131. löggjafarþing — 128. fundur,  9. maí 2005.

Lánasjóður landbúnaðarins.

786. mál
[18:39]

Frsm. minni hluta landbn. (Jón Bjarnason) (Vg):

Herra forseti. Hér er að koma til 3. umr. frumvarp til laga sem lýtur að því að leggja niður Lánasjóð landbúnaðarins og selja eigur hans. Ég vil við þessa lokaumræðu láta koma skýrt fram það sjónarmið mitt og okkar þingmanna í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði að þetta mál er illa unnið og öll meðferð þess í þinginu hefur verið með þeim hætti að óásættanlegt er.

Ég rakti það við bæði 1. umr. og 2. umr. málsins að málið kom fram á allra síðustu dögum þings eftir að frestur til að skila málum hingað inn til eðlilegrar meðferðar þingsins var útrunninn. Í nefnd var því hafnað að senda það út til skriflegra umsagna eins og hefðbundið er og það keyrt í gegnum nefndina og úr henni án þess að fá þar eðlilega meðferð.

Frumvarpið felur í sér að gert er ráð fyrir að selja eignir Lánasjóðs landbúnaðarins og leggja hann niður. Það á sem sagt að fara að einkavæða og selja 1. veðrétt í nánast flestöllum jörðum á Íslandi.

Fyrir liggur að bændur og bú munu ekki eiga sama aðgang og jafnan aðgang að lánasjóðum, að viðskiptabönkunum. Þar mun verða mismunun á enda er það viðurkennt af hálfu meiri hlutans og er þar velt fyrir sér hvort eigi að fela Byggðastofnun að taka að sér ákveðin byggðahlutverk sem lánasjóðurinn hefur gegnt. Þetta hlutverk Lánasjóðs landbúnaðarins er því fullkomlega skilið eftir í óvissu og má segja að nær hefði verið að skoða betur framtíð og möguleika sjóðsins, afmarka verkefni hans við skilgreind atriði frekar en að leggja hann niður eins og hér er gert. Við höfum bent á að skoða mætti að samreka hann með öðrum sjóðum, Lífeyrissjóði bænda, en ekkert af þessu hefur verið kannað, heldur eingöngu keyrt á það að leggja sjóðinn niður.

Þá hef ég líka gagnrýnt að engin leiðsögn er í frumvarpinu um hvernig með viðskipti bænda skuli farið, hvernig skuli farið með þá samninga sem bændur hafa gert á undanförnum áratugum við lánasjóðinn. Ekkert er þar til leiðbeiningar um hvernig með það skuli farið, hver skuli vera réttur bændanna sem skuldunauta og áratuga viðskiptavina sjóðsins. Engin leiðsögn er um það. Þetta hef ég gagnrýnt og þetta hefur líka verið harðlega gagnrýnt af ýmsum öðrum forustumönnum landbúnaðarins, einnig meðal bænda hjá búnaðarsamböndunum. Það er því margt í frumvarpinu sem að mínu viti og okkar þingmanna Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs er með þeim hætti að óásættanlegt er að samþykkja þetta eins og það liggur fyrir. Gert er ráð fyrir að sjóðurinn starfi til næstu áramóta en engu að síður er þessi flýtir. Því hefur verið hafnað að leita annarra leiða í rekstri sjóðsins en allir viðurkenna samt víðtækt hlutverk hans og að þeim hlutverkum sé ekki lokið og eigi þá að mæta því með öðrum hætti.

Herra forseti. Þetta er eins og í mörgu öðru hjá ríkisstjórninni, einkavæðingarfíknin ræður för og nú á að einkavæða og selja Lánasjóð landbúnaðarins, aðgang að 1. veðrétti í nánast öllum bújörðum á Íslandi, áratuga viðskipti og viðskiptasamningar og trúnaður sem bændur hafa átt við lánasjóðinn. Lánasjóðurinn hefur gegnt gríðarlega miklu hlutverki sem slíkur. Margir bændur hafa byggt upp viðskipti sín með þeim hætti að lánasjóðurinn hefur verið ákveðinn grunnur og síðan hefur verið byggt upp með viðskiptum við sparisjóðina, héraðssparisjóðina. Verði hann seldur er líklegt að sami aðilinn sem kaupir muni heimta það og gera þá kröfu eðlilega að þeirra mati að öll viðskipti fari til viðkomandi fjármálastofnunar. Þetta blandaða form sem hefur byggt upp fjármálaþjónustu víða úti um land getur því verið í uppnámi. Þetta hefur ekkert verið athugað.

Það er því mat okkar þingmanna Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs að vísa eigi frumvarpinu til ríkisstjórnarinnar eins og ég lagði til við 2. umr. og vinna málið betur fyrir næsta haust í trúnaði og góðri samvinnu við bændur, Bændasamtökin og þingið allt. Við höfum lagt til að skipuð væri nefnd þingmanna, allra þingflokka hér á landi og Bændasamtakanna um að skoða hvernig framtíð þessara hluta væri best borgið ásamt endurskoðun á landbúnaðarstefnunni í heild sinni og það er það sem ég held að þurfi að gera, herra forseti.

Því ítreka ég þá skoðun okkar þingmanna Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs að þetta frumvarp eigi að fella.