131. löggjafarþing — 128. fundur,  9. maí 2005.

Verndun Þingvallavatns og vatnasviðs þess.

295. mál
[18:51]

Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Ég fagna því að þessi breytingartillaga skuli hafa verið dregin til baka, því að ég held að hún hafi verið óþörf og hefði getað leitt til þess að menn kæmust í einhvern misskilning um þetta mál. Það er augljóst að hefðbundin beitar- og búskaparafnot eru hin hefðbundnu afnot og varða ekki nýjar greinar í landbúnaði.

Í 3. gr. frumvarpsins stendur að umhverfisráðherra setji reglur um framkvæmd vatnsverndunarinnar, með leyfi forseta: „þar með talið um jarðrask, byggingu mannvirkja, borun eftir vatni, töku jarðefna, vinnslu auðlinda úr jörðu og ræktunarframkvæmdir“ og ég sé ekki betur en skógræktin eigi við um þær, þannig að hér er allt ljóst og skýrt og óþarfi að flækja málið frekar sem nú er á síðasta snúningi, gott mál sem menn hafa borið gæfu til að vera sammála um í öllum meginatriðum.