131. löggjafarþing — 128. fundur,  9. maí 2005.

Neytendastofa og talsmaður neytenda.

592. mál
[17:12]

Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf):

Hæstv. forseti. Hér er til umræðu frumvarp til laga um Neytendastofu og talsmann neytenda, það síðasta í frumvarpaþrennu hæstv. viðskiptaráðherra er lýtur að samkeppnismálum og neytendamálum.

Eins og fram hefur komið í ítarlegri og vandaðri yfirferð þingmanna Samfylkingarinnar um þessi mál á þingi teljum við ýmsu ekki bara vera ábótavant heldur vera sett þannig fram í frumvörpunum sem engan veginn er hægt að samþykkja og því miður verður að segjast að með þetta frumvarp gegnir sama máli þó að í fljótu bragði hefði mátt búast við að hér væri í raun hægt að landa mjög góðu máli, frú forseti.

Hv. þm. Pétur H. Blöndal tók fram í ræðu sinni að mál og vog hefðu kannski ekki sama gildi og einu sinni á tíma dönsku einokunarverslunarinnar þó að vissulega hefðu þau enn gildi. (Gripið fram í.) Mál og vog hafa enn þá gildi, frú forseti, eins og kom fram í máli hv. þm. Péturs H. Blöndals en það er svo miklu fleira sem varðar hagsmuni og réttindi neytenda nú á okkar tímum sem ber að gæta að og sem stjórnvöldum ber að gæta sérstaklega að og ber sérstaklega að vernda. Alkunna er að með aðild okkar að hinu Evrópska efnahagssvæði síðustu tíu ár hefur orðið grundvallarbreyting bæði á löggjöfinni og reglum og lagaumgjörðinni allri má segja um neytendamál hér á landi, neytendavernd og réttindavernd þannig að flest það hygg ég sem fram hefur verið sett og fært í lög af ríkisstjórn á hverjum tíma á síðasta áratug í þessum málaflokki hefur verið bein eða óbein afleiðing þeirra forsagna sem hingað hafa komið í gegnum samninginn um Evrópska efnahagssvæðið. Við skulum hafa það í huga, herra forseti.

Ýmislegt er við þetta mál að athuga sem ég vildi gjarnan fá tækifæri til að ræða og vil byrja á því frumvarpi er hér um ræðir, þ.e. athugasemdum við það. Þar stendur, með leyfi forseta, þegar verið er að skýra út muninn á heitunum umboðsmaður og talsmaður:

„Felst munurinn aðallega í því að talsmanni neytenda er hvorki ætlað að vinna að stefnumótun á sviði neytendamála eins og títt er með umboðsmenn né er lagt til að talsmaður neytenda vinni að því að gerðar verði rannsóknir á sviði neytendamála. Lagt er til að þessi verkefni verði falin Neytendastofu.“

Sjálf geri ég ekki ágreining um heitið „talsmaður neytenda“, enda hef ég sjálf lagt fram tillögu til þingsályktunar sem ber það heiti. Ég mun ég víkja að henni síðar í máli mínu. Hins vegar veldur það vonbrigðum að embættið sem slíkt eigi ekki að vinna að stefnumótun á sviði neytendamála og fái ekki það svigrúm sem embættið gæti haft til þess.

Í annan stað verður ekki séð, hæstv. forseti, að um sé að ræða svo mikla eflingu sem haldið hefur verið fram hvað varðar neytendamál. Sú efling sést a.m.k. ekki í fjárframlögum sem áætluð eru vegna þessara breytinga. Það á að flytja starfsmenn frá Samkeppnisstofnun í núverandi mynd yfir á hina nýju Neytendastofu og bræða saman eða gera úr nýja löggildingarstofu. En það verður ekki séð að talsmanninum sem slíkum fylgi neinar teljandi upphæðir eða svigrúm til athafna og aðgerða, sem ég held að sé forsenda þess að embætti talsmanns neytenda geti gert það gagn sem það á að gera og þarf að gera.

Þá komum við að aðalatriði þessa máls, því atriði sem við í Samfylkingunni gerum mestan ágreining um. Samkvæmt frumvarpi hæstv. ráðherra er ekki um sjálfstætt embætti að ræða, með sjálfstæðan fjárhag og sjálfstæð mannaforráð, en það hlýtur að vera forsenda þess að talsmaður neytenda geti staðið undir nafni í stjórnkerfinu, að hann hafi sjálfstæðan fjárhag, sjálfstæð mannaforráð og sé óháður öðrum í stjórnkerfinu um störf sín, gerðir og ákvarðanir. Á þetta er að sjálfsögðu bent í nefndaráliti 1. minni hluta efnahags- og viðskiptanefndar og þetta er meginmálið í þeim breytingum sem á að gera. Eins og svo oft áður á þessum vinnustað spyr maður sig, eftir að mál hefur farið í nefndarumfjöllun, fengið umsagnir hagsmunaaðila, fengið góðar athugasemdir og vonandi vandaða umfjöllun, hvort ekki skuli tekið tillit til þeirra. Mér þykir það ekki bara sjálfsagt heldur skynsamleg ráðstöfun, fyrst á annað borð á að setja á fót þetta embætti, að gera það með því að tryggja því grundvöllinn sem það þarf að hafa til að starfa að réttindamálum hins almenna neytenda. En það er ekki gert.

Það er heldur ekki niðurstaða meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar að fara að þeim ábendingum sem komið hafa fram við 1. og 2. umr. málsins á hinu háa Alþingi og frá umsagnaraðilum. Það er mjög miður, herra forseti, vegna þess að það hlýtur að vera metnaður okkar sem hér störfum að vanda löggjöfina eins og hægt er og taka mið af skynsamlegum og uppbyggilegum ábendingum. Það veldur mér vonbrigðum að það hafi ekki verið gert í þessu efni og af þeim sökum get ég ekki, frekar en félagar mínir í Samfylkingunni, stutt þetta mál.

Hv. þm. Mörður Árnason spurðist fyrir um þjónustusamninginn sem gera á innan Neytendastofu, þar sem talsmanni neytenda er heimilt að gera þjónustusamning við Neytendastofu um undirbúning mála fyrir embættið. Mér er til efs að í nokkurri annarri ríkisstofnun á Íslandi geri menn þjónustusamninga innan húss. Ég verð að segja að ég skil eiginlega ekki hvernig það á að fara fram. Hvað gerist, herra forseti, ef svo fer, sem stundum gerist við fjárlagagerð, að skorið verði niður til stofnunar, verði flatur niðurskurður eða eitthvað slíkt? Segjum að það eigi að minnka fé til þessara mála, sem við vonum auðvitað að ekki verði … (Gripið fram í.) Það sem ég reyni að sjá fyrir mér er hvernig þeir samningar gerist innan þessarar stofnunar. Hver er þá staða talsmanns neytenda innan stofnunarinnar? (PHB: Fyrirvari um fjárveitingu.) Fyrirvari um fjárveitingu, kallar hv. þm. Pétur H. Blöndal fram í. Að sjálfsögðu starfa allir með þann fyrirvara í huga, það er alveg rétt. En hins vegar afhjúpar þetta ákvæði og breytingartillögur meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar við þetta mál algert ósjálfstæði embættismannsins sem á að heita talsmaður neytenda. Hann mun búa við fjárhagslegt ósjálfstæði og þar af leiðandi faglegt ósjálfstæði. Því spyr maður: Til hvers er farið af stað með þetta? Er þetta svona sýndarembætti, svo hægt sé að segja að hér á landi sé til embætti talsmanns neytenda þótt hann hafi reyndar ekki sjálfstæðan fjárhag og þurfi að semja um það sérstaklega við yfirmann Neytendastofu auk þess að fá aðgang að starfsmönnum Neytendastofu, væntanlega þegar það hentar forstjóra hennar að veita aðgang að þeim. Hvernig á þetta, bara á hinu praktíska sviði, að virka fyrir einn embættismann? (Viðskrh.: Talsmaður er sjálfstæður.) Talsmaður er sjálfstæður, kallar hæstv. viðskiptaráðherra Valgerður Sverrisdóttir fram í. (Gripið fram í.) Talsmaður er sjálfstæður. Þetta er eins og að hlekkja mann við vegg og segja: Hann er nú samt frjáls ferða sinna. Þetta eru álíka yfirlýsingar, herra forseti.

Sjálfstæði embættismannsins, eins og sjálfstæði einstaklingsins ef út í það er farið, byggist á fjárhagslegu sjálfstæði svo embættismaðurinn geti sinnt skyldum sínum, lögum og ákvörðunum samkvæmt. Ef það gerist að í heildarfjárveitingum til Neytendastofu þá fari talsmaðurinn illa út úr samningum þar innan húss, hvað þá? Hver er þá ábyrgð stjórnvalda? Hæstv. ráðherra getur auðvitað sagt að hér á landi starfi talsmaður neytenda en það sé því miður alltaf lokað eftir hádegi af því að hann hafi náð svo slæmum samningum við forstjóra Neytendastofu, (Gripið fram í.) þá sé svarað í símann milli 10 og 12. Herra forseti, þetta er náttúrlega ekki fyndið þótt mann langi helst að hlæja að þessu. En ég sé ekki hvernig hæstv. ráðherra og meiri hlutinn ætlar að rökstyðja að talsmaður neytenda sé sjálfstæður í gerðum sínum og ákvörðunum miðað við þessa framsetningu mála, þ.e. með því að gera hann að kontórista á Neytendastofu. Þá hefði ég talið betra, hæstv. forseti, að taka þetta mál til baka og reyna að leggjast yfir það, með þeim sem gerst til þekkja, hvernig sé best að koma þessum málum fyrir, hvernig sé best að tryggja réttindi neytenda og ekki síður að lyfta þessum málaflokki, lyfta málaflokknum eins og gert hefur verið í nágrannalöndum. Þar hefur neytendavernd orðið æ stærra svið, ekki bara innan stjórnsýslunnar heldur líka meðal frjálsra félagasamtaka og meðal almennings.

Í umsögn Neytendasamtakanna um frumvarpið sem hér um ræðir segir, með leyfi forseta:

„Neytendasamtökin leggja áherslu á að verkefni Löggildingarstofu verði ekki færð til Neytendastofu þar sem þau samrýmist illa verkefnum sem eðlilegt er að slík stofnun sinni.

Neytendasamtökin benda á að eðlilegt sé að stefnumótun neytendamála sé hjá viðskiptaráðuneytinu og Alþingi …

Neytendasamtökin leggja til að meginhlutverk umboðsmanns“ — eins og þau vilja kalla talsmann neytenda — „verði að hafa eftirlit með lögum um óréttmæta viðskiptahætti eins og tíðkast annars staðar á Norðurlöndum.

Aðrar athugasemdir samtakanna lúta aðallega að því að veita umboðsmanni, talsmanni, frekari heimildir til samræmis við það sem þekkist á öðrum Norðurlöndum og efla sjálfstæði hans.“

Eins og kunnugt er er innan Neytendasamtakanna til staðar lykilþekking, reynsla af málefnum íslenskra neytenda. Samtökin hafa sinnt verkefnum, m.a. fyrir stjórnvöld, og sinnt þeim vel. Það má koma fram við þessa umræðu að sum þeirra verkefna hafa verið niðurgreidd af félagsgjöldum félaga í Neytendasamtökunum. Það má einnig koma fram við þessa umræðu að það gerist ekki annars staðar í löndunum í kringum okkur að neytendasamtök séu að stærstum hluta til fjármögnuð með félagsgjöldum en aðeins að brot, líklega eitthvað um 15% af rekstrarfénu, komi frá ríkinu.

Á Norðurlöndunum er þessu þveröfugt farið. Þar álíta stjórnvöld og ríkisvaldið það skyldu sína við neytendur að styðja með öflugum hætti við bakið á frjálsum félagasamtökum og einnig að starfrækja embætti, hvort sem það heitir talsmaður eða umboðsmaður neytenda, sjálfstæðs embættismanns sem geti farið sínu fram í nafni neytenda og réttinda þeirra án þess að vera öðrum háður á markaði eða innan stjórnkerfisins. Það er auðvitað lykilatriði í þessari umfjöllun að svo virðist sem ábendingarnar, hvort heldur frá Neytendasamtökunum, Alþýðusambandi Íslands eða BSRB, hafi því miður ekki skilað sér alla leið til meiri hlutans í hv. efnahags- og viðskiptanefnd.

Ég vil taka undir það sem oft hefur komið fram í málflutningi Neytendasamtakanna og annarra þeirra sem hafa látið sig þessi mál varða, að ef gera á neytendamálum og neytendavernd almennileg skil í stjórnkerfinu, gagnvart neytendum og almenningi öllum, þá getur hún ekki verið aukabúgrein hjá stofnun sem sinni í raun öðrum verkefnum. Það sendir ekki rétt skilaboð út á markaðinn, bæði til fyrirtækja og neytenda. Þetta virkar þannig, herra forseti, að sterk neytendavernd veitir fyrirtækjunum það aðhald sem þau þurfa. Það sem þarf í okkar frjálsa markaðshagkerfi er að styrkja þann hluta þess þar sem neytendur hafa farið halloka gagnvart valdi fyrirtækjanna, ekki síst auglýsingavaldinu og fjárhagslegu valdi þeirra. Það er hlutverk ríkisins að styrkja þann hluta hins frjálsa markaðsbúskapar sem snýr að almenningi, fólki í landinu, okkur sem förum út í búð og kaupum vörur, okkur sem þurfum að gera viðskiptasamninga, kaupa bíla, undirrita skuldabréf og þar fram eftir götunum.

Með því að gera neytendamál að aukabúgrein eins og þau því miður virðast ætla að verða samkvæmt þessum tillögum þá verður þessum málaflokki ekki lyft eins og þarf að gera. Hann verður ekki gerður sýnilegri í samfélaginu, eins og ég hygg að flest okkar séu sammála um að þurfi, hvernig sem við mundum útfæra það að réttur neytenda verði gerður sýnilegur, framarlega í almennri umræðu og gerð þannig skil að enginn fari í launkofa um að það sé ætlun stjórnvalda að standa vörð um þann rétt. Því miður er svo búið um hnútana í þessum tillögum að ekki verður séð annað en að gera eigi embætti talsmanns neytenda að einhvers konar undirembætti, aukabúgrein í Neytendastofu, þar sem talsmaðurinn hafi ekki sjálfstæðan fjárhag og verði því ekki sjálfs sín herra.

Þann 2. nóvember síðastliðinn mælti sú sem hér stendur fyrir tillögu til þingsályktunar um stofnun embættis talsmanns neytenda og sú tillaga fór til hv. efnahags- og viðskiptanefndar. Þar er lagt til að farin verði önnur leið en hér hefur verið valin til að koma á þessu embætti. Á þessum leiðum er í sjálfu sér mjög einfaldur munur. Munurinn er sá að ég og félagar mínir í Samfylkingunni höfum lagt til að embættið sé sjálfstætt, fjárhagslega sjálfstætt og hafi mannaforráð og rísi því undir nafni, herra forseti. Því miður virðast þær hugmyndir sem þar eru viðraðar og þar eru settar fram ekki hafa ratað inn í þá endanlegu niðurstöðu sem varð hjá meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar. Það er miður, herra forseti, því ég held að með skýrari sýn og betri vinnubrögðum hefði í raun verið hægt að ganga frá þessu máli þannig að flestir mættu vel við una. Það hefði ekki þurft að setja á fót embætti talsmanns neytenda með þeim hætti sem hér er gert, með því að setja hann undir Löggildingarstofu og búa til batterí, ríkisstofnun þar sem neytendamálin eru aukabúgrein. Hér hefði verið hægt að standa svo miklu betur að málum, herra forseti, ef pólitískur vilji hefði staðið til þess. Ég tala í þátíð vegna þess að ég geri ráð fyrir því að meiri hlutinn haldi í þessu máli og þetta verði samþykkt að lokum þó aldrei sé að vita. En mér þykir það mjög miður vegna þess að ég hygg að það sé þrátt fyrir allt vilji hv. þingmanna að styrkja réttindi neytenda á markaði og tryggja neytendavernd sem stendur undir nafni og tryggja að stjórnvöld sinni þeim verkefnum sem ber að sinna í þessum efnum, sem þýðir það, forseti, að starfrækt sé embætti talsmanns neytenda sem sé sjálfstæður, engum háður, hafi sjálfstæð mannaforráð og síðast en ekki síst sjálfstæðan fjárhag og þurfi ekki að leita þjónustusamninga innan þeirrar stofnunar sem hann starfar á, leita þjónustusamninga þar til að geta sinnt skyldum sínum. En því miður, herra forseti, virðist það ekki vera niðurstaðan í þessu máli. Því liggur fyrir að í stað þess að komast að ásættanlegri niðurstöðu sem öllum félli þá hefur það orðið niðurstaða meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar að setja embættið á með þessum hætti. Ég verð að lýsa miklum vonbrigðum mínum með það, herra forseti.