131. löggjafarþing — 126. fundur,  9. maí 2005.

Olíugjald og kílómetragjald.

807. mál
[14:05]

fjármálaráðherra (Geir H. Haarde) (S):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi um olíugjald og kílómetragjald sem gengur út á það að koma til móts við þær breytingar sem orðið hafa á heimsmarkaðsverði á olíuvörum á undanförnum mánuðum og gera það að verkum að horfur eru á að dísilolía verði dýrari en bensín frá og með gildistöku laga um olíugjald og kílómetragjald 1. júlí nk. Af þessum sökum hefur verið talið óhjákvæmilegt að gera tillögu um að lækka olíugjaldið sem ákveðið er í lögum 45 kr. hver lítri. Er í frumvarpi þessu lagt til að olíugjaldið verði 41 kr. en það þýðir að útsöluverð dísilolíulítrans gæti orðið u.þ.b. 5 kr. lægra en ella hefði orðið að teknu tilliti til virðisaukaskatts.

Ekki þarf að hafa mörg orð um þetta frumvarp, virðulegi forseti. Við þekkjum öll að frá og með 1. júlí nk. tekur gildi nýtt gjaldtökukerfi á dísilbíla sem leysir af hólmi hið meingallaða þungaskattskerfi sem margir kannast við af eigin raun. Þetta kerfi, hið nýja olíugjaldskerfi, hefur marga kosti umfram þungaskattskerfið, ekki síst þann að með því er hvatt til aukinnar notkunar á dísilolíu og bílvélum sem nota dísilolíu til brennslu sem bæði eru almennt talað núorðið sparneytnari en bensínvélar og eru þar að auki minna mengandi fyrir umhverfið.

Af þessum sökum er það mikilvægt að mínum dómi, herra forseti, að olíugjaldskerfið byrji réttum megin við strikið ef svo mætti segja, með þeim hætti að olíulítrinn verði heldur ódýrari en bensínlítrinn eins og gert var ráð fyrir í upphafi og af þeim sökum er þetta frumvarp flutt. Við gerum það hins vegar með bráðabirgðaákvæði þannig að gert er ráð fyrir að þessi lækkun úr 45 kr. í 41 kr. gildi í sex mánuði, þ.e. til næstu áramóta, en í millitíðinni gefst vafalaust tóm til þess að stilla þau gjöld sem lögð eru á eldsneyti betur af innbyrðis þannig að það sé meira samræmi eða fullnægjandi samræmi í dísilgjaldinu, þ.e. olíugjaldinu sem svo heitir, í bensíngjaldi og svo einnig í kílómetragjaldi því sem lagt verður á þyngstu ökutækin, þ.e. þau sem eru þyngri en 10 tonn. Þessa vinnu þarf að fara í þegar nokkur reynsla er komin af olíugjaldskerfinu nýja, þ.e. á haustmánuðum.

Við gerum ráð fyrir að vegna þessara breytinga megi búast við að tekjutap ríkissjóðs geti orðið um 160 milljónir. Ég tel réttlætanlegt að taka á sig það tekjutap í ljósi þeirra aðstæðna sem uppi eru og eru ófyrirsjáanlegar og óviðráðanlegar af okkar hálfu vegna utanaðkomandi aðstæðna.

Ég þakka liðsinni allra þeirra sem hafa greitt fyrir því að þetta mál komi hér fyrir með afbrigðum og treysti því að málið hljóti greiða og örugga leið í gegnum þingið.

Að svo mæltu leyfi ég mér að leggja til, virðulegi forseti, að að lokinni þessari umræðu verði málinu vísað til 2. umr. og hv. efnahags- og viðskiptanefndar þingsins.