131. löggjafarþing — 128. fundur,  9. maí 2005.

Kynning á íslenskri list í sendiskrifstofum Íslands.

296. mál
[18:35]

Frsm. utanrmn. (Sólveig Pétursdóttir) (S):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti utanríkismálanefndar á þskj. 1353, 296. mál, um tillögu til þingsályktunar um kynningu á íslenskri list og hönnun í sendiskrifstofum Íslands.

Með tillögunni er lagt til að ríkisstjórninni verði falið að móta stefnu til þess að koma íslenskri list og hönnun í sem víðustum skilningi á framfæri í sendiskrifstofum Íslands erlendis enda er eitt af hlutverkum þeirra að sinna menningarmálum. Tillagan stefnir þannig að því að greiða götu íslenskrar listar og nytjalistar á erlendri grund.

Nefndin sendi málið til umsagnar til fjölmargra aðila og fékk til fundar við sig Elínu Flygenring frá utanríkisráðuneyti.

Skemmst er frá því að segja að umsagnaraðilar voru almennt mjög fylgjandi þeirri tillögu sem hér liggur fyrir.

Nefndin telur ljóst að íslensk list og nytjalist eigi fullt erindi á alþjóðavettvangi en það hafa sýningar sem haldnar hafa verið erlendis sýnt okkur svo ekki verður um villst. Utanríkisráðuneytið hefur unnið að svona málum en nefndin fellst á að vel fari á að ríkisstjórnin móti heildstæða stefnu um kynningu á íslenskri list og nytjalist erlendis fyrir tilstilli íslenskra sendiskrifstofa. Við þá stefnumótun verður ríkisstjórnin einnig að ákveða hversu miklum fjármunum skuli varið til kynningarstarfs á hverjum tíma.

Hæstv. forseti. Utanríkismálanefnd leggur til að tillagan verði samþykkt. Undir nefndarálit þetta skrifa hv. þingmenn Sólveig Pétursdóttir, Drífa Hjartardóttir, Rannveig Guðmundsdóttir Gunnar Birgisson, Jónína Bjartmarz og Þórunn Sveinbjarnardóttir.