131. löggjafarþing — 128. fundur,  9. maí 2005.

Almannatryggingar.

587. mál
[20:16]

Þuríður Backman (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Fram hefur komið að hæstv. ráðherra hefur nú um 45 milljónir úr að spila sem hann ætlar sem betur fer að nýta til þess að auka þjónustu við aldraða og öryrkja og sérstaklega að koma til móts við þarfir þeirra sem vilja bæta ástand tannanna og fá sér tannparta í staðinn fyrir að láta rífa úr sér tennurnar og fá sér falskar.

En þar sem það er fjárhagsrammi sem á að móta stefnuna eða marka það endurgreiðsluhlutfall sem sjúklingar eiga að fá þá tel ég að farið sé öfugt í hlutina, það eigi að meta, horfa á heilbrigðisáætlun og hvaða markmið við setjum okkur, það eigi að horfa á tannheilsu barna og unglinga undir tvítugu, aldraðra og öryrkja og áætla það fjármagn sem þurfi til þess að standa undir þeim kostnaði.

Nokkur undanfarin ár hafa ekki allar fjárheimildir verið nýttar til endurgreiðslu fyrir tannlækningar þannig að sú staða getur líka komið upp, hæstv. forseti, að farið verði í áframhaldandi aðhaldsaðgerðir eða niðurskurð og það getur verið á þessu sviði eins og hverju öðru, og þá er réttur sjúklinganna ekki eins tryggður ef hægt er að breyta endurgreiðsluhlutfallinu eða heimild ráðherra til þess að fara í ákveðnar aðgerðir, samanber þær sem hann leggur til í hjálögðum tillögum í reglugerð og ég styð, en réttindin eru skert frá þeim tillögum sem kynntar eru í reglugerðardrögum. Ég tel því að endurgreiðsluhlutfallið — á meðan ekki eru samningar á milli tannlækna og ráðherra sé tryggara að binda réttindi í lagatexta.