131. löggjafarþing — 128. fundur,  9. maí 2005.

Neytendastofa og talsmaður neytenda.

592. mál
[17:55]

Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég virði hæstv. viðskiptaráðherra það til vorkunnar að hafa orðið fyrir vonbrigðum með þau viðbrögð sem þetta frumvarp fékk en ég held að hæstv. ráðherra hefði getað sagt sér sjálf að þetta færi svona. Það sem ég skil ekki í þessu er hvers vegna hæstv. viðskiptaráðherra tekur ekki mark á umsögn sinnar eigin stofnunar, Samkeppnisstofnunar, þar sem m.a. er bent á að þetta fyrirkomulag hafi verið reynt áður, eins og kom fram í máli hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur, og ekki reynst vel. Færð hafa verið að því rök af umsagnaraðilum og hér í umræðunni að það að hafa talsmann neytenda ekki sjálfstæðan embættismann með því sem því fylgir nái ekki því markmiði sem verið er að reyna að ná.

Ég ætla ekki að saka hæstv. ráðherra um að reyna ekki að ná réttu markmiði og veit vel að hún lætur ekki deigan síga, en það skiptir máli með hvaða hætti það er gert. Hér er ekki verið að fara rétta leið, herra forseti, að áliti okkar í Samfylkingunni og ég mundi ekki kalla það svartsýni. Það er einfaldlega raunsæi á þá stöðu sem uppi er með hliðsjón af þeim ábendingum sem borist hafa, umsögnum og mati þeirra sem best til þekkja. Ég leyfi mér að halda því fram að Samkeppnisstofnun annars vegar og Neytendasamtökin hins vegar séu sérstaklega þeir aðilar í samfélaginu sem best þekkja til þessa málaflokks, með fullri virðingu fyrir öllum öðrum sem sýsla með neytendamál á Íslandi. Þess vegna hefði verið betra að taka tillit til umsagna og ábendinga sem þaðan koma og vinna málið þannig úr garði, herra forseti, að við gætum sameinast um það.