131. löggjafarþing — 128. fundur,  9. maí 2005.

Neytendastofa og talsmaður neytenda.

592. mál
[16:43]

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Pétur H. Blöndal) (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég skildi nú ekki þessi síðustu lýsingarorð hv. þingmanns. Þetta á ekki að vera svo mikið hjartans mál að menn þurfi að nota svona orðbragð.

Málið er að talsmaður neytenda hefur ákveðna kröfu á Neytendastofu. Samkvæmt því frumvarpi sem hér er lagt til að verði að lögum á hann lagalega kröfu á að fá þjónustu frá Neytendastofu og menn gagnrýndu það að þetta væri opið. Til þess að taka mið af umræðunni og til að taka mið af þeirri gagnrýni sem kom fram í 1. umr. um málið og hjá gestum var brugðist þannig við að hann skyldi gera þjónustusamning. Það er ósköp eðlilegt. Talsmaður neytenda á lagalega kröfu til að fá þjónustu. Mér finnst mjög augljóst að það skýri málið hvaða kröfu hann eigi að gerður sé þjónustusamningur við hann og síðan fari Neytendastofa á fund fjárveitingavaldsins og fái fjárveitingu fyrir eigin rekstri og auk þess þeirri þjónustu sem hann veitir talsmanni neytenda. Ég skil því ekki þau lýsingarorð sem hv. þingmaður hellti út úr sér hér yfir mína persónu og fleiri. Ég vil frekar fá málefnalega umræðu heldur en svoleiðis.