131. löggjafarþing — 128. fundur,  9. maí 2005.

Neytendastofa og talsmaður neytenda.

592. mál
[16:38]

Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Það vekur athygli að meðal tillagna meiri hluta nefndarinnar er það að talsmaður neytenda, svonefndur, hafi rétt til að gera þjónustusamning við Neytendastofu um undirbúning mála fyrir embættið. Hvernig sér meiri hlutinn fyrir sér að þessu verði háttað og hvernig ætli meiri hlutinn sjái fyrir sér að fjárveitingum verði háttað í þessu skyni? Gerir meiri hlutinn ráð fyrir því í fyrsta lagi að það verði sérstök fjárveiting til Neytendastofu, í öðru lagi sérstök fjárveiting til talsmanns neytenda og í þriðja lagi sérstök fjárveiting til þess þjónustusamnings sem honum er heimilt að gera við Neytendastofu?

Þetta er eitt af athugaefnunum í sambandi við þetta skrýtna mál þar sem Löggildingarstofa hefur fengið neytendamálin á sína könnu og búinn hefur verið til sérstakur embættismaður þar til að sinna málefnum neytenda. Þetta þarf að vera alveg skýrt. Ég tek eftir því að þetta er ekkert skýrt og ekkert um þetta talað í þessu nefndaráliti og hv. þm. Pétur Blöndal, sem er framsögumaður nefndarálitsins, minntist ekki einu orði á þetta í ræðu sinni nema að lesa upp úr nefndarálitinu þessa tillögu.