131. löggjafarþing — 128. fundur,  9. maí 2005.

Fjáröflun til vegagerðar.

720. mál
[18:08]

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Pétur H. Blöndal) (S):

Herra forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti frá meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar um frumvarp til laga um breyting á lögum nr. 3/1987, um fjáröflun til vegagerðar, með síðari breytingum, sem er á þskj. 1299.

Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund ýmsa gesti sem getið er um í umræddu nefndaráliti.

Í frumvarpinu er gerð tillaga um hvernig hátta skuli uppgjöri þungaskatts þegar tekin verður upp innheimta olíugjalds og kílómetragjalds. Þá er einnig kveðið á um hvernig farið skuli með olíubirgðir sem verða í landinu 1. júlí næstkomandi þegar lög um olíugjald og kílómetragjald taka gildi.

Nefndin leggur til breytingar á frumvarpinu sem getið er um í umræddu nefndaráliti. Má geta þess að í 2. breytingartillögu verður það magn af olíu sem hver má eiga samkvæmt frumvarpinu aukið í 5.000 lítra. Að öðru leyti eru tvær tæknilegar breytingar.

Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með framangreindum breytingum sem gerð er tillaga um á sérstöku þingskjali, þskj. 1300.

Undir nefndarálitið rita auk mín hv. þm. Dagný Jónsdóttir, Birgir Ármannsson, Una María Óskarsdóttir og Sigurrós Þorgrímsdóttir.

Herra forseti. Varðandi það atriði sem ég gat um, að auka magn af olíu sem menn mega eiga úr 1.500 í 5.000 lítra, þá er þess að geta að þetta eru um það bil 10 tankar á stórum vöruflutningabíl. Mörg fyrirtæki nota þetta daglega, þ.e. þetta er dagleg notkun, þannig að það var ákveðið að auka magnið. Auk þess er eftirlitið mjög erfitt þar sem gera þyrfti skoðun á miðnætti 1. júlí.

Þess ber að geta hins vegar í þessu sambandi að menn geta að sjálfsögðu ekki hamstrað olíu fyrir breytinguna. Það eru ákveðin reglugerðarákvæði í öryggisskyni sem varða það hve mikla olíu má t.d. geyma í heimahúsum. Það er yfirleitt bannað og menn þurfa að hafa það í huga.