131. löggjafarþing — 126. fundur,  9. maí 2005.

Olíugjald og kílómetragjald.

807. mál
[14:15]

fjármálaráðherra (Geir H. Haarde) (S) (andsvar):

Herra forseti. Þingmaðurinn virðist haldinn þeim misskilningi að virðisaukaskattur sé í einhverjum skilningi markaður tekjustofn til vegamála eða einhverra annarra þátta. Það er auðvitað ekki þannig. Við hljótum að vita það öll hér að virðisaukaskatturinn er almennur tekjustofn fyrir ríkið, almennur skattur sem lagður er á mjög breiðan gjaldstofn og rennur til hinna almennu þarfa ríkissjóðs. Þær eru nú ýmsar eins og við vitum og gerðar ríkar kröfur til útgjalda á öllum sviðum ríkisþjónustunnar.

Það sem auðvitað gerist í þessu eins og annars staðar er að til ákvörðunar kemur eitthvert útsöluverð án virðisaukaskatts og síðan er lagður á það virðisaukaskattur í þessu tilfelli eins og í öllum öðrum tilfellum. Það er bara nákvæmlega þannig og þetta er nákvæmlega eins gert og í bensíninu þar sem reiknað er út bensíngjald og aðrir kostnaðarþættir, innkaupsverð, álagning, flutningskostnaður o.s.frv., og síðan er lagður virðisaukaskattur ofan á það í lokin. Þetta er bara nákvæmlega eins. Ég veit því ekki alveg hvað þingmaðurinn — mér finnst hann vera á hálfgerðum villigötum með þessari spurningu sinni.

Það sem hann er hins vegar líka að halda fram, því að það eru tvö efnisatriði í þessu máli sem hann hefur bent á, er að lækkunin sem ég legg til og mæli fyrir, virðulegi forseti, sé ekki nægileg til þess að koma markmiðum málsins fram, þ.e. koma dísilolíulítranum í verði niður fyrir bensínlítrann. Ég andmæli því. Ég tel að miðað við núverandi forsendur séu allar líkur á því að það takist. En auðvitað vitum við ekki fyrir víst hvernig verðið sveiflast á næstu vikum fram til 1. júlí, það er alveg rétt, við vitum ekkert um það, hvorki ég né hv. þingmaður, það eru aðrir þættir sem þar hafa áhrif. En ég verð þó að segja að það eru frekar líkur á því að gasolíuverð lækki að tiltölu miðað við bensínið heldur en öfugt, vegna þess að nú fer í hönd sá tími á heimsmarkaði þar sem dregur úr eftirspurn eftir gasolíu, m.a. til húshitunar og annarra slíkra þátta. Þar fyrir utan vitum við að bensínið er meira unnin afurð, hún er unnin úr dísilolíu eða gasolíu þannig að það er mjög óeðlilegt að hún sé ódýrari en gasolían. En það er önnur saga, virðulegi forseti, sem ekki þarf að fara út í hér.