegar ber það meiri háttar efnislegar ákvarðanir undir stjórnina.

Varðandi c-liðinn sem hv. þingmaður sér mikið eftir í 17. gr. Sannleikurinn er sá að hann er ekki í samræmi við samkeppnisreglur Evrópusambandsins. Þessi liður hefur aldrei verið notaður af samkeppnisyfirvöldum eða dómstólum. Í lögskýringargögnum stendur ekkert um hvað fellur undir þennan lið og hvernig hann skuli notaður. Þetta er ástæðan, það kemur hins vegar annað ákvæði inn í staðinn sem er vel útfært.