131. löggjafarþing — 128. fundur,  9. maí 2005.

Fólksflutningar, vöruflutningar og efnisflutningar á landi.

698. mál
[21:02]

Frsm. samgn. (Guðmundur Hallvarðsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 73/2001, um fólksflutninga, vöruflutninga og efnisflutninga á landi, með síðari breytingum.

Nefndin hefur fengið fjölmarga aðila á sinn fund og farið yfir málið.

Í frumvarpinu eru lagðar til breytingar sem fyrst og fremst miða að því að einfalda og skýra ákvæði laga um fólksflutninga, vöruflutninga og efnisflutninga á landi. Vandamál hafa komið upp við framkvæmd laganna og var af þeirri sök farið í þá vinnu að einfalda lögin. Lagt er til að fallið verði frá aðskilnaði í lögunum á milli efnisflutninga og vöruflutninga og orðið farmflutningur tekið upp í staðinn. Samkvæmt gildandi lögum er farmflutningur í eigin þágu ekki leyfisskyldur en aðeins ef hann er takmarkaður hluti af rekstri. Í frumvarpinu er lagt til að það skilyrði verði fellt niður og í staðinn miðað við hvort flutningur er í eigin þágu eða stundaður í atvinnuskyni fyrir aðra gegn gjaldi. Þá er í frumvarpinu lagt til að eftirlit með leyfum verði breytt og fært í það form að Vegagerðin taki við ábendingum um brot á leyfisreglum laganna og geti brugðist við með því að leita upplýsinga um þá flutninga sem ökutæki er notað í. Loks er refsiákvæði laganna gert skýrar. Nefndin telur mikilvægt að þeir starfsmenn Vegagerðarinnar sem munu annast eftirlitið fái fræðslu m.a. um hvernig það skuli framkvæmt og valdmörk.

Nefndin leggur til eftirfarandi breytingar á frumvarpinu:

Að leyfishafa verði gert skylt að festa leyfismerki, sem gefið skal út af Vegagerðinni, í framrúðu eða á númeraplötu bifreiðar sinnar.

10. gr. laganna verði breytt og að leyfisskylt verði að reka bifreiðar sem sérútbúnar eru í sérstakar eðalferðir sem boðnar eru ferðamönnum líkt og nú er með bifreiðar sem sérútbúnar eru til fjallaferða. Með eðalferðum vill nefndin ná yfir það sem ýmsir kalla „lúxusferðir“ þar sem boðnar eru til lengri ferða ríkulega búnar bifreiðar.

Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með framangreindum breytingum sem gerð er tillaga um í sérstöku þingskjali.

Jón Bjarnason sat fundi nefndarinnar sem áheyrnarfulltrúi og er samþykkur áliti þessu með fyrirvara.

Undir nefndarálitið skrifa Guðmundur Hallvarðsson, Una María Óskarsdóttir, Einar Oddur Kristjánsson, Björgvin G. Sigurðsson, með fyrirvara, Bryndís Hlöðversdóttir, með fyrirvara, Guðjón Hjörleifsson, Kristján L. Möller, með fyrirvara, Guðjón A. Kristjánsson, með fyrirvara og Magnús Stefánsson.