131. löggjafarþing — 128. fundur,  9. maí 2005.

Samningur milli Íslands og Færeyja um fiskveiðar innan íslenskrar og færeyskrar lögsögu.

704. mál
[18:28]

Frsm. utanrmn. (Sólveig Pétursdóttir) (S):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti utanríkismálanefndar á þskj. 1324. Þetta er mál 704, tillaga til þingsályktunar um staðfestingu samnings milli Íslands og Færeyja um fiskveiðar innan íslenskrar og færeyskrar lögsögu á árinu 2005.

Með tillögunni er leitað heimildar Alþingis til að staðfesta samning milli Íslands og Færeyja um fiskveiðar innan íslenskrar og færeyskrar lögsögu á árinu 2005 sem gengið var frá með bréfaskiptum í Reykjavík og Þórshöfn 17. janúar og 15. febrúar 2005.

Nefndin fékk til fundar við sig þá Tómas H. Heiðar frá utanríkisráðuneyti og Jón B. Jónasson frá sjávarútvegsráðuneyti.

Samningur þessi er sams konar og gerður var á síðasta ári og kveður á um allar veiðar á uppsjávarfiski í lögsögu hvors aðila fyrir komandi veiðitímabil. Færeyskum skipum verður sem fyrr heimilt á loðnuvertíðinni að veiða allt að 10 þúsund lestir af loðnu innan lögsögu Íslands. Kveðið er á um gagnkvæmar heimildir skipa hvors aðila til kolmunnaveiða innan lögsögu hins á árinu 2005. Íslenskum skipum verður heimilt að veiða allt að 1.300 lestir af makríl og 2.000 lestir af síld annarri en norsk-íslenskri innan færeyskrar lögsögu á árinu 2005. Þá eru ákvæði um gagnkvæma heimild til tilraunaveiða á túnfiski innan lögsögu hvors aðila. Loks er í samningnum kveðið á um gagnkvæma heimild skipa hvors aðila til veiða á norsk-íslenskri síld innan lögsögu hins á árinu 2005.

Á grundvelli samnings landanna frá 1976 um heimildir Færeyinga til veiða í lögsögu Íslands hefur verið ákveðið að færeyskum skipum verði heimilt að veiða 5.600 lestir af botnfiski við Ísland á árinu 2005 en þar er um óbreyttar veiðiheimildir að ræða frá fyrra ári.

Hæstv. forseti. Utanríkismálanefnd leggur til að tillagan verði samþykkt. Undir nefndarálit þetta skrifa hv. þingmenn Sólveig Pétursdóttir, Dagný Jónsdóttir, Drífa Hjartardóttir, Rannveig Guðmundsdóttir, Steingrímur J. Sigfússon, Gunnar Birgisson, Jónína Bjartmarz og Þórunn Sveinbjarnardóttir.