131. löggjafarþing — 128. fundur,  9. maí 2005.

Breyting á bókun 4 við samninginn milli EFTA-ríkjanna.

614. mál
[18:17]

Frsm. meiri hluta utanrmn. (Sólveig Pétursdóttir) (S):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti utanríkismálanefndar á þskj. 1364. Þetta er mál 614, tillaga til þingsályktunar um heimild til að staðfesta ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 79/2004 og samning EFTA- ríkjanna um breytingu á bókun 4 við samninginn milli EFTA-ríkjanna um stofnun eftirlitsstofnunar og dómstóls.

Nefndin fékk til fundar við sig þau Kristján Andra Stefánsson og Finn Þór Birgisson frá utanríkisráðuneyti, Áslaugu Árnadóttur og Jónínu S. Lárusdóttir frá viðskiptaráðuneyti, Davíð Þór Björgvinsson, fyrrverandi prófessor, og Stefán Má Stefánsson prófessor.

Með tillögunni er verið að innleiða nýjar reglur á EES-svæðinu um samruna fyrirtækja eða samfylkingu fyrirtækja eins og það hefur verið nefnt. Eitt meginmarkmiðið með þeim reglum sem hér er verið að taka upp er að Eftirlitsstofnun EFTA fái sömu heimildir til eftirlits með samfylkingum fyrirtækja og framkvæmdastjórn EB hefur verið veitt með nýrri samrunareglugerð Evrópusambandsins til að ESA sé kleift að framfylgja samkeppnisákvæðum EES-samningsins. Hingað til hefur EFTA-ríkjunum verið heimilt að framsenda samrunamál til Eftirlitsstofnunar EFTA en sá möguleiki mun ekki hafa verið nýttur. Það er hins vegar nýmæli að heimilt verður í ákveðnum tilvikum að framsenda samrunamál frá EFTA-ríki til framkvæmdastjórnar EB. Þessar reglur koma aðeins til skoðunar ef samruni hefur áhrif á viðskipti milli aðildarríkjanna. Við rannsókn mála gildir hins vegar almenna reglan um að innlendum réttarfarsreglum verði fylgt ef rannsókn fer fram hér á landi.

Málið var ítarlega rætt á fundum nefndarinnar. Nefndin hélt m.a. sameiginlegan fund með efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis sem hafði til meðferðar frumvarp til samkeppnislaga. Það frumvarp kveður á um innleiðingu þeirra reglna í landsrétt sem þingsályktunartillaga þessi gerir ráð fyrir. Samkeppnislagafrumvarpið bíður nú 3. umr. svo ekki er ástæða til að fara ítarlega í efnisatriði þessa máls. Flest efnisatriði ættu að hafa komið fram við þá umræðu.

Meiri hlutinn telur rétt að vekja athygli á því að fremur ólíklegt er að ákvæði samrunareglugerðarinnar komi til framkvæmda á Íslandi vegna skilyrða um veltumörk fyrirtækja sem um ræðir.

Hæstv. forseti. Meiri hluti utanríkismálanefndar leggur til að tillagan verði samþykkt. Undir nefndarálit þetta skrifa hv. þingmenn Sólveig Pétursdóttir, Drífa Hjartardóttir, Gunnar Birgisson og Jónína Bjartmarz, en Rannveig Guðmundsdóttir og Þórunn Sveinbjarnardóttir rita undir með fyrirvara.