131. löggjafarþing — 128. fundur,  9. maí 2005.

Neytendastofa og talsmaður neytenda.

592. mál
[18:01]

Frsm. 2. minni hluta efh.- og viðskn. (Ögmundur Jónasson) (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Við höfum heyrt að hæstv. viðskiptaráðherra er afar hamingjusöm með þetta frumvarp. Það er ekki neitt nýtt. Yfirleitt er hæstv. ráðherra Valgerður Sverrisdóttir mjög hamingjusöm með frumvörp sín, eins og við minnumst úr raforkugeiranum, þegar hann var endurskipulagður með hrikalegum afleiðingum fyrir landsmenn sem eru að koma í ljós í hækkuðum raforkureikningum. Hún telur að hún eigi að fá prik fyrir viðleitni, segir hæstv. ráðherra. Það fær hún a.m.k. ekki fyrir vinnubrögð. Það er rétt sem fram hefur komið hjá hv. þm. Þórunni Sveinbjarnardóttur að það hefur ekki verið tekið nægilegt tillit til sjónarmiða þeirra sem best til þessara mála þekkja, Samkeppnisstofnunar, Neytendasamtakanna og annarra aðila. Þessir aðilar komu ekki að samningu frumvarpanna og þegar þeir settu sjónarmið sín fram þá var ekki á það hlustað nema í mjög takmörkuðum mæli.

Varðandi heitið „talsmaður neytenda“ þá er það fremur svo að það hafði pólitískt inntak en að vera heiti á hlutverki embættismanns, þ.e. samkvæmt minni málkennd. Hins vegar skiptir það kannski ekki öllu máli heldur inntakið í starfinu. Ég spyr hvort það hafi aldrei komið til greina að stofnunin væri með einum talsmanni, umboðsmanni eða hvað það svo sem hann héti. Þegar allt kemur til alls er Neytendastofa að sinna neytendamálum, hvort sem það er rafmagnseftirlit eða öryggismál af því tagi þá er sú hugsun þar að baki. Við erum ekki sammála um hvernig eigi að skipa þeim málum almennt, ég og ráðherra, en ég spyr: Hefur ekki komið til skoðunar að líta heildstætt á stofnunina í stað þess að búa til tvíþætt hlutverk innan veggja sömu stofnunar?