131. löggjafarþing — 128. fundur,  9. maí 2005.

Almannatryggingar.

587. mál
[20:29]

Frsm. meiri hluta heilbr.- og trn. (Jónína Bjartmarz) (F) (andsvar):

Herra forseti. Það eru aðeins tvö atriði sem ég vildi árétta út af ræðu hv. þm. Ástu Ragnheiðar Jóhannesdóttur.

Annars vegar, varðandi gjaldskrá tannlækna, benti hv. þingmaður réttilega á að í einhverjum tilvikum munar töluverðu á gjaldskrá ráðherra sem greiðsluþátttakan miðast við og gjaldskrá tannlækna. Nú er það þannig að samningar hafa ekki tekist mörg undanfarin ár við tannlækna þrátt fyrir að gjaldskrá ráðherra hafi verið hækkuð, síðast um 4% og lotið hækkun milli ára. En gjaldskrá tannlækna er frjáls, þeir ráða því sjálfir hvaða gjald þeir taka fyrir sína þjónustu. Aftur á móti hefur komið fram, m.a. í skriflegu svari frá ráðherra varðandi þennan mun, að 10% tannlækna séu þó í takt við gjaldskrá ráðherra og önnur 10% eru ekki nema 10% hærri. Einhverjir möguleikar eru þar til að finna tannlækni til að vinna fyrir sig þessa vinnu samkvæmt þeirri gjaldskrá sem ráðherra tekur mið af.

Hins vegar, af því að fyrirvari hv. þingmanns gengur út á að það sé hættulegt, út frá réttindum hins sjúkratryggða, að færa þessi réttindi í reglugerð. Hv. þingmaður tók dæmi um styrki til bifreiðakaupa sem öryrkjar geta sótt um. Ég vil leiðrétta þann misskilning að það hafi leitt til þess að kjör eða aðstæður öryrkja séu á einhvern hátt fyrir borð bornir. Með þessari sérstöku reglugerð vill svo til að árið 2003 runnu í þetta 164 millj. kr. Árin 2002–2004 hafa farið í þetta tæpar 500 millj. kr. Ef þetta er skerðing á réttindum þá bara skil ég ekki hvað hv. þingmaður er tala um.

Hv. þingmaður slær tilteknum hlutum fram án þess að færa fullnægjandi rök fyrir þeim. Þarna hafa framlögin til að styrkja bifreiðakaup öryrkja þvert á móti stóraukist.

Þetta vildi ég endilega fá að leiðrétta og eins benda á (Forseti hringir.) að ráðherra hefur alltaf gert betur en lögin hafa kveðið á um.