131. löggjafarþing — 128. fundur,  9. maí 2005.

Neytendastofa og talsmaður neytenda.

592. mál
[17:49]

viðskiptaráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (F):

Hæstv. forseti. Ég þakka fyrir þessa umræðu og hv. efnahags- og viðskiptanefnd fyrir störf hennar við málið. Mér finnst hv. þingmenn vera nokkuð svartsýnir. Ég get ekki annað en haldið því fram að þeir séu svartsýnir og mikli þetta óskaplega fyrir sér allt saman, að þetta sé mikið vandamál og vandamál út í gegn, þetta skili okkur engu, þetta sé sýndarembætti og þar fram eftir götunum. Mér finnst mjög leiðinlegt að hlusta á þetta og mér finnst að hv. þingmenn hefðu átt að gefa því fyrirkomulagi séns (Gripið fram í.) sem hér er gerð tillaga um. Ég ætla ekki að halda því fram að þetta sé fullkomið. Auðvitað verðum við eins og aðrar þjóðir að þreifa okkur áfram með hvaða fyrirkomulag hentar best hér. En ég vil segja að með stofnun Neytendastofu og embættis talsmann neytenda sé stigið stórt skref í þágu neytenda.

Talsmanni neytenda er ætlað að standa vörð um hagsmuni og réttindi neytenda og stuðla að aukinni neytendavernd. Hlutverk hans mun m.a. felast í því að taka við erindum frá neytendum, bregðast við þegar hann telur brotið gegn réttindum og hagsmunum neytenda, gefa út rökstuddar álitsgerðir ásamt tillögum um úrbætur, setja fram tillögur um úrbætur á lögum og stjórnvaldsfyrirmælum er varða neytendur sérstaklega og kynna löggjöf og aðrar réttarreglur er varða neytendamál.

Þetta er heilmikið verkefni og Neytendastofu er ætlað að vinna að stefnumótun á sviði neytendamála auk þess sem stofan mun beita sér fyrir því að gerðar verði rannsóknir á sviði neytendamála.

Það er mikið talað um að ekki sé rétt, og ég veit að það kemur fram í umsögnum, að stofna til embættis talsmanns neytenda heldur er lögð áhersla á heitið umboðsmaður. Sem viðbrögð við því vil ég nefna að talsmaður neytenda hefur það hlutverk að taka við erindum frá neytendum, gefa út álitsgerðir og hafa frumkvæði að úrbótum, nánar tiltekið að vera talsmaður neytenda. Embættisheitið umboðsmaður hefur öðlast ákveðna merkingu í hugum okkar á því tímabili síðan stofnað var til embættis umboðsmanns Alþingis og umboðsmanns barna. Það er m.a. ástæða þess að það heiti er ekki notað og ekki gerð tillaga um að það verði notað í sambandi við þessa löggjöf. Ég get ekki séð að það skipti öllu máli og ég veit að hv. þingmenn Samfylkingarinnar taka undir að það skiptir ekki mestu máli, enda hafa þeir lagt fram þingmál þar sem heitið talsmaður er notað.

Talað er um að talsmaðurinn hafi ekki fastan starfsmann og það séu vandræði í kringum það. Það er hins vegar ástæða til að ítreka að embættið er sjálfstætt og fjárhagurinn er líka sjálfstæður. Hann hefur aðgang að starfsfólki Neytendastofu og er heimilt að gera þjónustusamning við Neytendastofuna eins og hér hefur komið fram. Ég tel enga ástæðu til að gefa sér það fyrir fram að þetta sé svo óskaplega flókið kerfi og erfiðleikum bundið að finna út úr hvernig þessu verður best fyrir komið.

Ég heyrði að hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir sagði að álíka fyrirkomulag og hér er lagt upp með hefði mistekist í Danmörku. Sannleikurinn er sá að það er mjög mismunandi hvernig farið er í neytendamál á Norðurlöndunum og hvernig úr þeim er leyst. Það er ekki hægt að finna eitthvert eitt módel sem passar betur við Ísland en annað. Við förum af stað með þetta svona og mér finnst að hv. þingmenn ættu a.m.k. að gefa mér eitt prik fyrir viðleitni. Það er þó verið að stofna til embættis talsmanns neytenda og ég hef trú á því að þetta fyrirkomulag geti gengið. Ef í ljós kemur að svo er ekki verður að bregðast við því en mér finnst þetta vera ákveðinn sigur og ég er hamingjusöm með það ef þetta verður niðurstaða þingsins. Mér finnst ekki sanngjarnt að tala hér um einhverja aukabúgrein og þar fram eftir götunum þó að ég beri ákveðna virðingu fyrir aukabúgreinum og hef sjálf tekið þátt í slíkri starfsemi. Þetta er fyrirkomulag sem við höfum trú á að gangi eftir og ég heyri það og veit að umsagnaraðilar hafa í sjálfu sér samúð með því að í þetta verk er gengið þó að þeir séu efins um útfærsluna.