131. löggjafarþing — 126. fundur,  9. maí 2005.

Samkeppnislög.

590. mál
[11:23]

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég er að sjálfsögðu ekki að draga neitt í land sem hv. þingmenn Ögmundur Jónasson eða Lúðvík Bergvinsson hafa sagt um þetta mál. Það er ekki mitt hlutverk. Í öðru lagi standa þeir fyrir sínu og þurfa enga hjálp frá mér í þeim efnum. Ég minni á að í ræðu minni gagnrýndi ég einmitt hvernig samskiptum ráðuneytisins í undirbúningi þessa máls við Samkeppnisstofnun og samkeppnisráð hefði verið háttað. Það er auðvitað alveg furðulegt að hæstv. ráðherra skuli bera hér á borð frumvarp sem er í beinni andstöðu við helstu fagstofnun og sérfræðistofnun á þessu sviði í landinu. Það eitt og sér er aldeilis tilefni til grunsemda. Því miður er það auðvitað þannig að það er eiginlega vandfundin útskýring eða rök fyrir því að fara þessa leið önnur en þau sem hv. þingmenn Lúðvík Bergvinsson og Ögmundur Jónasson hafa nefnt, að þetta sé hefndarleiðangur gegn Samkeppnisstofnun, sem af einhverjum ástæðum hafi fallið í ónáð hjá hæstv. ríkisstjórn og væri þá ekki fyrsta opinbera stofnunin sem er látin sæta hörðu. Þær hafa týnt tölunni, verið lagðar niður eða fluttar út á land ef þær hafa verið með múður, eins og kunnugt er. Það þarf ekki að rekja alla þá sögu hér.

Það má líka spyrja: Hvert er vandamálið? Hvað kallar á þessar breytingar? Hvert er vandamálið í þessum efnum í dag? Er það stjórnskipulag þessara mála? Eru það störf Samkeppnisstofnunar og samkeppnisráðs? Nei, vandamálið er að ekki hefur verið nógu vel búið að þessu starfi. Það hefur búið við fjársvelti. Það er ofhlaðið af verkefnum, það hefur ekki undan. Það er vandamálið. Það væri nær að taka á því.

Varðandi c-liðinn að lokum, þá eru að vísu til lögskýringargögn hvað hann varðar. Ég get vitnað þar í ræðu sem ég hélt þegar verið var að afgreiða samkeppnislögin og sú ræða hefur verið notuð sem lögskýringargagn varðandi þennan c-lið í lærðum ritgerðum lögfræðinga, bara til að upplýsa hæstv. ráðherra um það. Ég held því enn fram að þessi ákvæði eða sambærilegar mögulegar heimildir samkeppnisyfirvalda til að grípa til aðgerða gagnvart ríkjandi ástandi séu nauðsynlegar.